Mikil aðsókn á matarmarkaðinn

Matarmarkaður Ungir sem aldnir gerðu sér ferð á matarmarkaðinn um …
Matarmarkaður Ungir sem aldnir gerðu sér ferð á matarmarkaðinn um helgina. Gestir gátu gætt sér á íslenskum landbúnaðarvörum. mbl.is/Ólafur Árdal

Matarmarkaður Íslands fór fram í Hörpu um helgina, en þar hefur hann farið fram tvisvar sinnum á ári frá árinu 2013.

Á markaðnum koma sjómenn, bændur og smáframleiðendur saman og selja afurðir sínar til neytenda. Markaðurinn fer fram tvisvar sinnum á ári, í aðdraganda jóla og í marsmánuði.

Hlédís Sveinsdóttir, einn aðstandenda markaðarins, segir að mikil aðsókn hafi verið á markaðinn um helgina og að framleiðendur hafi verið hæstánægðir með góða sölu. Segir hún aðsóknina hafa verið ívið meiri í aðdraganda jóla en að framleiðendur hafi þess í stað getað átt betra samtal við neytendur, sem Hlédís segir afar mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað.

Hlédís segir að framleiðendur hafi komið víðast hvar af landinu til að selja vörur sínar. Meðal annars hafi sauðfjárbóndi úr Þistilfirði gert sér ferð á markaðinn til að selja afurðir sínar, en hann selur til að mynda kerti og sápu úr úr kindatólg.

Hægt var að fá afar fjölbreyttar vörur á markaðnum. Meðal annars var hægt að kaupa túlípana frá Stykkishólmi, kvígukjöt af Snæfellsnesi og makrílvörur frá Höfn í Hornafirði, svo eitthvað sé nefnt.

13 ára vann í matarkeppni

Markaðurinn var opinn bæði á laugardag og sunnudag en á laugardag var blásið til matarkeppni í samstarfi við Íslenskt lamb þar sem keppendur áttu að elda kvöldmáltíð með íslensku lambakjöti á fimmtán mínútum.

Hlédís segir að markmiðið með keppninni hafi verið að vekja athygli á að íslenskt lambakjöt sé góð afurð sem sé einnig góð til eldunar í dagsins amstri.

Björn Skúlason, forsetamaki, var yfirdómari í keppninni. Sex einstaklingar á aldrinum sex til 58 ára tóku þátt í keppninni en það var hinn þrettán ára Jakob Leó Ægisson sem stóð uppi sem sigurvegari. Hann matreiddi lambasnitsel sem var borið fram með rabarbarasultu með brúnu karamelíseruðu smjöri sem Hlédís segir að hafi heillað dómnefndina upp úr skónum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert