Mikið verður um dýrðir á veitingastaðnum SKÁL að Njálsgötu 1 í Reykjavík á morgun, mánudaginn 24. febrúar, og þriðjudaginn 25. febrúar næstkomandi, en þá mætir hinn virti Toni Toivanen stjörnukokkur í eldhúsið.
„Við erum mjög spennt fyrir pop-up viðburðinum sem fram undan er á SKÁL þar sem við fáum Toivanen sem er einn af mest spennandi kokkum samtímans. Hann mun vera með okkur þessi tvö kvöld og bjóða upp á einstakan smakkseðil þar sem hann mun blanda saman norrænum og japönskum bragðupplifunum,“ segir Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumeistari og einn eigandi veitingastaðarins.
Toivanen hefur áorkað miklu á ferli sínum, hann var yfirkokkur á tveggja stjörnu Michelin-staðnum Chez Dominique í Finnlandi, átti stóran þátt í árangri Noma í Kaupmannahöfn og stýrði rannsóknar- og þróunareldhúsi Inua í Tókýó, sem hlaut tvær Michelin-stjörnur.
„Í dag er hann leiðandi í þróun á POPL í Kaupmannahöfn og við verðum svo heppin að fá að upplifa hans frábæra matargerð í tveimur einstökum kvöldum hér á SKÁL, bætir Gísli við og er orðinn mjög spenntur að vera með honum í eldhúsinu.
„Þetta er einstakt tækifæri til að upplifa matargerðarlist Toivanen, sem tilheyrir fremstu kokkum heims, hér á SKÁL. Þar sem þetta er lítil og eksklúzív upplifun, er mjög takmarkaður sætafjöldi og ég ráðlegg þeim sem langar að koma að bóka sig sem fyrst,“ segir Gísli að lokum.
Boðið verður upp á einstakan smakkseðil á 14.500 krónur með blöndu af norrænum og japönskum bragðupplifunum, þar sem innblástur frá Toni í samstarfi við hina frægu þorskvængi á SKÁL fær að njóta sín.