Hvernig matarboð myndi fullorðin Lísa í Undralandi halda?

Arabella Morgan er sannkallaður ævintýra- og upplifunnar kokkur. Hún stendur …
Arabella Morgan er sannkallaður ævintýra- og upplifunnar kokkur. Hún stendur fyrir matar- og listviðburði ásamt Davíð Erni Hákonarsyni og listakonunni Ásdísi Sif Gunnarsdóttur. mbl.is/Karítas

Arabella Morgan er sannkallaður ævintýra- og upplifunarkokkur sem kann að samtvinna list og matargerð á einstakan hátt. Hún ásamt Davíð Erni Hákonarsyni hjá Skreið og listakonunni Ásdísi Sif Gunnarsdóttur standa fyrir einstökum matar- og listaviðburði laugardaginn 22. febrúar næstkomandi. Viðburðurinn ber heitið The Underground Supper Club og verður haldinn í nýju versluninni Thomsen Reykjavík í hjarta borgarinnar, við Tryggvagötu 21.

Viðburðurinn ber heitið The Underground Supper Club og verður haldinn …
Viðburðurinn ber heitið The Underground Supper Club og verður haldinn í nýju versluninni Thomsen Reykjavík. mbl.is/Karítas

Arabella er fædd í London og alin upp í sólríkum hæðum Provence í Frakklandi. Ástríða hennar fyrir matargerð og sköpun hefur þróast í gegnum árin og er mótuð af fjölbreyttum menningarlegum áhrifum frá Miðjarðarhafinu, Norður-Afríku, Mið-Austurlöndum og norrænni matargerð.

„Ég lærði upphaflega enskar bókmenntir og leiklist, sem kveikti ævilanga ástríðu fyrir sviðslistum og heildrænum upplifunum. Síðar nam ég viðskiptafræði, gestrisni og ferðaþjónustu við César Ritz í Sviss, þar sem ég dýpkaði skilning minn á lúxusþjónustu, viðburðastjórnun og listinni að taka á móti gestum,“ segir Arabella dreymin á svip.

Hefur skapað sérsniðnar matarupplifanir

„Í gegnum árin hef ég starfað sem einkakokkur fyrir VIP-kúnna og skapað sérsniðnar matarupplifanir sem ganga lengra en einungis maturinn. Í dag snýst starf mitt um verkefnastjórnun, ferðalög og ráðgjöf, en sköpunarútrás mína finn ég í ritlist, ljóðagerð og matargerð – nálganir sem fanga tilfinningar og skapa tengsl,“ segir Arabella.

„Ég laðast að verkefnum sem brúa bilið milli raunveruleika og ímyndunar, þar sem fólk getur stigið inn í einstakar upplifanir, hvort sem það er í gegnum ljóð, matarboð eða vandlega skipulagða upplifun,“ bætir hún við.

Hún hefur skapað sérsniðnar matarupplifanir sem ganga lengra en einungis …
Hún hefur skapað sérsniðnar matarupplifanir sem ganga lengra en einungis maturinn. Ljósmynd/Arabella Morgan

Var umkringd fersku hráefni og ilmandi kryddjurtum

Aðspurð segist Arabella hafa mikla ástríðu fyrir matargerð sem lýsir sérstöðu og menningu hvers lands fyrir sig. „Frönsk matargerð, sérstaklega suðurfrönsk, er grunnurinn í minni matreiðsluheimspeki – djúpt rótgróin í hefð og virðingu fyrir hágæða hráefnum. Að alast upp í Provence var ég umkringd fersku hráefni og ilmandi kryddjurtum, með áherslu á árstíðabundið hráefni. Til að mynda væri alrangt að gera tómatsalat á veturna.

Það sem gerir suðurfranska matargerð einstaka er djúp tengsl hennar við Norður-Afríku. Áhrif frá Marokkó, Alsír og Túnis fléttast inn í matarhefðir svæðisins og það er það sem virkilega hefur mótað nálgun mína á matargerð.

Fyrsta skiptið sem ég smakkaði tagine var það á litlum gastronomic veitingastað, og það var alger opinberun. Bragðið var heillandi blanda af hlýju, sítruskryddi og djúpum bragðtónum. Þetta vakti verulega áhuga minn á því hvernig krydd og matargerð gætu sagt sögu og skapað dýpt,“ segir Arabella með bros á vör.

„Ef ég þyrfti að skilgreina hvar ástríða mín fyrir matargerð liggur væri hún á mörkum Miðjarðarhafsins og Mið-Austurlanda. Þar sem sameinast litríkar bragðtegundir, krydd og hægur eldunarmáti, að skapa stundir sem fanga samveru yfir mat. Máltíðirnar eru meira en næring; þær eru upplifanir sem sameina fólk og skapa hlýju og tengsl.“

Deila ástríðu fyrir ferðalögum, listum, tísku og matargerð

Arabella og Davíð Örn yfirkokkur á Skreið taka höndum saman komandi helgi og standa fyrir viðburði sem ber yfirskriftina The Underground Supper Club þar sem matargerðarlist og myndlist mætast saman.

„Davíð og ég deilum ástríðu fyrir ferðalögum, listum, tísku og matargerð, sem hefur leitt til skapandi og skemmilegra samtala um hvernig listir skarast og upplifanir eru hannaðar til að vekja forvitni og tengsl.

The Underground Supper Club, sem ég stofnaði, hófst sem pop-up matarviðburður sem tengdi fólk í gegnum mat og einstaka stemningu. Hver viðburður var haldinn á óvenjulegum stöðum, til að koma gestum á óvart og gleðja þá.

Núna, í samstarfi við Davíð Örn og Ásdísi Sif Gunnarsdóttur, erum við að færa verkefnið á annað stig. Ásdís, sem er listrænn stjórnandi, skapar heildrænar upplifanir þar sem matargerð, sjónræn hönnun og improv viðburðir renna saman í draumkennt andrúmsloft. Einnig mun Jara (Jarþrúður Karlsdóttir) sjá um hljóð og tónlist,“ segir Arabella, sem er orðin mjög spennt.

„Fyrir mig er þetta persónulegt verkefni sem tengist ævilangri ást minni á „performance“ og frásögn. Með Ásdísi við stjórnvölinn munu gestir upplifa kvöld þar sem matur, list og frásagnir sameinast í heildstæða upplifun.

Frönsk matargerð, sérstaklega suður-frönsk, er grunnurinn í hennar matreiðsluheimspeki – …
Frönsk matargerð, sérstaklega suður-frönsk, er grunnurinn í hennar matreiðsluheimspeki – djúp rótgróin í hefð og virðingu fyrir hágæða hráefnum. Ljósmynd/Arabella Morgan

Fyrsta hlutverkið á sviði Lísa í Undralandi 

Þetta skiptið mun viðburðurinn vera haldinn í nýopnaðri fataverslun Thomsen RVK. Ég hef verið ráðgjafi fyrirtækisins undanfarna mánuði og unnið með Gunnari Hilmarssyni og hans frábæra teymi, sem hefur verið spennandi ferðalag og gaman að sjá þennan draum verða að veruleika. Búðin er í svo fallegu opnu rými við Tryggvagötuna og verður gaman að sjá rýmið umbreytast í ævintýraland fyrir fullorðna.

Fyrsta hlutverk mitt á sviði var einmitt Lísa í Undralandi og ég held að það hafi haft mikil áhrif á mig að stíga inn í þann heim af forvitni, ímyndun og óreiðu og mótað mína listrænu sýn. Hvernig myndi hennar barnslega sýn verða þegar hún væri fullorðin? Hvers konar matarboð myndi fullorðin Lísa halda? Þetta matarboð er mitt svar,“ segir Arabella sposk á svip.

Arabella hefur gaman að því að skapa viðburði í samstarfi …
Arabella hefur gaman að því að skapa viðburði í samstarfi við aðra listamenn. Ljósmynd/Arabella Morgan

Matseðillinn er leyndarmál

Aðspurð segir Arabella að matseðillinn sé algjört leyndarmál og því munu matargestir fara í óvissuferð fyrir bragðlaukana.

„Matseðillinn er aldrei fullbúinn eða opinberaður fyrirfram. Leyndardómurinn er hluti af upplifuninni og leyfir gestum að njóta hvers réttar án væntinga.

Við höfum almennar hugmyndir um bragðtegundir og þemu, en matseðillinn þróast þar til rétturinn er borinn fram. Þetta heldur kvöldinu fersku og skapandi, með áherslu á að hver réttur passi við stemningu kvöldsins.“

Nafnið The Underground Supper Club vekur forvitni en Arabella lýsir vel hvernig það varð til.

„Hugmyndin að Underground Supper Club kviknaði á COVID-tímabilinu, þegar ég fann fyrir djúpri þrá eftir félagslegum matarupplifunum sem ég hafði notið í borgum eins og New York og London. Þar höfðu kvöldverðarklúbbar heillað mig – nánar samverustundir þar sem ókunnugir urðu vinir yfir sameiginlegum máltíðum, samtölin flæddu jafnt og vínið, og maturinn var aðeins hluti af stærri upplifun.

Nafnið vísar í bæði sérstöðu og sjálfsprottinn anda kvöldverðanna. Hingað til þurfti maður að vita af þeim til að fá boð, og þátttaka fól í sér meira en að borða – hvort sem það var með fjárframlagi, nærveru, samræðum eða skapandi framlagi.

Hver viðburður er hannaður til að vera hverfult augnablik – eins og að stíga inn í annan heim í eina kvöldstund, upplifun sem verður aldrei nákvæmlega endurtekin.“

Arabella segir matseðillinn sé í þróun þar til rétturinn er …
Arabella segir matseðillinn sé í þróun þar til rétturinn er borinn fram. Það haldi kvöldinu fersku og skapandi, með áherslu á að hver réttur passi við stemningu kvöldsins. Ljósmynd/Arabella Morgan

Hver viðburður einstök kvöldstund

Arabella hefur haldið ýmiss konar matarviðburði í gegnum árin. The Underground Supper Club hefur tekið á sig mismunandi myndir, en alltaf með áherslu á að skapa djúpa, skynræna matarupplifun sem gengur lengra en aðeins maturinn.

„Hver viðburður er einstök kvöldstund, vandlega hönnuð til að umbreyta rými í eitthvað nýtt, hvort sem það er með kertaljósum og sýndarlist, lifandi tónlist eða óvæntum leikhússþáttum sem virkja gestina.

Frá inntímum einkakvöldverðum til stórra sérsniðinna upplifana hefur áherslan mín ávallt verið að skapa stundir sem lifa í minningunni, þar sem matur, list og mannleg tengsl sameinast á hátt sem er bæði töfrandi og persónulegur,“ segir Arabella einlæg.

Arabella segir að matur geti verið listform sem vekur skynjanir …
Arabella segir að matur geti verið listform sem vekur skynjanir og segi sögu. mbl.is/Karítas

Mikilvægasti munurinn liggur í umhverfinu

Þegar Arabella er spurð út í mun á hráefnum, til dæmis frá Frakklandi, miðað við íslenskt, segir hún mikla þróun hafa átt sér stað hér á landi frá því hún kom fyrst.

„Íslenskt hráefni hefur þróast mikið frá því ég flutti hingað árið 2007 og ég er ánægð með úrvalið sem við höfum að vinna úr núna, þrátt fyrir að verð geti oft verið ansi hátt. Það er mikil ánægja að vinna með ástríðufullum framleiðendum sem leggja metnað í að veita besta hráefnið, hvort sem það er innlent eða erlent.

Mikilvægasti munurinn á íslensku og frönsku hráefni liggur í umhverfinu: Í Provence eru sólríkir grænmetisgarðar, ilmríkar kryddjurtir og ólífuolía grunnurinn í öllu. Á Íslandi er hins vegar einstök fegurð, villtar kryddjurtir, framúrskarandi fiskur og lambakjöt sem er einstakt á heimsvísu.

Það sem ég elska mest er að sameina þessa tvo heima – að blanda Miðjarðarhafs- og Mið-Austurlandaáhrifum við norrænt hráefni til að skapa eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Arabella og bætir við að þróunin hér á landi sé blómstrandi þessa dagana.“

Maturinn getur verið listform sem vekur skynjanir

„Matarupplifanir á Íslandi eru í mikilli þróun og það er mikill kraftur í íslensku matarsenunni. Mér finnst spennandi að sjá hvernig framleiðendur og kokkar vinna með staðbundið hráefni en blanda inn alþjóðlegum áhrifum á ferskan hátt.

Ég vona að framtíðin feli í sér meira samstarf milli kokka, listamanna og skapandi einstaklinga. Matur getur verið listform sem vekur skynjanir og segir sögu.

Það sem ég kann verulega að meta við íslenska matargerð í dag er að hér er mikið tiltraunastarfí gangi hjá matreiðslufólki, þar sem verið er að blanda saman alls kyns stílum með íslenskum hráefnum. Í raun er verið að skapa og finna upp hvað íslensk matargerð er. Sérstaklega þar sem Ísland hefur í raun enga upprunalega ákveðna kulinaríska hefð, sem er í raun eins og auður strigi fyrir kokka til að prófa og skapa nýjungar.

Mig langar að sjá The Underground Supper Club þróast sem hluta af þessari hreyfingu og bjóða upp á fleiri óhefðbundnar og heildrænar matarupplifanir – bæði á Íslandi og víðar. „The Surreal Underground Supper Club of the Curious“ - a grown-up wonderland.“

Vert er að geta þess að viðburðurinn er unninn í samstarfi við Íslenska hollustu og Og natura sem munu leggja til fallegar vörur úr hreinu íslensku hráefni.

Arabella í góðum félagsskap í eldhúsinu.
Arabella í góðum félagsskap í eldhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir áhugasama sem vilja taka þátt eða halda slíkan viðburð fyrir einka- eða fyrirtækjaaðstæður er hægt að senda tölvupóst á Arabellu en hún er með netfangið arabella@somnium.is.

Hægt er að fylgjast með Arabellu á Instagramsíðunum @theundergroundsupperclub og @bellamorgan.

 

 

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert