Sáu gat fyrir kaffihús með heimabökuðum og plöntumiðuðum veitingum

Bernódus Óli Einarsson, alla jafna kallaður Benni, Hrafnhildur Gunnarsdóttir og …
Bernódus Óli Einarsson, alla jafna kallaður Benni, Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Júlía Sif Liljudóttir eru eigendur Plöntunnar Bístró í Norræna húsinu. mbl.is/Ólafur Árdal

Kaffihúsið og bístróið, Plantan Bístró, opnaði með pomp og prakt í lok janúar þar sem boðið var til opnunarhófs. Staðurinn er staðsettur í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni og mun án efa gleðja samfélagið þar í kring. Matar- og menningarflóran blómstrar á háskólasvæðinu sem er afar ánægjuleg þróun.

Plantan er stofnuð af þremur vinum, Bernódusi Óla Einarssyni, alla jafna kallaður Benni, Hrafnhildi Gunnarsdóttur og Júlíu Sif Liljudóttur. Stofnun Plöntunnar var í raun mjög tilviljanakennd byrjun en árið 2021 voru Benni og Júlía að vinna saman á öðrum vinnustað þegar Júlía sagði Benna frá því að hana hafi alltaf dreymt um að opna kaffihús.

Hugmyndasmiður fyrir plöntumiðaðar uppskriftir

Þá höfðu Benni og Hrafnhildur, sem eru par, verið að taka þátt í hugmyndasamkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um Sunnutorg í Laugardal sem hafði svo orðið lítil hreyfing á og fannst kjörið að fá Júlíu með í þessa hugmynd þar sem hún er öflugur bakari og hugmyndasmiður fyrir plöntumiðaðar uppskriftir.

Mjög girnilegt kaffihlaðborð er í boði á Plöntunni Bístró, allt …
Mjög girnilegt kaffihlaðborð er í boði á Plöntunni Bístró, allt gert frá grunni og uppskriftirnar eru plöntumiðaðar. mbl.is/Ólafur Árdal

„Hrafnhildur hefur mikla reynslu úr stóreldhúsum og átti þennan draum um eigið kaffihús líka. Benni átti í raun ekki að koma mikið að daglegum rekstri en þegar fyrirtækið fór af stað varð nauðsynlegt gefa rekstrinum meiri tíma og í dag erum við öll að vinna á fullu hjá Plöntunni á milli fæðingarorlofs og annarra skemmtilegra verkefna,“ segir Júlía með bros á vör.

Plantan Kaffihús sem er fyrsti staðurinn okkar var stofnaður vegna þess að við sáum gat á markaðnum fyrir kaffihús með góðum, heimabökuðum veitingum sem væru auk þess plöntumiðaðar. Fókusinn þar er að gera hefðbundnar kökur og bakkelsi og skipta út örfáum innihaldsefnum fyrir vörur úr plönturíkinu, eins og t.d. mjólk fyrir haframjólk,“ segir Benni.

„Okkur hefur alltaf dreymt um að geta gert meiri mat en vegna plássleysis á fyrsta staðnum okkar hefur það ekki verið raunhæft og þess vegna sáum við fullkomið tækifæri í Norræna Húsinu til að gera það. Okkur hefur einnig fundist vanta fleiri valkosti fyrir góðan og hollan grænmetismat upp á síðkastið og því langar okkur að fylla í það gat með Plöntunni Bístró. Á báðum stöðum setjum við ofuráherslu á gott kaffi og eigum í góðu samstarfi við kaffibrennsluna Kaffibrugghúsið með það, enda algjörir snillingar sem standa að því,“ bætir Hrafnhildur við.

Í boðið eru meðal annars réttir sem eiga vel við …
Í boðið eru meðal annars réttir sem eiga vel við fyrir dögurðinn. mbl.is/Ólafur Árdal

Fyrsta hugmyndin sem kom í hugann

Þegar þau eru spurð út í nafnið er svarið einfalt. „Nafnið Plantan varð í raun fyrir valinu þar sem það var fyrsta hugmyndin sem kom í huga, við fórum tíu hringi með það þar sem okkur fannst það ekki nógu töff en enduðum alltaf á sama stað af því öll trendí-nöfnin sem okkur datt í hug voru nú þegar í notkun, og eftir á að hyggja passar nafnið Plantan bara fullkomlega við þá stemningu sem við viljum búa til á okkar stöðum, ekki of hátíðlegt og passlega heimilislegt. Nafnið er auðvitað líka vísun í það að allt á okkar matseðlum er plöntumiðað,“ segir Benni.

Aðspurð segir þríeykið að undirbúningurinn fyrir opnunina hafi varið snarpur og þau hafi hent sér í verkið án þess að hugsa of mikið út í það. 

„Þetta er búin að vera ansi snörp lota, við fengum staðinn afhentan í byrjun janúar síðastliðinn og höfum síðan þá breytt útliti á afgreiðslu og í samstarfi við Norræna húsið tekið til baka breytingar sem höfðu áður verið gerðar og komið rýminu að sumu leyti í upprunalegt horf.

Það mætti þó segja að undirbúningurinn til að takast á við þetta verkefni sé búinn að vera lengri en það eru liðlega þrjú ár síðan við opnuðum á Njálsgötu. Alls konar hugmyndir sem við höfum ekki getað komið af stað á hinum staðnum okkar eru loksins verða að raunveruleika núna í Norræna húsinu,“ segir Júlía.

Árstíðarbundnar veitingar

Hverjar eru helstu áherslurnar í veitingunum sem í boði eru?

„Veitingarnar sem við bjóðum upp á í Norræna húsinu verða árstíðarbundnar og mun matseðillinn rúlla sirka fjórum sinnum á ári og við munum reyna að nálgast hráefni sem er bæði nálægt okkur og að blómstra á þeim tíma sem það er notað. Allur matseðillinn okkar verður grænmetismiðaður og okkur langar til að halda áfram að sýna fólki hvað það er hægt að gera ljúffenga rétti úr frekar hefðbundnu hráefni sem hægt er að nálgast í flestum búðum. Okkar sérstaða verður að bjóða upp á matseðil sem er allur úr plönturíkinu en slær öðrum tegundum af mat ekkert eftir,“ segir Benni sem er mjög spenntur fyrir komandi tímum.

Benni segir að í boði verði árstíðarbundnar veitingar.
Benni segir að í boði verði árstíðarbundnar veitingar. mbl.is/Ólafur Árdal

Allt matarkyns sem við bjóðum upp á bæði á Plöntunni Kaffihúsi og Plöntunni Bístró er gert frá grunni, við setjum mikinn metnað í að halda því prinsippi þar sem það skilar sér alltaf í bragðinu,“ bætir Hrafnhildur við.

Geta skapað minningar með sínum nánustu

Hugsið þið þetta sem hverfisstað?

„Já, við gerum það. Við viljum auðvitað ná fólki úr miðbænum, Vesturbæ og Skerjafirði til okkar þar sem Norræna húsið er í göngufæri við öll þessi hverfi. Við stefnum að því að Plantan Bístró verði staður þar sem fólk getur sest niður og fengið smá pásu frá hinu daglega lífi, skapað minningar með sínum nánustu og átt góðar stundir. 

Plantan Bístró er staðsett í Norrænahúsinu í Vatnsmýrinni þar sem …
Plantan Bístró er staðsett í Norrænahúsinu í Vatnsmýrinni þar sem útsýnið er ægifagurt í öllum veðrum. mbl.is/Ólafur Árdal

Við höfum gert breytingar inni í veitingarýminu með því til dæmis að setja upp barnahorn sem ætti að gera foreldrum ungra barna auðveldara að koma til okkar með börn og svo viljum við auðvitað benda á barnabókasafnið sem er frábært hér í Norræna húsinu. Plantan Bístró er staður þar sem allir ættu að finna eitthvað fyrir sig, jafnt ungir sem aldnir og því vonum við að við fáum góðar viðtökur í hverfunum hér í kring,“ segir Júlía.

„Við erum ótrúlega spennt að byrja þetta ævintýri, að taka á móti viðskiptavinum sem hafa vanið komu sína í Norræna húsið í gegnum áranna rás ásamt því að kynna veitingastaðinn og húsið fyrir þeim sem hafa ekki komið áður og upplifað þá góðu og hlýlegu stemningu sem ríkir í húsinu öllu, á veitingastaðnum, bókasafninu og sýningarsölunum.

Staðurinn er stílhreinn og fallega innréttaður. Breytingar hafa verið gerðar …
Staðurinn er stílhreinn og fallega innréttaður. Breytingar hafa verið gerðar inni í veitingarýminu og til að mynda er búið að gera barnahorn. mbl.is/Ólafur Árdal

Við viljum að lokum þakka Sigurlaugu sem var með SONO matseljur hér á undan okkur fyrir þann góða grunn sem hún lagði hér síðustu ár fyrir grænmetisstað og hlökkum mikið til að halda þeirri vegferð áfram með okkar eigin áherslum,“ segir Benni að lokum.

Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum nýrra eigenda.
Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum nýrra eigenda. mbl.is/Ólafur Árdal
Súpurnar njóta mikilla vinsælda á staðnum.
Súpurnar njóta mikilla vinsælda á staðnum. mbl.is/Ólafur Árdal
Grænmetisréttirnir eru sérstaklega skemmtilegir, bæði fallegir og góðir.
Grænmetisréttirnir eru sérstaklega skemmtilegir, bæði fallegir og góðir. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert