Góð og seðjandi hindberjakaka fyrir ástina

Rómantísk og seðjandi hindberjakaka með möndlukaramellu á vel við til …
Rómantísk og seðjandi hindberjakaka með möndlukaramellu á vel við til að gleðja ástina. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Þar sem langa ástarvikan er að hefjast á morgun, föstudaginn 14. febrúar, með Valentínusardegi og endar síðan á konudeginum, sunnudaginn 23. febrúar, er tilvalið að skella í eina hindberjaköku.

Þessi hindberjakaka er ekkert venjuleg, hún er bæði seðjandi og góð með möndlukaramellu. Hindberin minna á ástina og setja hana í rómantískan búning. Heiðurinn af uppskriftinni hefur Hanna Þóra Thordarson, keramiker og ástríðukokkur með meiru, sem heldur úti sínum eigin uppskriftavef.

Hindberjakaka með möndlukaramellu

Botn

  • 175 g smjör, við stofuhita
  • 2½ dl sykur
  • 2 egg
  • 2½ dl rjómi
  • 5 dl hveiti
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 1½ tsk lyftiduft
  • 220 g hindber, fersk eða frosin
  • 1 msk. kartöflumjöl

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 175°C.
  2. Setjið bökunarpappír í lausbotna23 cm smelluform og smyrjið formið með köldu smjöri eða olíu.
  3. Þeytið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós.
  4. Bætið við einu eggi í einu og þeytið á milli.
  5. Bætið rjóma við blönduna.
  6. Blandið síðan saman hveiti, vanillusykri og lyftidufti í skál og hrærið síðan varlega saman við deigið
  7. Setið deigið í formið.
  8. Blandið síðan saman hindberjum og kartöflumjöli og setjið yfir, það er smekksatriði hvort berin eru maukuð aðeins eða látin vera heil. Þrýstið aðeins ofan í deigið.
  9. Setjið síðan formið inn í ofn og bakið í 35 – 40 mínútur.

Möndlukaramella og skraut

  • 75 g smjör
  • 1 dl sykur
  • 2 msk. mjólk
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 100 g möndluflögur

Skraut

  • Fersk hindber og flórsykur

Aðferð:

  1. Setjið smjör, strásykur, mjólk og vanillusykur í pott og látið sjóða í nokkrar mínútur.
  2. Bætið við möndluflögum og hrærið saman.
  3. Smyrjið síðan yfir kökuna og bakið hana í 15 mínútur til viðbótar.
  4. Látið kökuna kólna í 20 mínútur í forminu.
  5. Skreytið með ferskum hindberjum og flórsykri.
  6. Leggið fallega á borð og kveikið á kertum og berið kökuna síðan fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka