Hægeldaður ítalskur nautapottréttur sem er nostalgía að njóta

Þessi ítalski nautapottréttur getur ekki klikkað.
Þessi ítalski nautapottréttur getur ekki klikkað. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Þessi hæg­eldaði ít­alski nauta­pot­trétt­ur með par­mes­an-po­lentu er nostal­g­ía að njóta. Hann er svo góður og enn þá betri þegar verið er að njóta í góðum fé­lags­skap með rauðvíns­glas við hönd. Upp­lagt er að bera rétt­inn fram með ljúf­fengri heima­gerðri kart­öflumús og snittu­brauði ef vill.

Heiður­inn af upp­skrift­inni á Snorri Guðmunds­son mat­gæðing­ur en hann gerði rétt­inn fyr­ir upp­skrifta­vef­inn Ger­um dag­inn girni­leg­an.

Hægeldaður ítalskur nautapottréttur sem er nostalgía að njóta

Vista Prenta

Ítalsk­ur nauta­pot­trétt­ur

  • 500 g nauta chuck, fæst í kjöt­búðum
  • 100 g gul­ræt­ur
  • 60 g sell­e­rí
  • 1 stk. lauk­ur
  • 8 stk. hvít­lauksrif
  • 1 stk. tóm­at­ar í dós
  • 150 ml rauðvín að eig­in vali
  • 1 msk. kjöt­kraft­ur, t.d. Oscar
  • 2 msk. tóm­at­púrra
  • 1 ½ msk. ferskt rós­marín, saxað
  • 1 tsk. óreg­anó
  • 15 stk. græn­ar ólíf­ur
  • 100 g Po­lenta
  • Fín­malað maísmjöl
  • 150 ml rjómi
  • 350 ml vatn
  • 20 g par­mes­an-ost­ur
  • Smjör eft­ir þörf­um
  • 7 g fersk stein­selja

Aðferð:

  1. For­hitið ofn­inn í 150°C með yfir og und­ir hita.
  2. Skerið nauta­kjötið í hæfi­lega bita og veltið upp úr olíu og salti.
  3. Sneiðið lauk, afhýðið hvít­lauksrif­in og skerið gul­ræt­ur og lauk í bita.
  4. Brúnið kjötið vel í potti sem má fara inn í ofn. Þetta er best að gera í 2 skömmt­um.
  5. Setjið kjötið á disk til hliðar.
  6. Bætið ögn af olíu út í pott­inn og bætið sell­e­rí, lauk, hvít­lauk og gul­rót­um út í pott­inn ásamt smá salti. Steikið í stutta stund þar til græn­metið mýk­ist og fer að taka smá lit.
  7. Bætið rós­marín og tóm­at­púrru út í pott­inn og steikið í stutta stund. Bætið rauðvíni næst út í pott­inn og látið malla í stutta stund.
  8. Bætið kjöt­inu, kjöt­krafti, or­egano og tómöt­um út í pott­inn (kremjið tóm­at­ana í sund­ur með hönd­un­um fyrst).
  9. Bætið við nægu vatni svo kjötið sé hulið amk ¾ vegu af vökva.
  10. Setjið pott­inn inn í ofn og látið malla þar í 4-5 klukku­stund­ir eða þar til kjötið er lunga­mjúkt og losn­ar auðveld­lega í sund­ur.
  11. Bætið ólíf­um út í pott­inn þegar um 1 klukku­stund er eft­ir af eld­un­ar­tím­an­um.
  12. Best er að taka lokið af pott­in­um síðustu 45 mín­út­urn­ar af eld­un­ar­tím­an­um svo vökvinn nái að sjóða niður.
  13. Smakkið til með salti og pip­ar þegar pott­ur­inn kem­ur úr ofn­in­um.
  14. Rífið par­mes­an ost með fínu rif­járni.
  15. Setjið vatn og rjóma í pott ásamt 0,5 msk. af flögu­salti. Náið upp suðu og pískið po­lent­una sam­an við í nokkr­um skömmt­um (ann­ars er hætt við að klump­ar mynd­ist).
  16. Lækkið hit­ann í lága still­ingu og hrærið reglu­lega í pott­in­um í nokkr­ar mín­út­ur.
  17. Bætið við vatni eða rjóma eft­ir þörf­um en po­lent­an á að vera rjóma­kennd og ekki stíf.
  18. Pískið að lok­um vænni smjörklípu sam­an við po­lent­una ásamt rifn­um par­mes­an osti.
  19. Smakkið til með salti.
  20. Berið fram strax.
  21. Saxið stein­selju og stráið yfir rétt­inn rétt áður en mat­ur­inn er bor­inn fram.
  22. Njótið í góðum fé­lags­skap með góðu rauðvíni.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert