Ljúffengur bolluhringur fyrir vandláta

Ilmurinn verður svo lokkandi þegar þessar brauðbollur eru bakaðar.
Ilmurinn verður svo lokkandi þegar þessar brauðbollur eru bakaðar. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Hvað er betra en nýbakaðar og ylvolgar bollur með smjöri og osti? Það er gaman að breyta aðeins út af vananum og í stað þess að gera stakar bollur að gera bolluhring eða annað slíkt í tilefni þess að bolludagur er fram undan næstkomandi mánudag, þann 3. mars.

Sumir vilja frekar hefðbundnar brauðbollur heldur en sætar bollur með rjóma og sætindum. Hægt er að leika sér með útfærsluna á þessum bolluhring og setja mismunandi fræ ofan á bollurnar. Það getur komið skemmtilega út en Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar sem á heiðurinn af uppskriftinni gerði það einmitt. Síðan er hægt að vera með alls konar meðlæti eins og brauðsalöt, pestó eða kjötálegg.

Þessar eru líka fullkomnar til mæta með í vinnustaðakaffið fyrir þá sem vilja ekki sætar bollur með fyllingu og rjóma.

Bolluhringur

  • 130 g smjör
  • 350 ml nýmjólk
  • 1 bréf þurrger (12 g)
  • 680 g hveiti
  • 80 g sykur (+ 1 msk.)
  • 1 stk. egg, pískað
  • fræ að eigin vali

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið og hellið mjólkinni saman við þar til blandan er ylvolg.
  2. Takið hana þá af hellunni, setjið 1 msk. af sykri saman við og þurrgerið, hrærið saman og leyfið að standa í nokkrar mínútur.
  3. Setjið hveiti, sykur og salt í hrærivélarskálina og blandið saman með króknum.
  4. Hellið mjólkurblöndunni saman við og hnoðið í deig.
  5. Smyrjið skál að innan með matarolíu, veltið deigkúlunni upp úr henni, plastið skálina og leyfið deiginu að hefast í eina klukkustund.
  6. Mótið þá um 17 bollur og raðið á bökunarpappír í hring, leyfið að hefast að nýju í 45 mínútur.
  7. Hitið ofninn í 220°C og áður en þið setjið bollurnar í ofninn má pensla þær með eggi og setja á þær fræ að eigin vali sé þess óskað.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert