Í ár eru 30 ár síðan Landssamband bakarameistara, LABAK, kynnti í fyrsta sinn köku ársins eða konudagskökuna. Þetta kom fram hjá Sigurði Má Guðjónssyni, formanni Landssambands bakarameistara, þegar hann mætti á Bessastaði ásamt höfundi köku ársins í ár, Arnóri Inga Bergssyni, bakara hjá Bakaranum á Ísafirði, til afhenda frú Höllu Tómasdóttur forseta Íslands fyrstu kökuna.
Fyrsta kakan sem bar titilinn kaka ársins var hönnuð af konditorunum Björgu Sigþórsdóttur hjá Bakarameistaranum og Hafliða Ragnarssyni hjá Mosfellsbakaríi. Kaka ársins 1995 hét Ástarjátning og var frumsýnd í bakaradeild Iðnskólans í Reykjavík 4. febrúar og hófst sala á kökunni 19. febrúar sama ár.
„Það var svo í febrúar árið 2021 sem keppt var í fyrsta skipti um köku ársins í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi. Kakan sem vann hafði verið valin úr nokkrum fjölda uppskrifta frá bakarameisturum og konditorum landsins. Höfundar verðlaunakökunnar voru tveir ungir bakarasveinar, þeir Benedikt Helgason og Jón Björn Ríkharðsson, þá starfsmenn hjá Sandholt bakaríi Reykjavík,“ segir Sigurður Már.
Jóhannes Felixson sagði við það tilefni að hugmyndin að keppninni kæmi frá Danmörku en þar hefði það tíðkast í mörg ár að kaka ársins væri valin á hverju ári. „Við reynum hins vegar að slá tvær flugur í einu höggi með því að kynna kökuna á konudaginn,“ sagði Jóhannes jafnframt, sem betur er þekktur sem Jói Fel.
Sigurður Már, sem er bæði bakarameistari og kökugerðarmaður, hefur sjálfur unnið keppnina þrisvar; árin 2011, 2018 og 2019. Hann þekkir á eigin skinni þá tilfinningu að sigra í keppninni.
„Ég hafði lítið haft mig frammi í baksturskeppnum, það kom því mörgum á óvart að ég skyldi vinna keppnina um Kahlúakökuna árið 2011 en þar fékk ég forsmekkinn. Í öll þrjú skiptin sem ég vann var allt púðrið sett í eina köku. Það er alltaf eitthvert eitt hráefni sem skylda er að nota og það er eins og það fari allt af stað í höfðinu á manni og kakan raðast upp í huganum,“ segir Sigurður Már sposkur á svip.
Landssamband bakarameistara hafi ekki getað staðið fyrir keppni um bakara ársins líkt og Klúbbur matreiðslumeistara hefur gert með kokk ársins. „Því miður höfum við ekki getað haldið keppni um bakara ársins á hverju ári, því hefur verið litið á köku ársins sem gæðastimpil á bakaríið þar sem sigurvegarinn starfar og eins þann sem vinnur. Ég held að það upplifi allir sætan sigur að fá þessa viðurkenningu.“
Kakan mín sem vann 2011 seldist best af þeim sem ég gerði en hún þótti ansi framúrstefnuleg í útliti.“
Kaka ársins er valin í keppni sem LABAK efnir til árlega og fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem þriggja manna dómnefnd metur og velur úr þá sem þykir best til þess fallin að hljóta titilinn kaka ársins. Þá er hugað að bragði, áferð, samsetningu og útliti kökunnar. Hefð er fyrir því að keppnin sé haldin í samstarfi við einhvern framleiðanda og í ár var Mjólkursamsalan samstarfsaðili keppninnar.
„Síðastliðinn föstudag tók frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands á móti fyrstu köku ársins 2025 sem þakklæti fyrir að hafa skarað fram úr og stimplað sig inn sem sá glæsilegi og verðugi fulltrúi Íslands bæði heima og erlendis og það sameiningartákn sem hún er,“ segir Sigurður Már og bætir við: „Ég er ákaflega stoltur af að okkar glæsilegi forseti skuli hafa sýnt okkur bökurum og kökugerðarmönnum þann mikla heiður að taka á móti fyrstu kökunni í ár. Við bakarar erum líka stoltir af að eiga í samstarfi við og styðja við íslenska bændur og viljum veg íslensks landbúnaðar sem mestan.“
Halla var mjög hrifin af kökunni og sagði hana minna sig einna helst á bananatertu sem amma hennar bakaði gjarnan og hafi verið uppáhaldstertan sín. Þessi sé í raun nútímaútgáfa af henni. Hún gaf eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni, smakk og forsetahjónin nutu þess að gæða sér á kökunni og sögðust geta staðfest að hún hefði runnið ljúflega niður.