Langar þig að gera ljúffengan fiskrétt á augabragði? Þessi unaðslega góði fiskréttur er snilld að útbúa, það er hægt að skella honum saman á um fimmtán mínútum og síðan ganga frá öllu og leggja á borð á meðan hann mallar í ofninum í tuttugu mínútur.
Þetta er ofnbakaður lax með hrísgrjónum og uppskriftin kemur frá Berglindi Hreiðars hjá Gotterí og gersemum.
Hér má sjá Berglindi galdra fram fiskréttinn á mettíma.
Ofnbakaður lax með hrísgrjónum
Fyrir 4-6
- 250 g Tilda basmati hrísgrjón
- 900 g laxaflök
- 1 rauð paprika
- ½ blaðlaukur
- 2 hvítlauksrif
- 200 g Philadelphia rjómaostur með sweet chilli
- 550 ml rjómi
- Rifinn ostur
- Salt, pipar og hvítlauksduft eftir smekk
- Ólífuolía til steikingar
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Sjóðið hrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum á pakka á meðan þið undirbúið annað.
- Skerið laxinn í bita og skerið einnig niður papriku og blaðlauk.
- Steikið papriku og blaðlauk upp úr ólífuolíu og kryddið eftir smekk.
- Bætið hvítlauknum á pönnuna þegar paprika og blaðlaukur eru búin að mýkjast og hitið saman í um mínútu.
- Bætið þá rjóma og rjómaosti saman við og hrærið þar til rjómaosturinn er bráðinn.
- Setjið síðan hrísgrjónin í botninn á eldföstu móti, næst laxabitana og hellið síðan rjómaostasósunni jafnt yfir allt.
- Toppið með vel af rifnum osti og bakið í ofninum í 20 mínútur.
- Berið fram og njótið með því sem hugurinn girnist.