Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, IMFR, fór fram síðastliðinn laugardag og þá var Jón Albert Kristinsson bakarameistari útnefndur heiðursiðnaðarmaður IMFR 2025. „Ég er ánægður en fyrst og fremst hissa á því að fólk muni eftir verkum mínum,“ segir hann um útnefninguna.
Halldór Þ. Haraldsson formaður IMFR gat þess í ræðu sinni að Jón Albert hefði með störfum sínum stutt vel við nám og vöxt iðngreinar sinnar, en gullpeningur félagsins, sem fylgir nafnbótinni, er veittur þeim sem hafa aukið fræðslu og framfarir í iðn sinni og hafa náð afburðaárangri í henni.
Bakarameistarinn Kristinn Albertsson, faðir Jóns Alberts, stofnaði Álfheimabakarí 1959, og sonurinn rann strax á lyktina. „Ég var á 11. ári og hreifst af þessum vinnustað, fékk að hjálpa til og fór á samning þegar ég var 16 ára 1964,“ segir Jón Albert, sem tók sveinsprófið frá Iðnskólanum í Reykjavík, í Bernhöftsbakaríi í Bergstaðastræti 1968. „Þá var engin aðstaða í skólanum til að taka prófið,“ útskýrir hann.
Að loknu eins árs námi í kökugerðarlist í Uppsölum í Svíþjóð tók Jón Albert við rekstri Álfheimabakarís, en faðir hans hafði stofnað brauðverksmiðjuna Brauð hf. í Kópavogi með tveimur bakarameisturum um miðjan sjöunda áratuginn og einbeitti sér að því fyrirtæki. Það framleiddi svokölluð Safabrauð, sem nutu mikilla vinsælda. Kristinn og tveir synir hans, Jón Albert og Kolbeinn, keyptu hina út nokkrum árum síðar, breyttu nafninu í Myllubrauð og fluttu starfsemina í Skeifuna í Reykjavík auk þess sem þeir opnuðu kaffistað í Kringlunni. Þeir seldu Mylluna 2002 og árið eftir keyptu feðgarnir og bakarameistararnir Jón Albert og Steinþór Björnsbakarí. „Hann rekur fyrirtækið en ég er á kantinum,“ segir Jón Albert.
Bakarar hafa alltaf tekið daginn snemma til að hafa góðgætið ferskt fyrir viðskiptavini árla dags. „Ég þurfti oft að byrja klukkan þrjú á nóttunni og það var stundum erfitt því mér gekk alltaf illa að leggja mig á daginn.“ Skemmtilegt starf og umhverfi hafi samt haldið honum við efnið. „Í þessu starfi kynnist maður mörgu fólki og þjónar mörgum,“ segir hann. „Það er gaman að gera öðrum til geðs og ánægður kúnni hlýjar manni um hjartaræturnar.“
Jón Albert hefur skilað af sér um 40 lærlingum og haft mun fleiri í vinnu. Hann var í stjórn Landssambands iðnaðarmanna og í fyrstu stjórn Samtaka iðnaðarins auk þess sem hann var þrisvar formaður Landssambands bakarameistara, síðast 2015. „Þetta var mjög gaman, sérstaklega á árum áður, þegar litlu bakaríin voru sterkari en þau eru núna,“ segir Jón Albert.