Bolludagurinn skapar stóran sess á mörgum heimilum landsmanna og þar sem hann nálgast óðfluga er bolluþema á matarvefnum. Sumir vilja bollur stútfullar af rjóma og sætindum, aðrir vilja hollustubollur og sumir vilja sælkerabrauðbollur sem passa vel með matnum.
Hér er til að mynda alveg frábær hugmynd að brauðbollum úr smiðju Hönnu Þóru Thordarson, ástríðubakara og leirlistakonu, sem steinliggja með góðri súpu eða pastarétti. Þetta er í raun hvítlauksútgáfa af bolluuppskrift sem Hanna á í smiðju sinni.
Bollurnar má móta á ýmsa vegu en þessi útgáfa ætti að eiga greiða leið að hjartanu.Hvítlauksbollurnar eru bestar nýbakaðar, ylvolgar úr ofninum og passa afar vel sem meðlæti með súpu eða pastarétti.
Dásamlegt að geta boðið upp á bollur í alls konar útgáfum.
Ljósmynd/Hanna Thordarson
Hvítlaukshjarta Hönnu
Brauðbollur
- 1 bréf þurrger (ca. 12 g)
- ½ l mjólk
- 1 msk. hunang
- 1 tsk. salt
- 10 – 11 dl hveiti
Hvítlaukssmjör
- U.þ.b. 50 g smjör, við stofuhita
- 2 – 3 hvítlauksrif, pressuð
- Fersk steinselja, söxuð
Skraut
- Sesamfræ
- Parmesanostur, rifinn
- Saltflögur
- Góð olía
Aðferð:
- Setjið þurrger/pressuger og salt í skál.
- Hitið mjólk og hunang í 37°C hita og hellið síðan í skálina.
- Hrærið í með sleikju og bætið nokkrum dl af hveiti út í og blandið saman.
- Hnoðið deigið í lokin í nokkrar mínútur, deigið á að vera þannig að hægt sé að snerta það án þess að það klístrist við fingurna en á alls ekki að vera þurrt.
- Leggið klút, gott að hafa hann svolítið rakan, yfir skálina og látið deigið hefast í 1 klukkustund á stað þar sem ekki er trekkur.
- Gerið síðan hvítlaukssmjörið.
- Blandið saman smjöri, pressuðum hvítlauk og saxaðri steinselju.
- Mótið síðan jafnmargar smjörkúlur og bollur.
- Hitið ofninn í 225°C hita (yfir- og undirhiti).
- Setjið deigið á hveitistráð borð og skerið í 20 – 22 jafna hluta.
- Mótið kúlur og dýfið þeim ofan í skál með sesamfræjum.
- Setjið bollur á ofnskúffu með bökunarpappír.
- Mótið síðan hjarta með bollunum.
- Stingið endann á sleif ofan í miðjuna á hverri bollu þannig að hola myndast.
- Setjið smjörkúlurnar ofan í holurnar.
- Dreifið rifnum parmesanosti yfir og að lokum saltflögum.
- Bakið hjartað í 12 – 14 mínútur.
- Gott er að hella aðeins af góðri olíu yfir þegar hjartað er tekið úr ofninum.
- Berið fram með því sem hugurinn girnist.