Eins og landsmenn vita þá heyrir Fiskidagurinn á Dalvík sögunni til. Þessi einstaka samkoma, sem mun lifa um ókomna tíð í hugum Íslendinga, fær þó óvænt framhaldslíf næstkomandi laugardag þegar Fiskidagstónleikar verða haldnir með pompi og prakt í Eldborgarsal Hörpu undir forystu Dalvíkingsins knáa, Friðriks Ómars.
Stór þáttur í hinni rómuðu fiskidagshátíð á Dalvík var sjálf fiskisúpan og af því tilefni hafa veitingastaðirnir í Hörpu, La Primavera og Hnoss, ákveðið að vera með sérstakan fiskidagsmatseðil um næstu helgi þar sem stjarnan verður sérlöguð fiskidagssúpa.
Það verður ekki nein venjuleg fiskisúpa á ferðinni en það eru goðsagnir í matargerð sem eiga heiðurinn að súpunni. Leifur Kolbeinsson, listakokkur á La Primavera, fékk til liðs við sig Rúnar Marvinsson, ókrýndan konung íslenskrar sjávarréttamatreiðslu, og saman fullkomnuðu þeir fiskidagssúpuna. Grunnur súpunnar eða fiskisoðið sjálft er lagað eftir áratugagamalli uppskrift Rúnars.
„Það var virkilega spennandi að fá að laga fiskidagssúpuna í ár, og auðvitað heiður að fá Rúnar Marvins með mér í verkefnið. Rúnar er einn af þeim kokkum sem hafa haft ómæld áhrif á íslenska matargerð með því að fara óhefðbundnar leiðir og elda með hjartanu,“ segir Leifur Kolbeinsson.
Rúnar Marvinsson er Íslendingum góðkunnur fyrir matreiðslu sína á sjávarfangi og er hann nánast á goðsagnakenndum stalli í þeirri deildinni. Fiskisúpur Rúnars eru landsfrægar og þeir Íslendingar sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að bragða kryddlegnu gellurnar hans Rúnars urðu aldrei samir á eftir.
„Fiskidagsmatseðillinn er að vonum afar spennandi og þar kennir ýmissa grasa. Smörrebröd með steiktri rauðsprettu, gratíneraður plokkfiskur og steiktur saltfiskur eru meðal þess sem í boði er á Hnoss Bistro á jarðhæð Hörpu og á La Primavera á fjórðu hæðinni má gæða sér á pönnusteiktum saltfiski og grillaðri túnfisksteik,“ segir Leifur enn fremur.
Gestir Fiskidagstónleikanna eiga því von á góðu um helgina, en til þess að sem flestir eigi kost á því að bragða fiskidagssúpuna verður hún einnig framreidd í bollum á súpubörum víðs vegar um Hörpuna á tónleikakvöldinu.