„Við munum ná besta árangri Íslands“

Kristín Birta Ólafsdóttir, matreiðslumeistari og meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu, er …
Kristín Birta Ólafsdóttir, matreiðslumeistari og meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu, er mjög hrifin af því að elda og snæða fisk. Smjörsteiktur þorskur er hennar uppáhaldsfiskréttur. mbl.is/Karítas

Kristín Birta Ólafsdóttir, matreiðslumeistari og meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu, segir að fiskur sé einn besti matur sem hún fær og þar ber hæst smjörsteiktur þorskur. Hún ætlar að gefa lesendum Morgunblaðsins uppskriftina að sínum uppáhaldsfiskrétti þessa dagana sem kemur að hluta frá vaktstjóra sem hún vann með í forðum.

Miklar annir eru hjá Kristínu þar sem æfingar með kokkalandsliðinu voru að hefjast auk þess sem hún starfar á Hótel Grand í eldhúsinu. Það er því engin lognmolla hjá henni og ástríða hennar fyrir matargerð fær að blómstra alla daga.

„Að vera í kokkalandsliðinu hefur alltaf verið minn draumur og það er ekkert betra en að vinna hlið við hlið með mjög hæfileikaríku og flottu fagfólki, þetta er svo mikil reynsla. Við hófum æfingar um síðustu helgi fyrir heimsmeistaramótið í matreiðslu sem er næsta stóra verkefnið okkar. Þetta er ótrúlega stórt og krefjandi verkefni sem við erum að fara að byrja á, en samt svo skemmtilegt og spennandi. Það er tiltölulega langt í mótið en æfingaplanið er klárt. Hvert einasta smáatriði verður þróað og fínpússað. Ég er með háar væntingar og býst ekki við öðru en að við munum ná besta árangri fyrir Íslands hönd frá upphafi á mótinu sem fram undan er í nóvember á næsta ári,“ segir Kristín sem er full tilhlökkunar að fara aftur út að keppa.

Kristín Birta er orðin mjög spennt fyrir heimsmeistaramótinu í matreiðslu …
Kristín Birta er orðin mjög spennt fyrir heimsmeistaramótinu í matreiðslu og segir landsliðið ætla sér stóra hluti þar. mbl.is/Karítas

Fiskur er ekki bara fiskur

Þegar Kristín er spurð hvað sé í uppáhaldi að matreiða og snæða segir hún fiskinn vera frábært hráefni í alla staði.

„Fiskur er dásamlegur og einn besti matur sem ég fæ. Mitt uppáhald er hvítur fiskur, bæði að elda og borða. Ferskur fiskur er svo skemmtilegt hráefni og það eru líka svo margar leiðir til að matreiða hann.

Það er mikilvægt að borða fisk reglulega og ég borða yfirleitt fisk tvisvar í viku. Hann er stútfullur af góðu próteini og vítamínum og því ættu allir að borða fisk reglulega. Við pössuðum einmitt upp á að venja dóttur okkar snemma á að borða fisk. Mér finnst svo sorglegt þegar einhver segir mér að hann borði ekki fisk, því hann er þá að missa af svo miklu. Fiskur er ekki bara fiskur; það eru endalausar leiðir til að elda hann eða vinna með hann,“ segir Kristín metnaðarfull.

„Uppáhaldsfiskurinn minn er klárlega þorskur. Fallega smjörsteiktur þorskhnakki er minn uppáhaldsmatur. Mér finnst ótrúlega gaman að elda alls konar fisk með mismunandi grænmeti og meðlæti, en þegar ég borða fisk er mitt uppáhaldsmeðlæti kremað bygg, blómkál, epli og brokkólíní með smjörsósu. Mér finnst best þegar bragðið af fisknum fær að skína í gegn og það eina sem hann er kryddaður með er salt.

Þessi réttur kemur að hluta til frá vaktstjóra sem ég vann með fyrir mörgum árum og síðan hef ég verið að leika mér með meðlætið en þessi eru ávallt uppáhalds. Mér finnst þessi hráefni einföld og ótrúlega góð,“ segir Kristín að lokum með bros á vör.

Smjörsteiktur þorskhnakki með kremuðu byggi, blómkáli, grilluðu brokkólíní, fersku epli …
Smjörsteiktur þorskhnakki með kremuðu byggi, blómkáli, grilluðu brokkólíní, fersku epli með dilli og smjörsósu sem er hreinn unaður að njóta. mbl.is/Karítas

Smjörsteiktur þorskhnakki með kremuðu byggi, blómkáli, grilluðu brokkólíní og fersku epli með dilli og smjörsósu

Þorskhnakki

Fyrir 2

  • 380 g þorskhnakki, skammtið í tvo 190 g skammta
  • Þerrið og saltið létt

Aðferð:

Byrjið á því að hita pönnuna vel og setjið smjör á.

Leggið þorskhnakkann á pönnuna og steikið þar til kantarnir fara að brúnast, setjið þá meira smjör á pönnuna og hreyfið hnakkann til.

Snúið honum síðan við og baðið hann í smjörinu.

Ef bitinn er þykkur er vert að setja hann inn í ofn á meðalhita í örfáar mínútur til að klára að elda hann.

Mikilvægt er að taka hann út rétt áður en hann er fulleldaður og að hann hvíli vel en hann heldur áfram að eldast í hvíld.

Kremað bygg

  • 200 g bygg
  • Graslaukur, saxaður eftir smekk
  • Ferskt dill saxað, eftir smekk
  • Börkur af ½ sítrónu
  • Safi úr ½ sítrónu
  • ½ skalottlaukur, skorinn í litla bita
  • 20 g parmesan-ostur
  • 20 g Feykir ostur
  • 100 g rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða byggið og kælið síðan.
  2. Setjið það síðan í pott með rjómanum og ostinum og hitið.
  3. Þegar osturinn hefur bráðnað bragðbætið þá blönduna með salti, pipar og sítrónusafa.
  4. Setjið síðan restina af hráefnunum út í.

Epli með dilli og sítrónu

  • 1 grænt epli
  • Smá dill
  • 1 sítróna
  • Dillolía (ef vill)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skræla eplið og kúlið það síðan út með melónuskeið (parisian járn) eða skerið það í teninga.
  2. Setjið síðan eplakúlurnar eða bitana í poka með sítrónuberki, sítrónusafa og söxuðu dilli. Kristín notar dillolíu líka.
  3. Lofttæmið síðan pokann og brögðin og liturinn þrýstast inn í eplin.

Brokkólíní

  • Brokkólíní eftir smekk
  • Vatn eftir þörfum
  • Salt eftir smekk
  • Klaki eftir þörfum
  • Brætt smjör eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið brokkólíníið í sjóðandi saltvatn í 1 mínútu og síðan beint í klakabað.
  2. Grillið síðan brokkólíníið annaðhvort á grilli eða í bakarofni.
  3. Raðið á bökunarplötu klædda bökunarpappír og hellið yfir það smjöri.
  4. Eða raðið á grill og hellið yfir það smjöri á grillinu.
  5. Saltið eftir smekk.

Blómkál

  • ½ blómkálshaus eða magn eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið blómkálið í bita og gufusjóðið í 4 mínútur.
  2. Djúpsteikið síðan blómkálið við 180°C hita þar til liturinn verður fallegur og gullinbrúnn.
  3. Saltið strax og það er tilbúið.

Smjörsósa (Beurre monte)

  • 200 g smjör, kalt í teningum
  • Smá vatn
  • Safi úr sítrónu eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið örlítið vatn í pott á hellu og hitið.
  2. Þegar vatn fer aðeins að sjóða lækkið þá aðeins hitann á hellunni og bætið við köldum smjörteningum hægt og rólega út í.
  3. Pískið rösklega á meðan. Þegar allt smjörið er komið út í takið þá pottinn af hitanum/hellunni.
  4. Bragðbætið með sítrónusafa eftir smekk. Það er hægt að setja kryddjurtir og fleira í þessa sósu en Kristín setur bleikjuhrogn.

Samsetning

  1. Raðið síðan þorskhnakkanum ásamt öllu meðlætinu fallega á disk og berið fram líkt og Kristín gerir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka