Bolludagurinn er handan við hornið og bolluuppskriftirnar streyma inn. Það mun birtast bolluuppskrift daglega fram að bolludeginum, sem framundan er mánudaginn 3. mars næstkomandi. Vonandi munu allir finna einhverja bolluuppskrift við sitt hæfi.
Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar er þekkt fyrir að töfra fram girnilegar bolluuppskriftir á hverju ári og í ár er engin undantekning á því. Hér er hún komin með guðdómlega góðar mokkabollur þar sem nýi Royal-búðingurinn leikur aðalhlutverkið í fyllingunni.
Berglind er hrifnust af vatndeigsbollum og notar þær óspart þegar kemur að því að galdra fram bollur á bolludaginn.
Mokkabollur
12 stykki
Vatnsdeigsbollur
- 200 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- ¼ tsk. salt
- 3 egg (160 g)
- 180 g smjör
- 360 ml vatn
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C og klæðið tvær ofnplötur með bökunarpappír.
- Blandið hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og geymið.
- Pískið og vigtið eggin í skál og geymið.
- Bræðið smjörið í potti og hellið vatninu saman við, hrærið saman þar til fer að sjóða og smjörið er bráðið.
- Slökkvið þá á hellunni og blandið hveitiblöndunni saman við svo úr verði nokkurs konar smjörbolla.
- Færið blönduna yfir í hrærivélarskálina og hrærið með K-inu á lágum hraða þar til mesti hitinn er farinn úr deiginu.
- Bætið þá eggjunum saman við í nokkrum skömmtum og blandið saman.
- Notið stóra ísskeið eða vel kúfaða matskeið til þess að móta bollurnar og bakið síðan í um 35 mínútur eða þar til þær verða vel gylltar. Alls ekki opna ofninn samt fyrr en í fyrsta lagi að 25 mínútunum liðnum.
- Kælið síðan áður en þið fyllið og skreytið.
Mokkafylling
- 1 pk Royal búðingsduft með mokkabragði
- 200 ml mjólk
- 50 ml rjómi (óþeyttur)
- 350 ml rjómi (léttþeyttur)
Aðferð:
- Hellið mjólk og 50 ml af rjóma í skál og pískið búðingsduftið saman við.
- Kælið í um 10 mínútur og hrærið að minnsta kosti einu sinni í blöndunni á meðan hún er í kælinum.
- Vefjið næst léttþeytta rjómanum saman við búðinginn með sleikju
- Fyllið bollurnar með mokkablöndunni og skreytið síðan.
Samsetning og skreyting
- 80 g dökkt súkkulaði
- Flórsykur
Aðferð:
- Bræðið súkkulaðið og „drisslið“ smá yfir lokið á hverri bollu.
- Leyfið súkkulaðinu að taka sig áður en þið sigtið örlítinn flórsykur yfir bollurnar.