Gerjaður kasjúostur með zaatar og kúmen sem kitlar bragðlaukana

Æðislegur kasjúostur sem passar fáranlega vel ofan á frækex. Bragðbomba …
Æðislegur kasjúostur sem passar fáranlega vel ofan á frækex. Bragðbomba sem gleður bragðlaukana. Ljósmynd/Hildur Ómarsdóttir

Hildur Ómarsdóttir uppskriftahöfundur sem heldur úti sínum eigin uppskriftavef gerði þennan syndsamlega góða kasjúost á dögunum sem sló rækilega í gegn. Hér er á ferðinni gerjaður kasjúostur með zaatar og broddkúmeni sem bragð er af.

Hildur segir að kasjúostar hafi orðið að hálfgerðu áhugamáli hjá henni um jólin og hún leiki sér gjarnan að því að gera stinna osta til að setja á ostabakkann.

„Mig langaði að útbúa uppskrift sem væri einföld úr einföldum hráefnum og ekki alltof tímafrek, eða kallaði á margra daga bið í gerjun. Það eru til svoleiðis ostar líka en ég þekki mig, ég er ekkert alltof mikið að skipuleggja langt fram í tímann og straxveikin er fljót að kikka inn ef mig langar í eitthvað,“ segir Hildur.

Hvarf vel ofan í afa og ömmu

„Eftir nokkrar tilraunir og margar kasjúhnetur, þá er ég ótrúlega ánægð með þennan kasjúost sem hvarf vel ofan í afa og ömmur, vinkonur, krakka og pabba þeirra. Broddkúmenið (cumin) og zaatar gerir ostinn líka að annars konar upplifun sem kemur á óvart,“ segir Hildur að lokum.

Uppskriftin gerir tvær vænar ostakúlur og auðvitað er hægt að helminga uppskriftina fyrir bara eina kúlu. Það er fullkomið að prófa þessa uppskrift fyrir næsta vinahitting og bjóða upp á girnilega ostabakka sem kitlar bragðlaukana.

Kasjúostakúlur með zaatar og broddkúmeni

  • 2 stk. ostaklúta/síjuklúta (ekki nauðsyn)
  • 400 g eða 2 pokar lífrænar kasjúhnetur
  • Duft innan úr 2 hylkjum af Probi original mjólkursýrugerlum
  • 1 ½ dl vatn eða minna, því minna því stinnari ostur.
  • ½ tsk. jurtasalt
  • 1 tsk. laukduft

Toppið með

  • ¼ dl zaatar krydd
  • ½ dl heil cumin fræ (broddkúmen, ekki kringlukúmen)

Aðferð:

  1. Kasjúhnetum, kryddi, salti og góðgerlum komið fyrir í blandara og setjið af stað.
  2. Hellið vatninu rólega út í á meðan blandarinn vinnur í lágri stillingu (ef blandarinn býður upp á það). Því minna af vatni því stinnari ost fáið þið, en við viljum samt fá fína áferð.
  3. Skiptið ostablöndunni nú í tvo helminga og komið fyrir í hvorn sígarettupokann eða sína skálina.
  4. Ef þið notið síjupoka er gott að setja þá ofan á sigti með skál undir sigtinu svo það myndist loftun. Ef gerjað er í skál þá myndast ekki húð utan um ostinn og gerjunin mögulega ögn minni en það er allt í lagi.
  5. Leyfið ostinum að gerjast í stofuhita í sólarhring.
  6. Hrærið saman zaatar og cuminfræjum og veltið ostinum upp úr kryddblöndunni og þrýstið fræjunum vel að ostinum til að reyna að ná þekju.
  7. Nú má annaðhvort setja ostinn inn í ísskáp eða njóta hans strax.
  8. Osturinn geymist í að minnsta kosti viku inni í ísskáp.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert