Hringdi rándýrt símtal til spyrja hvernig ætti að sjóða pasta

Halla Gunnarsdóttir formaður VR á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu …
Halla Gunnarsdóttir formaður VR á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla Gunn­ars­dótt­ir formaður VR á heiður­inn af vikumat­seðlin­um að þessu sinni og valdi hún rétti sem öll fjöl­skyld­an held­ur upp á. Hún seg­ir að kunn­átta í elda­mennsk­unni hafi ekki verið upp á marga fiska þegar hún var um tví­tugt en frá því hafi mikið vatn runnið til sjáv­ar. Sér­stak­lega eft­ir að hún og eig­inmaður­inn henn­ar, Sveinn Máni Jó­hann­es­son, hófu sinn bú­skap og stilltu sam­an strengi. Í dag eru þau bæði mikl­ir mat­gæðing­ar og leggja mik­inn metnað í mat­ar­gerðina og borðhaldið þegar þau halda mat­ar­boð.

„Þegar ég flutti að heim­an upp úr tví­tugu kunni ég ná­kvæm­lega ekk­ert að elda og hringdi rán­dýrt sím­tal í mömmu frá Dan­mörku til að spyrja hvernig ég ætti að sjóða pasta. Hún sagði mér að setja vatn í pott og pasta með. „Hversu mikið vatn og mikið pasta og set­urðu ekki salt og hvað með olíu?“ hrópaði ég í sím­ann ör­vænt­ing­ar­full. Mamma sagði að það væri leiðbein­ing­ar á pakk­an­um,“ seg­ir Halla og skelli­hlær.

Var orðin vel fær í eld­hús­inu

„Þegar ég svo kynnt­ist mín­um ekta­manni var ég orðin vel fær í eld­hús­inu en hann fer­leg­ur viðvan­ing­ur. Ótrú­lega mikið vatn hef­ur runnið til sjáv­ar síðan og í dag erum við þekkt fyr­ir mik­il mat­gæðings­mat­ar­boð þar sem er setið að borðum tím­un­um sam­an og allt krufið sem þarf að kryfja.

Við leggj­um mikið upp úr huggu­legu borðhaldi. Ég vinn aukastarf í Kokku og þegar vakt­irn­ar eru fáar hætti ég til að borga með mér því ég er sí­fellt að bæta aðeins í borðbúnaðinn! Ég er til dæm­is að safna stelli frá Jars og gef litagleðinni óþarf­lega laus­an taum­inn. Það ger­ir svo mikið fyr­ir máltíðina að nota fal­leg­an borðbúnað.“

Var viss um að ég yrði fyr­ir­mynd­ar­upp­al­andi

Halla seg­ir að það hafi líka ný upp­lif­un á mat­ar­tím­an­um þegar hún var kom­in í for­eldra­hlut­verkið. „Áður en ég eignaðist börn var ég viss um að ég yrði fyr­ir­mynd­ar­upp­al­andi í alla staði. Börn­in mín myndu læra góða borðsiði áður en þau byrjuðu að labba og innst inni var ég viss um að matvendi væri upp­eld­is­vanda­mál. Það er því ein­stak­lega gott á mig þegar dæt­ur mín­ar setj­ast við mat­ar­borð og segja „oj“ og sú yngri var ekki orðin tveggja þegar hún átti til að segja „þetta er óges­legt“.

En svo inn á milli koma ýmis merki um að upp­eldið sé að virka, til dæm­is þegar eldri dótt­ir mín, sem er sjö ára, legg­ur fal­lega á borð fyr­ir mat­ar­borð og út­skýr­ir fyr­ir vin­um sín­um að þetta sé svona kvöld­mat­ur þar sem við borðum fyrst einn mat og síðan ann­an og loks­ins fáum við kannski eft­ir­mat.

Tveim­ur dög­um fyr­ir mat­ar­boð erum við oft­ast með áform um ein­fald­leika. En lík­lega er það bara svo að við elsk­um vesen í eld­hús­inu. Það er alltaf eitt­hvað nýtt sem okk­ur lang­ar að prófa og svo flækj­um við hlut­ina eins og við get­um. Í fyrsta sinn sem ég gerði bernaise-sósu fannst mér ég til dæm­is verða að gera es­sens­inn frá grunni og íbúðin angaði í sam­ræmi við það,“ seg­ir Halla og glott­ir.

„Hver­dags­máltíðir eru frek­ar af­slappaðar en við leggj­um mikið upp úr að setj­ast til borðs með dætr­um okk­ar og reyna að spjalla við þær, sem geng­ur svona upp og ofan.“

Starfið hef­ur átt hug minn all­an

Halla hef­ur staðið í stór­ræðum eft­ir að hún tók við nýju hlut­verki í vinn­unni en hún er, eins og áður hef­ur komið fram, formaður VR.

„Ég tók við for­mennsku í VR í októ­ber sl. þegar Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, for­veri minn í starfi, fór í Alþing­is­fram­boð og tók síðan sæti á þingi. Starfið hef­ur átt hug minn all­an, enda eru viðfangs­efn­in óþrjót­andi. Fyr­ir utan hin stóru viðfangs­efni á borð við að fylgja eft­ir kjara­samn­ing­um, ná niður vöxt­um og und­ir­búa næstu lotu kjaraviðræðna, þá eru fjöl­mörg­mál sem varða kjör fé­lags­fólks sem ég hef lagt áherslu á að fylgja eft­ir.

Ég er til dæm­is í miðjum slag fyr­ir hönd stjórn­ar VR til að tryggja að end­ur­greiðslur til fé­lags­fólks vegna sál­fræðikostnaðar séu ekki tekju­skatt­skyld­ar og nú ný­verið fór ég aust­ur í Fjarðabyggð til að mót­mæla mik­illi hækk­un leik­skóla­gjalda í bæj­ar­fé­lag­inu.

Til að stétt­ar­fé­lag sé gott og standi und­ir nafni þurfa ótal þætt­ir að koma sam­an, allt frá sjúkra­sjóði til kjara­málaþjón­ustu og frá sum­ar­bú­stöðum til kröft­ugr­ar hags­muna­gæslu. VR er mjög traust og öfl­ugt fé­lag og ég vona að ég fái umboð til að leiða það áfram,“ seg­ir Halla að lok­um ein­læg og full eft­ir­vænt­ing­ar fyr­ir framtíðinni.

Eldhúsið hjá Höllu er stílhreint og fallegt, þar sem hvítar …
Eld­húsið hjá Höllu er stíl­hreint og fal­legt, þar sem hvít­ar inn­rétt­ing­ar tóna vel við fal­leg­an an­tík­bleik­an lit á veggj­un­um. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Vikumat­seðill­in klár

Halla setti hér sam­an drauma­vikumat­seðil­inn fyr­ir fjöl­skyld­una sem hún von­ar að þau hjón­in nái að töfra fram í vik­unni.

Mánu­dag­ur – Nauta­lund með be­arnaise-sósu

„Áður en ég tók við for­mennsku í VR var ég alltaf að vinna í Kokku á mánu­dög­um og kom þá ekki heim fyrr en und­ir hálf­sjö á kvöld­in. Þá var Sveinn ein­ráður um mat og lík­leg­ur til að hafa komið við í kjöt­búðinni og keypt eitt­hvað alltof dýrt, eins og til dæm­is nauta­lund! Þá er ekk­ert annað en að hræra bernaise og njóta.“

Þriðju­dag­ur - Grjóna­graut­ur

„Á þriðju­degi þarf ég að „kol­efnis­jafna“ eyðslu­semi eig­in­manns­ins og skelli í grjóna­graut í ofni, sem börn­in elska. Stund­um fáum við mjólk beint frá býli og þá er graut­ur­inn ein­stak­lega góður, þó aldrei eins góður og graut­ur­inn sem amma gerði, enda fékk hann að malla í potti lengi á meðan hún stússaði í eld­hús­inu. Við skell­um lifr­ar­pylsu á borðið og kanil­sykri sem er notaður óhóf­lega.“ Hér eru upp­skrift að grjóna­graut og það er auðvitað ekki nauðsyn að vera með kræki­berja­saftið, það er bara val hvers og eins.

Miðviku­dag­ur – Heima­gerður ricotta-ost­ur

„Eigi ég mjólk frá býli flýti ég mér heim og bý til heima­gerðan ricotta-ost. Hæfi­lega mikið vesen og guðdóm­lega góður. Hann er æðis­leg­ur með rauðróf­u­sal­ati en líka á ristað brauð.“

Fimmtu­dag­ur – Salt­fisk­ur í hvít­laukstóm­atsósu með svört­um ólíf­um

„Þegar við gift­um okk­ur héld­um við veislu í Iðnó og buðum upp á salt­fisk frá Fisk­verk­un Kalla Sveins á Borg­ar­f­irði eystra. Hann var al­gjört lostæti, þótt Unn­ur syst­ir mín sé ennþá reið yfir að hafa verið boðið upp á fisk í brúðkaups­veislu. Ef við eig­um salt­fisk í fryst­in­um finnst mér æðis­legt að gera góðan salt­fisk­rétt á fimmtu­degi, ein­hvern veg­inn al­veg rétta stemn­ing­in.“

Föstu­dag­ur – Föstu­dagspít­s­an með parma­skinku

„Mér finnst föstu­dagspít­sa svo ynd­is­leg hug­mynd, en oft erum við svo þreytt eft­ir vik­una að við spæl­um bara egg. En á góðum föstu­degi er skellt í pítsu og þá með al­veg svaka­lega miklu veseni. Móður­bróðir minn er mik­ill pítsu­gerðarmaður og í hans anda er nauðsyn­legt að setja deigið sam­an eft­ir kúnst­ar­inn­ar regl­um og búa til sína eig­in pítsusósu. Skemmti­leg­ast er að leyfa börn­un­um að raða á pítsuna og þá er út­litið oft meira mál en inni­haldið. Ekki sak­ar að fá sér eitt rauðvíns­glas með og borða aðeins meira en hollt get­ur tal­ist.“

Laug­ar­dag­ur - Ind­versk veisla

„Á laug­ar­dög­um erum við oft­ar en ekki með mat­ar­boð fyr­ir vini eða fjöl­skyldu. Við segj­umst alltaf ætla að hafa þetta ein­falt en síðan bæt­ist sí­fellt við planið og áður en við vit­um er Sveinn far­inn að græja heima­gerðan gelato og ég að baka eitt­hvert brauð sem ég hef aldrei bakað áður. Ef ég kemst upp með of mikið er sett sam­an ind­versk veisla og ég tala lát­laust um mat­reiðslu­nám­skeiðin sem ég hef farið á, bæði hér heima og í Del­hi.“

Sunnu­dag­ur - Coq au vin

„Sunnu­dag­ur er rétti dag­ur­inn fyr­ir aðeins meira vesen. Mér finnst frá­bært að malla ein­hverj­ar káss­ur og yfir vetr­ar­mánuðina jafn­ast ekk­ert á við. Ég frysti alltaf af­gangs-rauðvín sem fell­ur til á heim­il­inu þegar ekki tekst að klára úr flösk­unni og nota í elda­mennsku. Ég veit að sann­trúaðir nota bara Búrg­úndí Pinot Noir í Coq au vin og ég merki oft létt­ari vín sér­stak­lega fyr­ir þenn­an dá­sam­lega rétt. Upp­skrift­in henn­ar Ju­liu Child er góð nema ég myndi alltaf kveikja aðeins í koní­ak­inu. Það er mik­il­vægt að vera með smá stæla í eld­hús­inu.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert