Eftirréttadrottningin Ólöf Ólafsdóttir og fyrrum landsliðskokkur er þekkt fyrir að gera ómótstæðilega góðar bollur. Á dögunum gerði hún þessar Dubai-súkkulaðibollur með jarðarberjum sem eiga eftir að trylla bolluaðdáendur, ekki síst þá sem elska Dubai-súkkulaðið sem hefur farið frægðarför um landið.
Bolludagurinn er einn af hennar uppáhaldsdögum og þetta var fyrsta bollan í tilefni hans.
Ólöf deildi með fylgjendum sínum á Instagram uppskriftinni þar sem hún fer vel yfir hvert skref. Ef einhver kann að gera ómótstæðilega góðar bollur sem erfitt er að standast þá er það hún.
Dubai-súkkulaðibollur með jarðarberjum
Vatnsdeigsbollur
- 100 g vatn
- 100 g mjólk
- 100 g smjör
- 1 tsk. salt
- 1 msk. sykur
- 100 g hveiti
- 3 egg
Aðferð:
- Byrjið á því að hita mjólk, vatn og smjör í potti að suðu.
- Bætið við hveiti ásamt salti saman við og blandið vel saman með sleikju.
- Ristið deigið í pottinum í rúma mínútu.
- Setjið deigið í skál og leyfið því að kólna í 5 mínútur, hrærið eggjunum, smátt og smátt saman við.
- Deigið á að vera þykkt og renna frekar hægt af sleikjunni eða svo að það haldi lögun.
- Þá er deigið tilbúið tilnotkunarr.
Kexdeig
- 100 g hveiti
- 100 g sykur
- 100 g mjúkt smjör
Aðferð:
- Blandið öllu hráefninu saman í deig.
- Rúllið deiginu út í 2–3 mm þykkt á milli tveggja bökunarpappíra og setjið inn í kæli.
- Setjið vatnsdeigið í sprautupoka og sprautið meðalstórum bollunum á bökunarplötu klædda smjörpappír.
- Takið kexdeigið úr kælinum, stingið út hringi sem eru örlítið stærri en deigbollan og leggið ofan á bolluna.
- Bakið bollurnar í 175°C heitum ofni í 25–30 mínútur eða þar til að bollurnar eru orðnar gullinbrúnar.
- Passið að opna ofninn ekki meðan á bakstrinum stendur því þá er hætta á að bollurnar falli.
- Leyfið bollunum að kólna áður en þið fyllið þær og skreytið.
Þeyttur mjólkursúkkulaði-ganache
- 4 g matarlím
- 110 g rjómi (fyrri skammtur)
- 200 g mjólkursúkkulaði
- 240 g rjómi (seinni skammtur)
Aðferð:
- Leggið matarlímið í kalt vatn þangað til að matarlímsblöðin eru orðin mjúk.
- Vigtið súkkulaðið í skál.
- Hitið rjóma, fyrri skammtinn (110 g), í litlum potti að suðu.
- Takið mjúku matarlímsböðin úr vatninu og bræðið þau saman við rjómann.
- Hellið rjómablöndunni yfir súkkulaðið.
- Blandið þessu saman þangað til að súkkulaðið hefur bráðnað.
- Hellið seinnirjómaskammtinumm (240 g) í lítilli bunu saman við súkkulaðiblönduna og hrærið stanslaust á meðan. Ólöf mælir með að nota töfrasprota í þetta skref.
- Setjið kremið í skál með plastfilmu yfir og setjið inn í kæli yfir nótt.
- Takið kremið úr kælinum og létt þeytið það, færið kremið síðan yfir í sprautupoka með stórum stjörnustút.
Pistasíufylling
- 1 krukka pistasíukrem
- 500 g katafi
- 1 msk. smjör
Aðferð:
- Bræðið smjörið á pönnunni, ristið síðan katafi deigið upp úr smjörinu þangað til það er orðið gullin brúnt og leyfið því að kólna.
- Blandið ristaða katafi-deiginu síðan við pistasíukremið.
- Toppið lokið bollunum með því að setja smá pistasíufyllingu ofan ásamt jarðarberjasneið/bát.