Elenoru Rós Georgsdóttur þarf vart að kynna en hún hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með sinni einlægu og fallegu framkomu sem og sínum ómótstæðilegu ljúffengu bakstursvörum eins og t.d. bollum.
Bolludagurinn er nýafstaðinn en hann er einn uppáhaldsdagurinn hennar á almanakinu og daginn kallar Elenora þjóðhátíðardag bakara. Í tilefni bolludagsins bauð hún upp á Bollu pop-up á sunnudaginn síðastliðinn í Höfuðstöðinni sem er í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekkunni við Elliðaárdalinn.
Það er gaman að segja frá því að bollurnar seldust upp á mettíma.
„Við opnuðum dyrnar klukkan tólf í hádeginu og þær voru uppseldar rúmri klukkustund síðar. Ég var orðlaus að sjá móttökurnar og viðbrögðin hjá viðskiptavinum mínum. Þetta var rosalegt í fyrra og enn magnaðara í ár,“ segir Elenora meyr.
Elenora kom sérstaklega til landsins til að halda hátíðalega upp á bolludaginn og standa fyrir pop-up-inu en hún býr í London og starfar þar í bakaríi.
„Ég kom til landsins til að gleðja bolluaðdáendur með bolluviðburði en ég gerði 4 tegundir. Það fór gríðarlega mikil hugmyndavinna í hverja einustu bollu og nánasta fólkið mitt var eflaust orðið ansi þreytt á mér eftir endalaus skilaboð fram og til baka um bollutegundir,“ segir Elenora og skellihlær.
„Upphaflega var ég að velja á milli 18 tegunda, sem urðu svo næstum 30 tegundir og í lokin voru það tvær bollur sem allir voru sammála um að væru langbestar. Ég ákvað síðan hvaða aðrar tvær pössuðu best inn í flóruna.
Bollurnar og hugmyndirnar að baki þeim eiga sér alla sögu. Það er mikil ást á bak við hverja bollu og það var gaman að sjá hvernig fólkið í lífi mínu, bakaríin sem ég hef unnið í og annað skemmtilegt hefur gefið mér innblástur í uppskriftirnar og baksturinn.“
Bollurnar sem Elenora bauð upp á í ár
Þetta er í annað sinn sem Elenora stendur fyrir bolluviðburði sem þessum en í fyrra var hún með pop-up á nýja kaffihúsinu hjá Kokku við Laugaveginn og þá gerðist hið sama. Bollurnar seldust upp á augabragði.
„Það er ómissandi fyrir mig sem bakara að vera á Íslandi á þjóðhátíðardegi stéttarinnar. Ég var staðráðin í að gera þetta aftur í ár og byrjaði að undirbúa viðburðinn í vetur því ég gat hreinlega ekki beðið lengur með að byrja. Þetta gekk svo vel í fyrra að ég á enn erfitt með að trúa því. Ég átti ekki einu sinni von á að það kæmu fleiri en aðeins fjölskylda og vinir.
Ég fékk algjört sjokk þegar við opnuðum dyrnar í fyrra hjá Kokku og sá að það var röð niður stigann og lengst út á götu. Örstuttu seinna voru mörg hundruð bollur uppseldar. Ég trúði ekki mínum eigin augum, stuðningurinn fór langt fram úr mínum stærstu draumum og það var lítil bakarakona inni í mér sem fylltist miklu þakklæti. Svo endurtók þetta sig á sunnudaginn, ég er bara í sjokki.“
Fólk byrjaði að streyma að Höfuðstöðinni um klukkan tíu um morguninn þrátt fyrir óveður og Elenora var búin þrefalda magnið frá því í fyrra. Nýtt met var slegið enn og aftur, allt var uppselt á rúmri klukkustund.
„Fjölskyldan mín sem ætlaði bara að sitja og njóta þess að fá sér bollur endaði með að vera dregin í afgreiðslu og meira að segja níu ára litla frænka mín var komin í að raða í poka og hjálpa til. Vísa þurfti tugum fólks frá vegna þess hve hratt við seldum upp, sem er alltaf leiðinlegt,“ segir Elenora sem er á bleiku skýi eftir viðtökurnar.