Nýr og glæsilegur veitingastaður verður opnaður í vor þar sem Kaffi Reykjavík var áður til húsa árum áður.
„Við erum með húsið í leiðréttingarferli og ætlum að koma því í upprunalegt form. Þetta er eitt fallegasta húsið í Reykjavík, ef ekki hið fallegasta,“ segir Ýmir Björgvin Arthúrsson athafnamaður.
Ýmir, sem hefur verið titlaður frumkvöðull í upplifunar- og matartengdri ferðaþjónustu, undirbýr nú opnun veitingastaðar í sögufrægu húsi á Vesturgötu 2. Húsið hét upprunalega Bryggjuhúsið og var byggt árið 1863. Það hefur á síðari árum verið þekktast fyrir veitingastaðinn Kaffi Reykjavík. Engin starfsemi hefur verið þar síðustu ár en um tíma stóð til að opna þar mathöll. Þau áform urðu ekki að veruleika en Ýmir segir að í staðinn verði opnaður glæsilegur veitingastaður. Vandað verði til verka og með því verði bæði húsið og matarmenningin og -sagan heiðruð. Gestum verði boðið til veislu fyrir öll skynfæri.
„Staðurinn mun heita Bryggjuhúsið og þar inni finnurðu ýmislegt. Til að mynda kampavíns- og brauðtertubar, ostabúð og sitthvað fleira eins og „vínhöll“ þar sem boðið verður upp á skemmtilegt vínsmakk og kynningar. Svo verðum við líka með fókus á heimilismat og huggulegheit. Þetta verður sælureitur sælkerans og þarna geturðu komið og látið þér líða vel og slakað á.“
Ýmir og eiginkona hans Hrefna Ósk Benediktsdóttir munu reka Bryggjuhúsið saman. Hann segir að þau hafi staðið í ströngu við undirbúning að undanförnu, til að mynda átt rómantískar helgar við að skafa málningu af burðarbitum og fleira í þeim dúr. Þau stefna að því að opna dyr Bryggjuhússins fyrir gestum í maí. „Við ætlum að ná sólinni og sumrinu sem er búið að lofa okkur.“
Vesturgata 2 er sögufrægt hús. Það var byggt árið 1863 af C.P.A. Koch útgerðarmanni og var þá kallað Bryggjuhúsið. Vesturgata 2 hefur þá sérstöðu að vera núllpunktur borgarinnar. Við það eru öll götunúmer í borginni miðuð og talið út frá því til allra átta. Upphaflegi hluti hússins stendur enn en það hefur verið stækkað í gegnum tíðina, húsið hækkað og byggt við það. Þar hefur meðal annars verið heildsala, skrifstofur og ýmsar verslanir en veitingarekstur hin síðari ár.
Bryggjuhúsið var reist árið 1863. Upphaflegi hluti hússins stendur enn en það hefur verið stækkað í gegnum tíðina.
Af hálfu bæjaryfirvalda var kvöð um opinn gang í gegnum húsið svo að aðgangur að bryggjunni norðan þess væri öllum opinn. Húsið var því eins konar borgarhlið og fóru margir sem komu með skipum til bæjarins í gegnum ganginn. Þessum gangi var lokað árið 1929.