„Ég bý svo vel að Ragnhildur mín er snilldarkokkur“

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu …
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. mbl.is/Anton Brink

Hanna Katrín Friðriks­son at­vinnu­vegaráðherra á heiður­inn af vikumat­seðlin­um að þessu sinni. Það er í nógu að snú­ast hjá henni alla daga og oft vill minna verða úr há­deg­is­matn­um en til stóð.

„Ég reyni að gæta þess að eiga skyr, kota­sælu, epli, blá­ber og þess kon­ar snarl í ís­skápn­um í vinn­unni. Það er gott að geta gripið til þess. En svo finnst mér gott að ná að setj­ast niður í ró­leg­heit­um yfir heima­elduðum kvöld­mat, spjalla og slaka á,“ seg­ir Hanna Katrín.

Hanna Katrín og eig­in­kona henn­ar, Ragn­hild­ur Sverr­is­dótt­ir, eru núna ein­ar á heim­il­inu stærst­an hluta árs­ins enda eru dæt­ur þeirra, Elísa­bet og Mar­grét, báðar er­lend­is í námi.

„Við erum því ekki eins stíf­ar á því að elda kvöld­mat og áður. Ef við höf­um báðar fengið góðan há­deg­is­mat og erum sein­ar fyr­ir þá verður kvöld­mat­ur­inn þann dag­inn gjarn­an skyr­dós eða ristað brauð.“

Hanna Katrín Friðriksson segir að stundum sé kvöldverðurinn skyrdós og …
Hanna Katrín Friðriks­son seg­ir að stund­um sé kvöld­verður­inn skyr­dós og ristað brauð. mbl.is/​Ant­on Brink

Dæmi­gerð vika

Hanna Katrín seg­ist hafa sett sam­an dæmi­gerðan mat­seðil með nokkr­um upp­á­halds­rétt­um. „Það vill oft verða svo að maður gríp­ur til sömu rétt­anna aft­ur og aft­ur. En svo bý ég svo vel að Ragn­hild­ur mín er snilld­ar­kokk­ur.“

Hanna Katrín seg­ist eiga vinn­ing­inn þegar kem­ur að bakstri þó að hún geri minna af því að baka núna en áður fyrr. „Ég held þó enn í stöku upp­skrift­ir og hendi fram ein­hverju góðu þegar mikið ligg­ur við. Hvers­dags er ég þó lík­legri til að baka hrökk­brauð eða ólífu­brauð.“

Mánu­dag­ur – Píta með lamba­kjöti

„Á mánu­dög­um er gjarn­an píta í mat­inn. Þá nýt­um við af­ganga af lamba­kjöti sunnu­dags­ins, bæt­um við sal­ati, tómöt­um, gúrku, rauðlauk, stund­um papriku eða bara hvaða græn­meti sem er til. Rif­inn ost­ur er svo auðvitað nauðsyn. Oft­ast skell­um við til­bú­inni pítusósu út á en ef við höf­um næg­an tíma á mánu­degi þá er heima­til­bú­in fetasósa dá­sam­leg.“

Þriðju­dag­ur – Grilluð bleikja

„Þriðju­dag­ur er fiski­dag­ur. Þegar stelp­urn­ar okk­ar voru litl­ar voru þær hrifn­ast­ar af „bleik­um Barbie-fiski“ og þá var ein­falt að stökkva í fisk­búð á leið heim úr vinnu og kippa með bleikju­flök­um. Bleikj­an er enn í upp­á­haldi, þótt hún sé ekki leng­ur kennd við Barbie. Bleikj­an fer und­ir grillið í ofn­in­um í stutta stund og svo er gott að hafa ein­falt sal­at með.“

Miðviku­dag­ur – Núðlur og græn­meti

„Ég er sér­stak­lega höll und­ir rétti sem hægt er að elda nán­ast í einni pönnu eða potti, að minnsta kosti virka daga. Þess vegna verður núðlurétt­ur með græn­meti oft fyr­ir val­inu – stund­um steikt hrís­grjón í staðinn fyr­ir núðlurn­ar. Reynd­ar þarf bæði pönnu fyr­ir græn­metið og pott fyr­ir núðlurn­ar fyr­ir þenn­an rétt. Ég fylgi upp­skrift­inni ekki al­veg, mín nálg­un ger­ir bara ráð fyr­ir græn­meti og aft­ur græn­meti. Lauk, papriku, brok­kolí, blóm­káli, strengja­baun­um, nóg af hvít­lauk og chilli og svo lúku af cashew-hnet­um. Ég nota oft­ast Ter­iyaki-sósu en stund­um ses­am-engi­fersósu.“

Fimmtu­dag­ur – Fiski­boll­ur

„Það ger­ist ekki ein­fald­ara! Fiski­boll­ur, kart­öflu­smælki, sal­at úr rifnu epli og rif­inni gul­rót og svo gott remúlaði með. Ég játa fús­lega að ég læt Fylgi­fiska oft­ast um að búa bæði til fiski­boll­urn­ar og remúlaðið, enda erfitt að gera bet­ur. En það er um að gera að spreyta sig á að gera þetta frá grunni, þegar tími gefst til.“

Föstu­dag­ur - Kart­öflupítsa

„Á föstu­dög­um er satt best að segja al­geng­ast að við kaup­um ein­hvern skyndi­bita, gjarn­an sus­hi. Oft eru það samt heima­til­bún­ar pítsur, ekki síst þegar við erum í bú­staðnum. Ein­föld marga­ríta með tómöt­um, mozzar­ella og ferskri basilíku er alltaf góð, en upp­á­haldið okk­ar er kart­öflupítsa. Við not­um osta­skera til að sneiða stór­ar kart­öfl­ur í næf­urþunn­ar sneiðar og lát­um þær liggja í hvít­lauk­sol­íu áður en þær fara á pítsuna, með rauðlauk, tim­i­an og rifn­um osti. Ótrú­lega gott – og ekki er verra að fá eitt rauðvíns­glas með eft­ir langa vinnu­viku.“

Laug­ar­dag­ur – Bragðmik­ill salt­fisk­ur

„Það er aft­ur komið að fisk­in­um. Salt­fisk­ur er í upp­á­haldi og sér­stak­lega rétt­ur sem við eld­um oft, salt­fisk­hnakk­ar með svört­um ólíf­um, hvít­lauk, rauðum chilli og stein­selju. Fisk­ur­inn er bor­inn fram með kart­öfl­um og þær eru kryddaðar með hvít­um pip­ar og góðum slatta af rifn­um sítr­ónu­berki.

Sunnu­dag­ur – Gamli, góði lambahrygg­ur­inn

„Það er fátt betra en lamba­kjöt á sunnu­degi. Ég vil hafa lamba­kjötið mitt meyrt og vel eldað, eins og ég ólst upp við. Hrygg­ur er í mestu upp­á­haldi. En þótt ég vilji hrygg­inn vel eldaðan og með stökkri skorpu þá læt ég gamla meðlætið eiga sig. Ég vil helst af öllu syk­ur­brúnaðar kart­öfl­ur og svo ein­falt Waldorf-sal­at með epl­um, vín­berj­um og val­hnet­um, í léttri sósu úr sýrðum rjóma og dá­litlu maj­ónesi. Svo er al­gjört lyk­il­atriði að eiga af­gang fyr­ir mánu­dagspít­una.“

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert