„Mataræðið er að breytast með hækkandi aldri“

Guðrún Hafsteinsdóttir ljóstrar upp matarvenjum sínum að þessu sinni.
Guðrún Hafsteinsdóttir ljóstrar upp matarvenjum sínum að þessu sinni. mbl.is/Anton Brink

Guðrún Hafsteinsdóttir alþingiskona ljóstrar upp matarvenjum sínum að þessu sinni og hvernig mataræði hennar hefur breyst með hækkandi aldri.

Þessa dagana eru miklar annir hjá henni en hún er nú í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins og er því að ferðast um landið að hitta fólk í flokknum. Guðrún er fædd á Selfossi en ólst upp í Hveragerði þar sem hún býr enn. Hún hefur setið á Alþingi síðan 2021 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Guðrún er í sambúð með Hans Kristjáni Einarssyni Hagerup og á þrjú börn og þrjú stjúpbörn. „Við Hans eigum tvö barnabörn og svo eru tvö ömmu og afa kríli á leiðinni næsta vor,“ segir Guðrún spennt.

Helsti lösturinn er að borða óreglulega

Þegar kemur að matarvenjum segir Guðrún að lítið sé um þær.

„Ég get nú ekki beint sagt að ég sé með miklar matarvenjur. Ég er eiginlega frekar með einn agalegan ósið þegar kemur að matarvenjum. En einn minn helsti löstur er að ég borða mjög óreglulega. Ég verð sjaldan svöng og gleymi að borða. Það er ekki hollt og ég er alltaf að reyna að bæta mig í þessu,“ segir Guðrún og hlær.

„Ég finn að mataræðið er að breytast með hækkandi aldri. Ég þoli til dæmis rautt kjöt afar illa og er nánast hætt að borða nautasteikur. Ég hef einhverra hluta vegna aldrei verið hrifin af svínakjöti en borða það alveg endrum og sinnum. Við borðum fisk 4-5 sinnum í viku og það finnst mér best.

Ég er alin upp í matvælafyrirtæki og það hefur örugglega haft sitt að segja hvað mataráhuga minn varðar. Það eina sem ég skoða til dæmis á Instagram eru matarsíður. Mér finnst gaman að lesa uppskriftir og á margar matreiðslubækur. Það er fátt sem sameinar fólk betur en góð máltíð og samvera við matarborðið er eitthvað sem ég legg mikið upp úr. Ég borða til dæmis aldrei fyrir framan sjónvarp eða síma og legg alltaf fallega á borð. Það er hluti af máltíðinni og virðing fyrir matnum.“

Steikir egg flesta morgna

Guðrún svarar hér nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar og flettir ofan af nokkrum af sínum uppáhaldsréttum.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég á góðan mann og flesta morgna steikir hann fyrir mig egg og með drekk ég eitt glas af appelsínusafa. Ef ég næ að borða eggin mín duga þau mér oft fram eftir degi. Um helgar finnst okkur voða gott að gera vel við okkur í morgunmat.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Nei, ég borða eiginlega aldrei á milli mála, það er þá helst að ég stingi upp í mig einni og einni súkkulaðirúsinu. Ég borða til dæmis aldrei á kvöldin. Ég vil helst borða kvöldmat í síðasta lagi klukkan 19:00 og eftir það borða ég ekkert.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Ég er oft á fundum eða á ferðinni og gleymi þar af leiðandi mjög oft að borða hádegisverð. En ef ég er í þinginu þá er hádegisverðurinn þar til mikillar fyrirmyndar og alltaf góður.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Egg, smjör og ost.“

Hver er uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Humar, lambafille og úrbeinaðir kjúklingaleggir sem Hansi marínerar meistaralega vel.“

Hvað viltu á pítsuna þína?

„Oft er það skinka, ananas og sveppir. Annars get ég borðað allt á pítsu nema pepperóní, það þykir mér ekki gott.“

Sleppir hráa lauknum í tillitssemi við annað fólk

Færð þú þér pylsu með öllu?

„Já, mér finnst mjög gott að borða pulsu með öllu, ég er Sunnlendingur og segi því pulsa. Ég sleppi nú stundum hráa lauknum af tillitssemi við annað fólk.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Það er erfitt að segja. Ég og maðurinn minn eigum marga uppáhalds veitingastaði. Ég verð líklega að segja Matkráin í Hveragerði, Slippinn í Vestmannaeyjum og svo er æðislegur matur á Hótel Klaustri á Kirkjubæjarklaustri. Þar fékk ég til dæmis nýlega æðislega gott lamba-carpaccio með bláberjum.“

Dreymir um að borða á Koks

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja sem er á bucket-listanum?

„Já, mig og manninn minn dreymir um að borða á Koks í Færeyjum. Við elskum Færeyjar og höfum til dæmis farið tvisvar á Ólavsöku en okkur hefur aldrei tekist að borða á Koks. Það kemur að því. Nú er Koks með pop-up veitingastað í Ilimanaq á Grænlandi. Ég hef aldrei komið til Grænlands og kannski ætti ég að slá tvær flugur í einu höggi og heimsækja Grænland og Koks í einni og sömu ferðinni.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Hansi minn, ekki spurning. Það var nú meiri gæfan að krækja í hann. Meira að segja börnin mín segja að hann hafi verið mikill fengur enda hafi maturinn lagast mikið eftir að hann flutti til okkar.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Sko, ég drekk nú mest af sódavatni en ég elska líka kókómjólk, maður fær kraft úr henni.“

Nánast aldrei með skyndibita

Ertu góður kokkur?

„Já, ég er ágætis kokkur. Mér finnst óskaplega gaman af öllu matarstússi. Finnst fátt skemmtilegra en að fá fólk í mat og stússast í eldhúsinu allan daginn. Ég tek til dæmis oftast slátur, mér finnst gaman að búa til sláturmat. Ég sulta mínar sultur og baka oft brauð.

Við leggjum mikið upp úr því að elda frá grunni. Erum sjaldan, nánast aldrei, með skyndibita. Það er þá helst sushi. Okkur finnst til dæmis dásamlegt að búa til okkar eigin pítsur frá grunni og gerðum það alltaf á föstudögum en eftir að börnin fluttu að heiman gerum við það sjaldnar. Ég verð samt að segja að ég get orðið ægilega vonsvikin ef ég fer út að borða og maturinn er á pari eða verri en ef ég hefði sjálf eldað hann. Þá finnst mér ég alveg eins getað borðað heima.“

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert