Stóra bolluhelgin er runnin upp og líklegt er að margar bollur verði bakaðar og borðaðar þessa helgina. Margir taka forskot á sæluna núna en bolludagurinn er á mánudaginn, þann 3. mars næstkomandi.
Axel Þorsteinsson, bakari og konditor, meðeigandi og rekstrarstjóri Hygge, er mikill matgæðingur og elskar fátt meira en að galdra fram ljúffengar kræsingar. Hann gefur lesendum matarvefsins uppskrift að syndsamlega góðri bollu eða bollukrans sem getur ekki klikkað eins og hann sjálfur segir frá.
Fyrsta bollan var dönsk
Það eru nokkrar bollur sem eru í uppáhaldi hjá honum en hann man vel eftir fyrstu bollunni sem hann fékk í bernsku.
„Festilavnbolla, sem er dönsk bolla, með vanillukremi, rjóma og sultu. Þetta var eitthvað sem ég ólst upp við í Danmörku. Mamma sem er bakari og lærði þar passaði að við systkinin fengjum alltaf besta bakkelsið.“
Heldur þú ávallt upp á bolludaginn?
„Já, nokkurn veginn. Ég hef verið á þeim slóðum þar sem er enginn bolludagur en þá hef ég bara gert bollur í vinnunni fyrir starfsfólkið og vini til að sýna og leyfa þeim að upplifa skandinavíska- og íslenska menningu. Þá gerði ég klassíska og hún slær alltaf í gegn.
Hvernig er þín uppáhaldsbolla?
„Ég á nokkrar sem eru í uppáhaldi. Þessi klassíska íslenska, Festilavn bolla, Maríubollur og svo þessi hérna sem er í meiri nútímabúning er algjört lostæti. Á henni er praline rjómi, praline karamella og ristaðar heslihnetur. Blanda sem klikkar ekki.“
Ómótstæðilegar þessar girnilegu bollur.
mbl.is/Hákon Pálsson
Axel segir að það sé smá saga bak við uppskriftina. „Þetta er smá kombó sem ég setti saman þegar ég var úti í Dubai og sló alveg í gegn. Eftir það var þessi bolla alltaf á matseðlinum á staðnum sem ég vann á. Ég hef reyndar einfaldað þessa útgáfu núna svo einfalt sé að baka þessar heima og sett í krans í stað þess að gera bollur. Af hverju ekki að breyta til?Í stað að gera fullt af bollum í bollukaffi þá er fljótlegra að gera einn til tvo kransa og leyfa gestum að skera í og síðan er kransinn líka virkilega fallegur á borðið líka,“ segir Axel með bros á vör.
Fegurð á disk.
mbl.is/Hákon Pálsson
„Þegar kemur að því að baka heima þá er ég virkilega latur, tek aldrei með mér vinnuna heim. Mér finnst gaman að baka í vinnunni en legg miklu meiri metnað í að matreiða heima.“
Gott að gera daginn áður
Í uppskriftinni er til að mynda saltkaramella og Axel mælir með að gera hana daginn áður en bollurnar eru bakaðar og settar saman.
Síðan er það praline en það er hægt að panta í flestum bakaríum en það er líka hægt að gera það sjálfur. Axel gefur lesendum mjög góða uppskrift hérna sem allir ættu að ráða við. Konseptið er alltaf svipað, ristaðar hnetur og karamelluseraður sykur.
Ef þið viljið sjá hvernig þetta er gert þá er Ólöf Ólafsdóttir eftirdrottning Íslands með aðra svipaða uppskrift og aðferðafræði. Sjá hér fyrir neðan.
Það er erfitt að standast þessa freistingu.
mbl.is/Hákon Pálsson
Praline-bollur eða krans í nútímabúningi að hætti Axels
Vatnsdeigsbollur
- 480 g mjólk
- 7 g sykur
- 7 g salt
- 225 g smjör
- 255 g hveiti
- 480 g egg
Aðferð:
- Byrjið á því að sjóða saman mjólk, sykur, salt og smjör.
- Blandið svo hveiti við og ristið vel.
- Setjið blönduna í hrærivél og hrærið með spaðanum þangað til blandan hefur kólnað.
- Blandið síðan eggjum rólega saman við.
- Ekki er nauðsynlegt að blanda öllum eggjum við en ef deigið er of þykkt þá er vert að eggi bæta við.
- Vatnsdeig tekur mismunandi magn af eggjum eftir hvaða hveiti er notað.
- Takið til ofnplötu klædda bökunarpappír.
- Setjið síðan deigið í sprautupoka og sprautið í bollur eða krans að eigin vali.
- Bakað í ofni á165°C hita með blæstri þangað til bollurnar verða fallega gylltar og klárið síðan baksturinn á 149°C hita.
Saltkaramella
- 240 g rjómi
- 400 g sykur
- 180 g smjör í stofuhita.
- 12 g sjávarsalt
Aðferð:
- Byrjið á því að sjóða rjómann og setjið síðan til hliðar.
- Takið til annan pott og karamelluserið sykur í nokkrum skömmtum, byrjið á ¼ og þegar hann er karamelluseraður þá bætið við ¼ í viðbót og koll af kolli.
- Þegar allur sykurinn er orðinn fallega dökkgylltur bætið þá við smjöri sem er við stofuhita og hrærið vel, látið sjóða í 1 mínútu.
- Hellið síðan varlega heita rjómanum út í blönduna, hrærið vandlega saman og sjóðið í 1 mínútu.
- Bætið síðan salti út í lokin og mjög mikilvægt er að blanda með töfrasprota eftir á.
- Setjið karamelluna til hliðar og látið kólna. B
- Best er að gera þessa uppskrift daginn áður og ekkert að því að tvöfalda eða þrefalda hana og eiga meira til hliðar.
- Hægt er að þynna hana með vatni t.d. þá ertu með gott karamellusíróp út í kaffið.
Praline
- 150 g sykur
- 50 g glúkósi eða ljóst kornsíróp
- 400 g ristaðar hnetur, hérna má nota pekanhnetur, hesilhnetur, möndlur, pistasíur eða blanda bara hnetur
- 6 g sjávarsalt
Aðferðin:
- Ristið hneturnar á pönnu og leggið ofan á silikonmottu.
- Karamelluserið svo sykur og glúkósa í potti án þess að hræra með neinu áhaldi.
- Hellið karamellunni yfir hneturnar og veltið saman með því að fletta mottunni fram og til baka rólega.
- Leyfið þessu svo að kólna.
- Hendið þessari blöndu síðan í matvinnsluvél og bætið saltinu við. Blandið saman þangað til þetta er orðið að fallegu „paste“.
- Þetta er líka gott að gera daginn áður.
- Axel tekur hluta af karamellunni og praline og blandar saman, það er fínt að gera það í potti yfir vægan hita eða setja í skál og örbylgjuofn.
Praline rjómi
- 150 g praline
- 1000 g rjómi.
- Smá flórsykur ef við viljið sæta aðeins en honum finnst það óþarfi.
Aðferð:
- Þeytið rjómann og blandið svo smá hluta af honum við pralínið til að gera aðeins léttari.
- Blandið síðan því við restina af rjómanum og þeytið aðeins meira ef þess þarf.
Samsetning:
- Skerið bollurnar eða kransinn í helming.
- Sprautið svo rjómanum í hringi eða fallegu munstri sem þið viljið með stjörnutjúllu, french tip eða flötum stút.
- Sprautið svo praline-karamellunni í miðjuna og myljið ristaðar hentur yfir.
- Leggið svo lokið ofan á og sigtið flórsykur yfir og skreytið eins og þið viljið, meiri karamellu og hnetum ef vill.
- Síðan er einfalt að rífa niður súkkulaði yfir ef ykkur langar til.
- Alls ekkert að því að skreyta með ferskum berjum líka til að lífga aðeins upp á litina og bæta ferskleika við.
- Berið fram og njótið.