Hér kemur fyrsta uppskriftin að bollum frá Elenoru Rós Georgsdóttur bakara í ár. Elenora hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með einlægri framkomu sinni og bakstri. Einn af hennar uppáhaldsdögum á árinu er bolludagur og hún kallar hann þjóðarhátíðardag bakara. Það styttist óðum í bolludaginn en hann er mánudaginn 3. mars næstkomandi og þá er ekki eftir neinu að bíða og byrja að æfa bollubaksturinn.
Elenora Rós Georgsdóttir bakari hefur
unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með
útgeislun sinni og bakstri. Hún elskar fátt meira en að töfra fram bollur í tilefni bolludagsins.
Ljósmynd/Thelma Arngríms
Fátt nýtur jafnmikilla vinsælda og bollurnar þegar þær mæta í bakarí landsins. Heimabakaðar bollur eru ljúfmeti að njóta og allir geta bakað sínar eigin bollur og valið sína uppáhaldsfyllingu í bolluna. Síðan getur hver og einn valið hvað fer á toppinn.
Þessi uppskrift er skotheld að klassískri bollu eins og við þekkjum hana öll og Elenora notar Freyju suðusúkkulaði í staðinn fyrir glassúr ofan á toppinn. Síðan er hægt að setja hvað sem er á toppinn eftir smekk hvers og eins.
Er ekki lag að taka forskot á bollusæluna um helgina og baka eins og eina til tvær uppskriftir og njóta?
Við eigum svo von á fleiri uppskriftum von bráðar hér á matarvefnum.
Hin klassíska rjómabolla hittir ávallt í mark hjá unnendum bolludagsins.
Ljósmynd/Elenora Rós Georgsdóttir
Klassísku bollurnar hennar Elenoru
- 40 g mjólk
- 70 g vatn
- 50 g smjör
- 1 tsk. sykur
- 80 g sterkt hveiti/brauðhveiti
- 2-3 egg
- 1/4 tsk. salt
Á milli og ofan á
- Þeyttur rjómi
- Góð sulta
- Brætt suðusúkkulaði frá Freyju á toppinn og súkkulaðispænir frá Freyju til skrauts
Aðferð:
- Byrjið á að hita mjólkina, vatnið, smjörið og sykurinn upp að suðu.
- Bætið hveitinu saman við og hrærið stanslaust þar til filma myndast á botninum á pottinum og deigkúla fer að myndast úr deiginu. Mikilvægt er að nota brauðhveiti svo bollurnar falli ekki og haldi formi. Deigið á að losna vel frá hliðum pottsins þegar það er tilbúið.
- Færið deigið í hrærivélaskál og hrærið það þar til það er orðið volgt og þið getið snert það án þess að finna hita.
- Hrærið saman eggjum og salti til að brjóta upp eggin og blandið þeim vel saman við saltið.
- Bætið eggjunum saman við í nokkrum skömmtum og hrærið vel inn á milli. Hrærið þar til deigið er ekki lengur stíft en heldur þó enn þá formi. Þegar það lekur af sleifinni í eins konar V-formi þá er það tilbúið.
- Sprautið deiginu á pappírsklædda plötu með góðu millibili.
- Stillið ofninn á 220°C.
- Þegar ofninn er tilbúinn eru bollurnar settar inn í ofninn og hitinn lækkaður í 190°C í 15 mínútur.
- Eftir 15 mínútur er hitinn lækkaður í 170°C og bakaðar áfram í 15-20 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar og búnar að mynda góða skorpu að utan.
- Skerið bollurnar þegar þær hafa kólnað, fyllið með góðri fyllingu, þeyttum rjóma og toppið með dýrindis suðusúkkulaði frá Freyju.