Í gær, sunnudaginn 16. febrúar, hófst undankeppni Evrópu fyrir Global Chefs Challenge sem haldin verður í kringum heimsþing matreiðslumanna sem fram fer í Wales 2026. Í þessari keppni eru þrír aðilar sem vinna sér inn þátttökurétt á að keppa í Wales, einn frá Norður-Evrópu, einn frá Mið-Evrópu og einn frá Suður-Evrópu. Íslendingarnir sem taka þátt eru í flokknum sem tilheyrir Norður-Evrópu.
Bjarki Snær Þorsteinsson, Grænmetikokkur ársins 2024, og María Ósk Steinsdóttir hjá Lux-veitingunum riðu á vaðið í morgun og hófu keppni klukkan 7:45 á staðartíma. Þau voru fyrst til að byrja af öllum keppendum en svo byrjuðu keppendur með fimm mínútna millibili. Alls voru 12 keppendur sem tóku þátt í Vegan-keppninni en þetta var í annað skiptið sem hún var haldin. Í þeirra flokki, Norður-Evrópu, vann Daninn Bjarke Jeppesen, Valerija Cudova frá Lettlandi var í öðru sæti og Bjarki Snær Þorsteinsson náði þriðja sæti sem er mjög góður árangur.
Jafet Bergman Viðarsson frá Torfhúsi Retreat, keppti í Global Junior Chef Challenge en keppnin er fyrir ungkokka að hámarki 25 ára á keppnisdegi. Jafet hóf leik klukkan 12:55 á staðartíma þar sem hann hafði 15 mínútur til að stilla sér upp en eldamennska hófst klukkan 13:10 og skilaði hann rétt sínum einni klukkustund síðar. Jafet hreppti þriðja sætið, Svíinn Benjamin Hellström lenti í öðru sæti og Trym Karlsen frá Noregi sigraði keppnina og verður fulltrúi Norður-Evrópu í Wales á næsta ári.
Keppnin heldur áfram í dag, mánudag og á þriðjudag, þar sem keppt verður í Global Pastry Chef Challenge og Global Chef Challenge. Hinrik Örn Lárusson sem hlaut titilinn Kokkur ársins 2024 frá Lux-veitingunum keppir í Global Chef klukkan 8:10 á staðartíma Mice en Place og fyrstu skil eru klukkan 9:45 og lokaskil síðan klukkan 10:25. Verðlaunaafhending fyrir Global Chef fer fram á morgun, þriðjudag, klukkan 16.00.
Spennandi verður að fylgjast með Hinrik og sjá hvort hann kemst áfram og fái þátttökurétt í keppninni sem haldin verður í Wlales á næsta ári.