Valla gerði þessar ljúffengu bollur með frönsku vanillukremi og fleiru hnossgæti

Þessar ljúffengu bollur eru með frönsku vanillukremi, ferskum bláberjum og …
Þessar ljúffengu bollur eru með frönsku vanillukremi, ferskum bláberjum og jarðarberja- og rabarbararjóma. Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal

Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, gerði þessar stórkostlegu bollur með heimatilbúnu vanillukremi, ferskum bláberjum og jarðarberja- og rabarbararjóma í tilefni bolludagsins sem framundan er.

Hún heldur úti sínum eigin uppskriftavef, sem ber heitið Valla Gröndal, þar sem hún deilir með fylgjendum sínum uppskriftum sínum. Bolludagurinn er í miklu uppáhaldi hjá Völlu og á hverju ári prófar hún eitthvað nýtt til að gleðja bragðlaukana.

Vatnsdeigsbollur með frönsku vanillukremi, ferskum bláberjum og jarðarberja- og rabarbararjóma

Vatnsdeigsbollur

  • 200 g vatn
  • 80 g smjör
  • 125 g hveiti
  • Salt á hnífsoddi
  • 2-3 egg

Á milli

  • Heimagert vanillukrem
  • Jarðarberja- og rabarbarasulturjómi
  • Fersk bláber, magn eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið vatn í potti og bætið smjöri saman við.
  2. Látið sjóða í smá stund.
  3. Setjið hveiti og salt saman við og hrærið rösklega saman í pottinum.
  4. Kælið deigið með því að setja það í hrærivélaskálina og dreifa því upp á skálarbrúnirnar.
  5. Setjið egg í mælikönnu og pískið saman.
  6. Ef eggin eru mjög stór er ekki víst að það þurfi alveg 3 egg svo það er betra að píska þau saman og skilja smá eftir.
  7. Þegar deigið er orðið volgt má byrja að hræra það með káinu og setja eggin út í í smá skömmtum.
  8. Hitið ofninn í 175°C blástur.
  9. Setjið deigið á ofnplötu klædda bökunarpappír með góðu millibili.
  10. Stærðin fer eftir smekk en Völlu finnst best að nota sprautupoka en einnig er fínt að nota matskeiðar.
  11. Setjið plöturnar inn og bakið í að minnsta kosti 30 mínútur.
  12. Valla fer jafnvel alveg upp í 40 mínútur þar sem hún vill hafa þær frekar þurrar og þannig eru líka minni líkur á því að þær falli.
  13. Aldrei opna ofninn fyrr en eftir a.m.k 25 mínútur.

Jarðarberja- og rabarbararjómi

  • 300 ml rjómi
  • 100 g jarðarberja- og rabarbarasulta frá St. Dalfour

Aðferð:

  1. Setjið rjómann í skál og þeytið þar til hann er aðeins farinn að þykkna en á enn langt í land með að verða fullþeyttur.
  2. Bætið þá sultunni saman við og hrærið þar til rjóminn er orðinn stífþeyttur. Geymið í kæli þar til bera á bollurnar fram.

Vanillukrem

  • 480 ml nýmjólk
  • Vanillukorn úr 1 vanillustöng
  • 4 eggjarauður
  • 75 g sykur
  • ¼ tsk. sjávarsalt
  • 30 g maízenamjöl
  • 40 g smjör

Aðferð:

  1. Kljúfið vanillustöngina eftir endilöngu og skafið kornin innan úr.
  2. Setjið mjólkina í pott og setjið vanillukornin saman við.
  3. Látið bíða smástund.
  4. Setjið eggjarauður, sykur, salt og maízenamjöl saman í skál og hrærið saman.
  5. Hitið mjólkina að suðu og hellið í smáskömmtum út í eggjarauðublönduna og hrærið vel á milli.
  6. Setjið blönduna út í pottinn og hitið við meðalhita og pískið vel allan tímann þar til kremið þykknar.
  7. Setjið smjörið saman við og hrærið.
  8. Hellið kreminu í gegnum sigti sem sett hefur verið yfir skál. Sléttið yfirborðið og setjið plastfilmu yfir yfirborðið svo skán myndist ekki á kremið.
  9. Kælið í 2-3 klukkustundir, eða þar til kremið er alveg orðið kalt.

Samsetning:

  1. Skerið lok í bollurnar og setjið vanillukrem í botninn.
  2. Sprautið rjómanum yfir og stráið niðurskornum bláberjum þar yfir.
  3. Setjið lokið yfir og dustið með flórsykri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert