Hættulega góð ostakaka með saltkaramellu og Rice Krispies

Þessi ostakaka er algjör bomba og þeir sem elska súkkulaði …
Þessi ostakaka er algjör bomba og þeir sem elska súkkulaði og karamellu munu kolfalla fyrir henni. Ljósmynd/Andrea Gunnarsdóttir

Andrea Gunnarsdóttir sælkeri og matarbloggari lét það eftir sér á dögunum að gera ostaköku sem er í raun hættulega góð og algjör sykurbomba. Hún er með Rice Krispies-botni og fullt súkkulaði sem kitlar bragðlaukana. Ostakökuna toppaði Andrea síðan með karamellusósu og ferskum jarðarberjum. Þeir sem elska súkkulaði og karamellu eiga eftir að kolfalla fyrir þessari.

Þegar Andrea bjó í Boston í Bandaríkjunum gerði hún sér reglulega ferð í Cheesecake Factory og keypti nokkrar sneiðar til þess að taka með heim og eiga í ísskápnum. Hún hefur verið fremur rög við að gera ostakökurnar því hún er svo hrædd um að klúðra þeim. En þessari ostaköku er hins vegar ekki hægt að klúðra, hún er svo einföld í gerð að sögn Andreu.

Ostakakan passar við öll tilefni og er mjög hentug fyrir matarboð og veislur þar sem hún er geymd í frysti og því hægt að gera hana með löngum fyrirvara.

Saltkaramelluostakaka með Rice Krispies-botni

Rice Krispies-kökubotn

  • 150 g suðusúkkulaði
  • 150 g smjör
  • 70 g Mars
  • 80 g Rolo
  • 6 msk. síróp
  • 6,5 bollar Rice Krispies

Aðferð:

  1. Bræðið smjör, súkkulaði, Mars, Rolo og síróp saman í potti þar til allt hefur bráðnað og orðið slétt.
  2. Setjið Rice Krispies í skál, hellið súkkulaðiblöndunni yfir og hrærið öllu vel saman með sleif.
  3. Klæðið 26-28 cm smelluform með bökunarpappír og þrýstið blöndunni jafnt í botninn og upp með hliðunum.
  4. Setjið í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling

  • 200 g rjómaostur
  • 1 pk Royal saltkaramellubúðingur
  • 1 bolli nýmjólk
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 bolli flórsykur

Ofan á:

  • Fersk jarðarber
  • Saltkaramellusósa

Aðferð:

  1. Blandið saman rjómaosti og flórsykri í skál.
  2. Þeytið saman saltkaramellubúðing og nýmjólk og setjið í ísskáp í 5 mínútur.
  3. Þeytið rjómann.
  4. Blandið þessu öllu vel saman með sleikju og hellið yfir Rice Krispies-kökubotninn.
  5. Geymið í frysti en takið kökuna út 2 klukkustundum áður en hún er borin fram.
  6. Skreytið með ferskum jarðarberjum og saltkaramellusósu eða því sem heillar ykkar matarhjarta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert