Bragðmiklir orkuklattar sem þú átt eftir dýrka

Bragðmiklir orkuklattar með dökku súkkulaði og kókos-og möndlusmjöri sem þið …
Bragðmiklir orkuklattar með dökku súkkulaði og kókos-og möndlusmjöri sem þið eigið eftir að kolfalla fyrir. Algjört sælgæti að njóta. Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal

Ef þú elskar góð orkustykki, eins og granólastykki eða klatta sem eru stútfullir af alls konar góðgæti og næringu, þá eru þessi málið. Þetta eru orkuklattar með dökku súkkulaði og kókos- og möndlusmjöri.

Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, á heiðurinn af þessari uppskrift en hún heldur úti uppskriftasíðunni sem ber hennar gælunafn hér.

„Þessir klattar eru svo hrikalega góðir og einfaldir, innihalda náttúrulega sætu og eru auk þess vegan. Mitt allra uppáhalds, kókos- og möndlusmjörið frá Rapunzel gefur einstakt bragð og heldur þessu öllu saman ásamt banananum,“ segir Valla í færslu sinni.

Kosturinn við þessa klatta er auðveldlega að það er hægt að frysta þá og taka út eftir þörfum og svo er líka hægt að skipta út fræjunum fyrir aðra tegund eða möndlunum út fyrir aðrar hnetur eða hvað sem þér finnst gott. Þessa uppskrift er hægt að leika sér með og gera að sinni.

Svo eru þessir klattar líka svo góðir til að taka með í göngur, skíðaferðir eða útivistina sem útheimtir mikla orku. Fullkomið nesti til að taka með og narta í þegar orkan þrýtur.

Bragðmiklir orkuklattar með dökku súkkulaði og kókos- og möndlusmjöri

  • 1 stór þroskaður banani
  • 140 g möndlu- og kókosmjör frá Rapunzel
  • 3 msk. hlynsíróp
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 180 g grófir hafrar
  • 50 g 70% súkkulaði, smátt saxað
  • 40 g möndlur, fínt saxaðar
  • 40 g graskersfræ
  • 40 g rúsínur
  • 25 g kókos
  • 1 tsk. kanill
  • ¼ tsk. matarsódi
  • ¼ tsk. salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 175°C og hafa blásturinn á.
  2. Saxið möndlurnar og súkkulaðið og setjið til hliðar.
  3. Setjið bananann í skál og stappið vel.
  4. Bætið möndlu-og& kókossmjöri,hlynsírópip ogvanilludropuma út í og hrærið vel.
  5. Setjið hafra, súkkulaði, möndlur, graskersfræ, rúsínur, kókos, kanil, matarsóda og salt í skál.
  6. Hrærið vel saman.
  7. Setjið bananablönduna saman við.
  8. Takið fram ofnplötu og setjið á hana bökunarpappír.
  9. Mótið smákökur með ískúluskeið eða tveimur matskeiðum.
  10. Þrýstið aðeins á þær svo þær fletjist út.
  11. Bakið í um það bil 20 mínútur.
  12. Leyfið kökunum að kólna í smástund á plötunni og færið þær síðan yfir á smákökugrind og leyfið þeim að kólna alveg.
  13. Njótið hvers bita þegar ykkur langar til.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert