Leynitrixið hans Jóa Fel í bollubakstrinum

Jóhannes Felixson bakari jóstrar upp baksturstrixunum þegar baka skal alvöru …
Jóhannes Felixson bakari jóstrar upp baksturstrixunum þegar baka skal alvöru gerbollur. mbl.is/Arnþór

Jóhannes Felixson, betur þekktur sem Jói Fel, er kominn á fullt í bollubakstrinum og leyndardómur hans í bollubakstrinum er að gefa sér góðan tíma í verkið. Einnig er hann líka með á hreinu hver galdurinn er bakvið að baka fallegar og mjúkar gerbollur sem eru að sækja í sig veðrið þessa dagana.

Hann segir að þær hafi ávallt notið mikilla vinsælda í forðum í bakaríinu en það taki lengri tíma að baka þær.

„Gömlu, góðu gerbollurnar eru svo sannarlega að koma aftur sterkar inn. Það eru ekki margir sem baka þær heima enda getur það vafist fyrir mörgum. Nú hef ég bakað bollur í fjörutíu ár og þekki mjög vel hvernig best er að bera sig að. Hvort sem það eru gerbollur eða vatndeigsbollur,“ segir Jói með bros á vör.

Gerbollurnar hans Jóa Fel eru girnilegar en hann velur einfaldleikann …
Gerbollurnar hans Jóa Fel eru girnilegar en hann velur einfaldleikann og setur bara rjóma og sultu á milli. Ljósmynd/Jóhannes Felixson

Galdurinn bak við mjúkar og fallegar gerbollur

„Það þarf að gefa sér góðan tíma í að laga gerbollur en það tekur allt upp í þrjár klukkustundir frá því verkið er hafið þar til þær koma út úr ofninum. Galdurinn á bakvið mjúkar og fallegar gerbollur er að deigið þarf að vera slétt, mjúkt og glansandi þegar það kemur úr hrærivélaskálinni. Hefingin skiptir svo mestu máli til að fá þær eins og best verður á kosið hvað varðar útlit og áferð.

Fyrst þarf deigið að hvíla eftir að það kemur úr hrærivélinni. Svo þarf að gera kúlurnar og helst þarf að geta slegið þeim fast upp svo kúlurnar verði þéttar og fallegar. Eitt mikilvægt er að þrýsta bollunum vel niður þegar hefunartíminn er um það bil hálfnaður, en það er gert svo bollurnar verði flatari en ekki eins og rúnstykki í laginu.

Síðan er mjög mikilvægt að hefa deigið lengur en skemur, ef þið haldið að deigið sé tilbúið þá er gott að láta deigið hefast aðeins lengur. Annars eiga bollurnar það til að springa upp, sem við viljum ekki. Baksturinn er líka mjög mikilvægur en það má ekki baka þær of mikið, þá eiga þær það til að þorna upp og verða þurrar. Bollurnar eru bakaðar við 220°C hita og þessar bollur sem ég gef ykkur uppskriftina að voru í átta og hálfa mínútu í ofninum hjá mér. Þær hefðu alls ekki mátt vera lengur.“

Ekkert ætti að fara úrskeiðis fyrir bolludaginn

Eins og margir vita er líka kúnst að baka vatnsdeigsbollur og það þekkir bakarinn vel. „Ég var að setja þessa uppskrift að gerbollunum ásamt vatndeigsbollunum inn á uppskriftavefinn minn, Eldabaka, en þar er hægt að horfa á stutt en mjög fræðandi myndband um hvernig á að gera bollurnar, þá ætti ekkert að fara úrskeiðis fyrir bolludaginn.

Vatnsdeigsbollurnar toppar hann með lakkrískurli.
Vatnsdeigsbollurnar toppar hann með lakkrískurli. Ljósmynd/Jóhannes Felixson

Ég nota eingöngu hvítan rjóma á milli í bollurnar mínar, en hver og einn getur látið ímyndunaraflið ráða för og valið að setja í fyllinguna sem passar hans bragðlaukum. Einnig má skreyta bollurnar að vild, ofan og velja hvaða hnossgæti sem er í fyllinguna. Smekkur manna er misjafn og því er vert að leyfa hverjum og einum að velja það sem honum þykir best,“ segir Jói að lokum.

Gerbollurnar eru toppaðar með súkkulaði- og karamelluglassúr.
Gerbollurnar eru toppaðar með súkkulaði- og karamelluglassúr. Ljósmynd/Jóhannes Felixson

Gerbollur Jóa

20 stykki

Deigið

  • 300 g mjólk
  • 2 bréf þurrger (c.a. 23 gröm)
  • 700 g hveiti
  • 100 g smjörlíki. Við stofuhita.
  • 2 stk. egg
  • 80 g sykur
  • 5 g salt
  • 1 msk. kardimommukrydd

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 220°C hita.
  2. Velgið mjólkina upp í 40°C hita.
  3. Setjið í hræriskálina ásamt gerinu og hrærið saman.
  4. Setjið svo restina af hráefninu saman við.
  5. Vinnið deigið saman rólega í tæplega tvær mínútur og svo í öðrum gír í fjórar mínútur.
  6. Látið deigið hvíla í um það bil 30 mínútur.
  7. Gerið síðan kúlur, hver kúla getur verið um það bil 60 grömm.
  8. Látið hefast í um það bil 30 mínútur.
  9. Þrýstið þá á kúlurnar og látið hefast aftur í 45 mínútur.
  10. Bakið við 220°C hita í um það bil 8 - 9 mínútur.
  11. Látið kólna.
  12. Gerið síðan fyllingu við ykkar hæfi til að setja inn í þegar bollurnar hafa kólnað.
  13. Gerið jafnframt glassúr eða bræðið súkkulaði eftir smekk sem ykkur langar að setja ofan á lokið á bollunni.
  14. Sulta og rjómi og sá hjúpur sem þið viljið og elskið. Hvort sem það er karamella, glassúr eða ekta súkkulaði. Ykkar er valið og njótið í góðum félagsskap.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert