Þrír íslenskir keppendur á Global Chefs Challenge á Ítalíu

Bjarki Snær Þorsteinsson, Hinrik Lárusson og Jafet Bergmann Viðarsson keppa …
Bjarki Snær Þorsteinsson, Hinrik Lárusson og Jafet Bergmann Viðarsson keppa allir í undankeppninni Evrópu fyrir Global Chefs Challenge sem haldin verður í kringum heimsþing matreiðslumanna sem fram fer í Wales árið 2026. Samsett mynd

Dagana 16. til 18. febrúar fer fram undankeppni Evrópu fyrir Global Chefs Challenge sem haldin verður í kringum heimsþing matreiðslumanna sem fram fer í Wales árið 2026. Í undankeppninni, sem fer fram á Rimini á Ítalíu, eru þrír fulltrúar frá Íslandi sem keppa.

Keppendur á leið út í gærmorgun ásamt aðstoðarmönnunum sínum og …
Keppendur á leið út í gærmorgun ásamt aðstoðarmönnunum sínum og teymi. Ljósmynd/Aðsend

Hinrik Lárusson matreiðslumeistari, einn af eigendum Lúx-veitinga, tekur þátt en Hinrik vann keppnina um Kokk ársins 2024. Hann var um árabil í Kokkalandsliðinu ásamt því að keppa og aðstoða í ýmsum keppnum á síðustu árum. Hann tekur þátt í Global Chefs Challenge, þar sem skylduhráefnin eru lúða, kálfahryggvöðvi og kálfalifur. Hinriki til aðstoðar er Andrés Björgvinsson, sem er hjá Lúx-veitingunum.

Andrés vann um síðustu helgi keppnina um Ungkokk Íslands og um leið þátttökurétt til í Euroskills sem fram fer í Herning, Danmörku í september. Þeir félagar hafa tvær klukkustundir til að afgreiða tveggja rétta matseðil og hefja keppni á morgun, mánudaginn 17. febrúar klukkan átta á staðartíma.

Bjarki Snær Þorsteinsson vann tilitill Grænmetiskokkur ársins 2024 og sá …
Bjarki Snær Þorsteinsson vann tilitill Grænmetiskokkur ársins 2024 og sá fyrsti sem vinnur þann titil. Hinrik Lárusson vann titilinn Kokkur ársins 2024. Ljósmynd/Aðsend

Keppir í Global Vegan Chef

Bjarki Snær Þorsteinsson, sem starfar hjá Turninum á 19. hæð, keppir í Global Vegan Chef Challenge, honum til aðstoðar er María Ósk Steinsdóttir frá Lúx- veitingunum. María aðstoðaði Bjarka einnig í Nordic Green Chef 2023. Bjarki sigraði keppnina um Grænmetiskokk ársins 2024 og er meðlimur í Kokkalandsliðinu. Þau hafa tvær klukkustundir til að afgreiða tveggja rétta grænkeramáltíð og hófu keppni í morgun, sunnudaginn 16. febrúar.

Jafet keppir í Global Junior Chef Challenge

Jafet Bergman Viðarsson sem starfar hjá Torfhúsi Retreat keppir í Global Junior Chef Challenge en keppnin er fyrir ungkokka sem mega ekki vera eldri en 25 ára á keppnisdegi. Jafet er meðlimur í Kokkalandsliðinu og keppti einnig í keppninni Nordic Junior Chef 2024. Jafet keppir án eigin aðstoðarmanns, en keppnishaldari leggur til uppvaskara honum til aðstoðar. Jafet hefur eina klukkustund til að reiða fram einn rétt þar sem skyldu hráefnin eru kálfahryggvöðvi og kálfalifur.

Það verður spennandi að fylgjast með íslensku kokkunum en öll hafa þau sett sér það markmið að komast á verðlaunapall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka