Svona lagar þú klassíska baunasúpu fyrir sprengidag

Baunasúpan er ómissandi hluti með saltkjötinu á sprengidag.
Baunasúpan er ómissandi hluti með saltkjötinu á sprengidag. mbl.is/Karítas

Sprengidagur er handan við hornið og þá er lag að byrja undirbúa baunasúpuna ef þú ætlar að bjóða upp á saltkjöt á baunir á morgun, sprengidag. Baunirnar þurfa að liggja í bleyti í sólarhring og því er vert að undirbúa máltíðina með sólarhrings fyrirvara.

Meistarkokkurinn Rúnar Gíslason hjá Kokkunum kann listina þegar góða og einfalda baunasúpu skal gera en það er hún sem er aðalatriðið þegar saltkjöt og baunir eru borin fram á borð á þessum degi.

Saltkjötið er soðið í sér potti og síðan er lag að sjóða kartöflur í sér potti og bera hvort tveggja fram með súpunni. Veljið magn af kjöti og kartöflum eftir fjölda sem von er á í mat.

Baunasúpan hans Rúnars

  • 3 l vatn
  • 500 g gular baunir (súpubaunir)
  • 300 g gulrætur
  • 150 g rófur
  • 50 g sellerístilkar
  • 60 g beikon
  • Nautakraftur 1 klípa sirka 15-20 g
  • Salt (kristal)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja baunir í bleyti og látið standa í sólarhring.
  2. Sigtið síðan vatnið frá daginn eftir og skolið baunirnar.
  3. Skrælið grænmeti og skerið í bita.
  4. Skerið beikon í bita líka
  5. Setjið allt grænmetið ásamt beikoninu í pott og hellið þremur lítrum af vatni út í.
  6. Setjið síðan baunirnar settar út í og fáið suðuna upp.
  7. Bætið þá nautakrafti út í og sjóðið í 2 -3 klukkutíma.
  8. Maukið síðan með töfrasprota og smakkið til með salti.
  9. Kart­öfl­urn­ar má einnig sjóða sér í potti.
  10. Salt­kjötið er soðið í sér potti.
  11. Berið súpuna fram ásamt saltkjöti og kartöflum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert