„Auðvitað borða ég rjómabollur, annað er guðlast“

Bára Katrín Jóhannsdóttir söngkona og matarleiðsögumaður ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum …
Bára Katrín Jóhannsdóttir söngkona og matarleiðsögumaður ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar. Ljósmynd/Aðsend

Bára Katrín Jóhannsdóttir, söngkona og matgæðingur með meiru, ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni. Hún er einungis 19 ára og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið í hljómsveit í rúmlega sex ár og elskar fátt meira en að spreyta sig í eldhúsinu í matargerð. Hún er ein af þeim sem taka þátt í Söngvakeppninni hjá Ríkisútvarpinu þessa dagana og mun stíga á svið næstu helgi.

„Ég hef alltaf verið mikill matgæðingur frá því í bernsku og ætli það sé ekki mömmu minni að þakka. Ég bý yfir mikilli matarástríðu og hef í rauninni alltaf gert. Eitt af mínum uppáhaldsáhugamálum hefur verið bakstur en undanfarin ár hef ég verið að leika mér í eldhúsinu í matargerð og finnst fátt skemmtilegra en að bjóða vinkonum mínum í mat,“ segir Bára Katrín með bros á vör.

„Í dag, ásamt því að vinna við tónlist, starfa ég sem matarleiðsögumaður um miðbæ Reykjavíkur. Þar kynni ég ferðamenn fyrir íslenskum veitingastöðum sem nota íslensk hráefni eins og lambið okkar og bleikju. Annars er ég líka í hljómsveit sem heitir Dóra & Döðlurnar og hef verið í henni í rúmlega sex ár,“ segir Bára Katrín sposk.

Draumur að rætast

Miklar annir eru hjá Báru Katrínu þessa dagana en á laugardagin,n þann 15. febrúar, keppir hún á seinna undanúrslitakvöldinu í Söngvakeppni Ríkissjónvarpsins með lagið „Rísum upp“. Þá kemur í ljós hvort hún kemst í aðalkeppnina og eigi þá séns að verða fulltrúi Íslands í Eurovision í vor.

„Þetta er sannkallaður draumur að rætast,“ segir Bára Katrín sem hefur dreymt að taka þátt í Söngvakeppninni frá því hún byrjaði í tónlistinni. „Ef þér leiðist, þá er tilvalið að hringja í 900-9903 á laugardagskvöldið næsta og henda einu atkvæði inn,“ segir Bára Katrín lúmsk á svipinn.

Uppáhaldsmorgunmaturinn er hafragrauturinn frá ömmu Báru

Á milli stríða gaf Bára Katrín sér tíma til að svara nokkrum spurningum um matarvenjur sínar enda nauðsynlegt að nærast vel fyrir stóran viðburðinn á laugardaginn.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Oftar en ekki fæ ég mér ristað brauð með avakadó og rjómaosti en minn allra uppáhaldsmorgunmatur er hafragrauturinn hennar ömmu Báru. Hún saltar hann nefnilega svo vel og setur út í hann tómata, sem gerir hann að mjög góðum morgunmat. Þetta hljómar eflaust ekkert sérlega gott en ég hvet fólk til þess að smakka áður en það dæmir.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég er lítið í að borða milli mála, mér líður oft betur að borða bara vel í hverjum matartíma. Þó ef ég verð svöng inn á milli og kannski stutt í mat hendi ég í mig einum banana.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Ég held að sama hvað, hvort sem þú vaknar klukkan átta og borðar morgunmat, eða ekki, þar sem ég veit að margir eru eins og ég og hafa ekki matarlyst snemma á morgnana. Eða hvort þú vaknir aðeins seinna og hádegismaturinn er í raun fyrsta máltíð dagsins, þá er hann algjörlega ómissandi. Það er svo mikilvægt að fá góða næringu fyrir restina af deginum svo að þú verðir ekki að hundfúlri og leiðinlegri týpu því þú ert svo svöng þegar kemur að næstu máltíð, bara út af því þú „nenntir ekki að borða“ í hádeginu. Það eru stór mistök.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Ég á alltaf til annaðhvort kotasælu eða rjómaost, því það er einfaldlega besta álegg sem hægt er að setja á brauð.“

Fólk sem fílar ekki bollur er í afneitun

Borðar þú rjómabollur?

„Auðvitað borða ég rjómabollur, annað er guðlast. Fólk sem segist ekki fíla bollur á bolludaginn er einfaldlega í afneitun og neitar að upplifa sanna hamingju. En ég peppa í drasl öll bakaríin sem eru að prófa eitthvað nýtt þegar kemur að sígildu rjómabollunni því það er svo gaman að sjá alla flóruna af mismunandi bollum.“

Eldar þú saltkjöt og baunir á sprengidag?

„Mamma hefur tekið það á sig að elda saltkjöt og baunir undanfarin misseri en ég viðurkenni að sá réttur er ekki í miklu uppáhaldi. En ég er enginn gikkur og því skal ég alveg borða hann í tilefni dagsins, en helst ekki aftur innan sama árs.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert

ferðu?

„Ef ég á að gera vel við mig þá verður Apótekið fyrir valinu. Á Apótekinu má finna besta eftirrétt landsins að mínu mati: súkkulaðikaka, hjúpuð með súkkulaðimús með hindberjafyllingu. Apótekið getur ekki klikkað.“

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Allt milli himins og jarðar! Í augnablikinu er pítsa með parmaskinku og klettasalati í miklu uppáhaldi.“

Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?

„Eina með öllu. Annað er siðlaust.“

Hægelduð nautalund með heimagerðri bernaise-sósu

Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?

„Uppáhaldsrétturinn minn hlýtur að vera hægelduð nautalund með heimagerðri bernaise-sósu. Gott meðlæti væri að smassa soðnar kartöflur á pönnu upp úr andafitu ásamt fersku salati með granateplafræjum ofan á.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Ég er bara mikið fyrir bæði. Ég hugsa ekki með svona annaðhvort eða hugsunum og því ef bæði kartöflur og gott salat eru á borðinu fæ ég mér bæði.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Ég er mjög hrifin af Hugo Spritz, hann er eiginlega í algjöru uppáhaldi hjá mér og mér finnst hann passa við öll tilefni.“

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka