Bjarni Arason söngvari, gjarnan þekktur sem Látúnsbarkinn, gefur lesendum innsýn í matarvenjur sínar að þessu sinni. Hann hefur gaman af því að borða góðan mat og eldar þegar hann hefur tíma.
Þessa dagana eldar hann eflaust minna þar sem hann er að taka þátt í Söngvakeppni Ríkisútvarpsins og mun stíga á svið í seinni undankeppninni sem haldin verður laugardaginn 15. febrúar næstkomandi. Undirbúningur fyrir keppnina stendur sem hæst þessa dagana og verkefnin mörg. Bjarni er þó ekki að stíga á svið í fyrsta skiptið og hefur tekið þátt áður.
Ég er að taka þátt í Söngvakeppninni í þriðja sinn núna. Ég flyt lag Jóhanns Helgasonar Aðeins lengur og textinn er eftir Björn Björnsson, þá sömu og gerðu lagið Karen sem ég söng í keppninni 1992. En árið 1988 söng ég lag eftir Jakob Frímann Magnússon Aftur og aftur. Ég byrjaði á syngja á unglingsárunum og ferill minn hófst fyrir alvöru árið 1987, þá 16 ára, er ég sigraði Látúnsbarkakeppni Stuðmanna. Allar götur síðan hef ég verið að hljóðrita tónlist, gefa út plötur og syngja við alls konar tækifæri,“ segir Bjarni og bætir við: „Ég væri þakklátur ef lesendur góðir myndu kjósa lagið mitt á laugardaginn aðeins lengur en númerið er 900-9904.“
Þegar umræðan um mat ber á góma segir Bjarni að matarástríðan sé vissulega til staðar. „Ég hef gaman af að borða góðan mat og ég elda mat ef ég hef tíma. Það er lítt gaman að elda mat á hlaupum. Svo er auðvitað frábært að láta fagmenn um að elda ofan í sig, fara út að borða á góðan veitingastað.“
Bjarni gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum um matarvenjur sínar og hvaða veitingastaðir eru í uppáhaldi þegar gera á vel við sig.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég fæ mér gjarnan AB-mjólk, múslí og All bran, svona rétt áður en farið er í vinnuna.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Nei, ég geri nú ekki mikið af því en gott er að eiga hnetur ekki langt undan.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Ég borða sjaldan hádegisverð en örsjaldan læt ég það eftir mér að fara í alvöru hádegismat.
Ég snæði kjarngóðan morgunverð um klukkan 10:30 á hverjum virkum degi í vinnunni sem dugar mér langleiðina yfir daginn.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ískalt sódavatn er staðalbúnaður í ísskápnum. Ostur á brauðið og ekki verra að eiga gott túnfiskssalat.“
Borðar þú rjómabollur?
„Já, þá verða það að vera vatnsdeigsrjómabollur að hætti Silju konunnar minnar. Hún gerir þær allra bestu að mér finnst.“
Eldar þú saltkjöt og baunir á sprengidag?
„Já, ég hef eldað þennan rétt en það er engin regla svo sem. Þetta er alveg hættulega gott dæmi.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég elska indverskan mat. Ég er enn þá að hugsa um indverska matinn sem ég borðaði á æðislegum veitingastað í Nýju Delhi á Indlandi forðum daga. Sennilega besti matur sem ég hef borðað. Ég myndi velja Austur-Indíafélagið ef ég ætlaði að gera mér dagamun sem minnir mig á að ég þurfi að hringja núna og panta borð. Annar frábær staður sem ég myndi fara á er Fröken Reykjavík í Lækjargötunni. Alltaf gott að koma þangað, frábær matur og flott þjónusta.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Ég er mikill pepperóní-maður og vel það yfirleitt á pítsuna. En það er ekki alltaf samt sem maður finnur eitthvað pepperóní á pítsunum sem maður pantar. Best finnst mér að gera þær sjálfur.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„SS-pylsa með öllu nema steiktum.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Held ég verði að segja grilluð maríneruð nautalund með bakaðri kartöflu og bernise-sósu að hætti tannlæknisins Stefáns Erlings Helgasonar, vinar míns. Þetta er ávallt vinsælt hjá mér og fjölskyldu minni.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Alltaf myndi ég velja kartöflur fram yfir salat þ aðó það sé alveg ágætt líka. Ég er mikil kartöfluæta og það væri synd að sleppa þeim. Skemmtilega við þær er að það er hægt að elda þær á svo marga vegu.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Gott kaffi á morgnana er nauðsynlegt og svo verð ég að segja sódavatn.“