Tinna Óðinsdóttir, leikaranemi og söngkona með meiru, ljóstrar upp nokkrum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni. Hún segist elska góðan mat en hún sjái ekki um eldamennskuna heima. Hún er 30 ára gömul og tveggja barna móðir og nýtur sín í því hlutverki á Akureyri þar sem fjölskyldan býr.
Hún er ein af þeim sem taka þátt í Söngvakeppni Ríkisútvarpsins og mun stíga á svið í seinni undankeppninni sem haldin verður á morgun, laugardaginn 15. febrúar. Undirbúningur fyrir keppnina stendur sem hæst þessa dagana og eru verkefnin mörg.
„Það er hálfvandræðalegt að ég sé að svara þessu viðtali því ég geri nánast ekkert í eldhúsinu nema að ganga frá. Maðurinn minn er algjör meistarakokkur og ég á ekki breik í hann. Ég er öflug í bakstrinum en ég læt hann alfarið sjá um matinn,“ segir Tinna og glottir.
„Ég elska góðan mat, hef ekkert alltaf gert það en eftir því sem ég eldist því betur er ég að læra að meta góðan og vandaðan mat.“
Tinna gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum um matarvenjur sínar á milli æfinga sem standa nú sem hæst enda ekki nema tæpur sólarhringur til stefnu.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég fæ mér ekkert alltaf morgunmat, mætti vera duglegri, en mínir morgnar fara nú mest í það að gefa börnunum mínum góðan morgunmat og ég á það til að gleyma sjálfri mér. En ef ég borða þá er það oftast próteinþeytingur eða grísk jógúrt.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég gríp oftast í Hleðslu eða bara strangheiðarlegt súkkulaði.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Hinn fullkomni hádegisverður fyrir mér er svona fersk máltíð, mikið grænmeti og kjúklingur eða egg.“
Gerir ástin þín vel við þig í mat og drykk á konudaginn?
„Minn maður er í raun sá eini sem eldar á heimilinu og hann gerir ekki bara vel við mig á konudaginn heldur alla daga ársins.“
Borðar þú rjómabollur?
„Ég elska rjómabollur! Gerdeigsbollur eru bestar.“
Eldar þú saltkjöt og baunir á sprengidag?
„Nei, ég er alls ekki mikið fyrir saltkjöt og allan þennan hefðbundna íslenska mat. Amma mín sér um það.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ef ég vel mér veitingastað þá er það alltaf indverskur staður eða gott sushi. Mér finnst samt bara miklu betra að fá manninn minn til að elda heima, mér finnst maturinn betri og stemningin bara meira kósí.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Mér finnst alveg ómissandi að hafa piparost eða rjómaost á pítsu, gamla góða meat and cheese er bara mín uppáhalds.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Bara ein með öllu nema hráum.“
Hver er þinn uppáhaldsréttur?
„Minn uppáhaldsréttur er pasta carbonara og heimagert hvítlauksbrauð ala maðurinn minn.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég er ekki mikil kartöflukona, þannig að grænmeti færi frekar á diskinn minn.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Minn uppáhaldsdrykkur núna er bleikur Vit-hit. En svo er góður cappuccino alltaf næs.“