Rakel hjá Vesturporti afhjúpar vikumatseðilinn

Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi hjá Vesturporti, á heiðurinn af vikumatseðlinum þessa …
Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi hjá Vesturporti, á heiðurinn af vikumatseðlinum þessa vikuna. Ljósmynd/Aðsend

Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi hjá Vesturporti, á heiðurinn af vikumatseðlinum þessa vikuna. Rakel hefur mikla ástríðu fyrir starfinu sínu en hún er líka áhugasöm um matargerð og er meðal annars í stjórn Hússtjórnarskólans í Reykjavík og stofnandi hópsins Vakandi, svo fátt sé nefnt.

Alls ekki fyrir löngu sló Vesturport í gegn með þáttunum um Vigdísi og hreif með sér alla þjóðina.

„Nýjasta afurðin okkar eru þættirnir um Vigdísi Finnbogadóttur þjóðhöfðingja okkar sem sýndir voru á RÚV í janúar á þessu ári. Vigdís er einstaklingur sem ég lít mikið upp til, hún sýnir að draumar geti svo sannarlega ræst!

Þvílíkur innblástur sem hún hefur veitt mér. Ég er líka stofnandi hópsins Vakandi, sem var stofnaður með þann tilgang að vekja athygli á hversu vanhugsað það er að sóa mat. Matur er verðmæti sem við þurfum að meta og fara betur með.

Á þessum rúmum 10 árum síðan samtökin voru stofnuð hefur nú ýmsilegt breyst til hins betra en það er eins með það og margt annað að við megum alls ekki sofna á verðinum. Ég elda því mjög oft súpur og kássur. Oftast án uppskrifta þar sem ég pikka bara það sem til er að hverju sinni og það klikkar bara ansi sjaldan,“ segir Rakel með bros á vör.

Áhugamanneskja um freyðivín

Rakel er líka mikil áhugamanneskja um freyðivín og veit fátt skemmtilegra en að skála í góðra vina hópi með freyðivín við hönd.

„Þar sem mér finnst líka svo gaman að hafa það skemmtilegt en ég er líka mikil áhugamanneskja um freyðivín. Við vorum einn vetur í Flórens á Ítalíu og þar er nú bara talað um ítalska vatnið sem er boðið upp á með matnum,“ segir Rakel kímin á svip.

„Í Noregi er freyðivín sem ég er mjög hrifin af sem heitir „Lykkebobbler“ og er hugarsmíði hinnar einstöku listakonu og gleðibombu Bjargar Þórhalldsdóttur. Flaskan er mjög skemmtileg þar sem hún er með listaverki eftir Björgu utanvert og þetta er einstaklega gott búbbluvín og hugmyndin frábær.

Björg Þórhallsdóttir og Rakel Garðarsdóttir við uppáhaldsvínekruna á Ítalíu þar …
Björg Þórhallsdóttir og Rakel Garðarsdóttir við uppáhaldsvínekruna á Ítalíu þar sem töfrarnir gerast. Ljósmynd/Aðsend

Við ákváðum því að gera sambærilegt fyrir íslenskan markað, Lukkubúbblur. Vínið er að sjálfsögðu lífrænt, þar sem ég vil helst forðast skordýraeitur, og í flokknum Blanc de Blancs frá Frakklandi. Fullkomið vín á frábæru verði, smá Lukku í glas og kvöldinu eða deginum er reddað. En það þarf víst að borða með búbbluglasinu, þannig að í fullkomnri viku myndi vikumatseðillinn með freyðivíninu mínu líta svona út eins og sjá má hér fyrir neðan.“

Hér eru lukkubúbblurnar framleiddar.
Hér eru lukkubúbblurnar framleiddar. Ljósmynd/Aðsend

Mánudagur – Ítölsk grænmetisúpa

„Ég elska ítölsku grænmetissúpuna úr Húsó. Ég sit í stjórn Húsó og veit því hversu góður matur kemur úr þeirri smiðju. Ég elska súpur og þessi með ítölsku ívafi getur ekki klikkað. Með henni myndi ég auðvitað hafa brauð, ekki verra ef það væri nýbakað.“

Þriðjudagur – Ómótstæðilega góður ofnbakaður fiskréttur

„Það er alltaf gott að fá sér fisk. Ég elska ofnrétti og myndi því henda í þennan. Þó að uppáhaldsfiskrétturinn minn sé hrogn og ýsa stappað saman með smjöri, er hægt að fá það svo sjaldan að þessi ljúffengi ofnréttur fer langt á topplistann.“

Miðvikudagur – Girnilegasta grænmetislasanja allra tíma

„Ég dýrkaði að fá mér grænmetislasagna á Næstu grösum hér í „den“, þessi uppskrift slær þeim rétti alls ekki út.“

Fimmtudagur – Ljúffengur kjúklingaréttur

„Ég borða ekki mikið kjöt, en það er þá helst fuglakjöt. Ég myndi að öllum líkindum skipta út kjúkling fyrir kalkúnaleggi sem hægt er að kaupa frosna í flestum verslunum.“

Föstudagur – Syndsamlega góður pastaréttur

„Ég elska ansjósur og get borðað þær með öllu og líka eintómar. Hér er pastaréttur sem getur ekki klikkað.“

Laugardagur – Pönnupítsa

„Ég myndi nota restina af ansjósunum á pítsuna mína og setja líka chilli-flögur og svartar ólífur, á meðan restin á heimilinu velur pepperóní.“

Sunnudagur – Asísk súpa sem bragð er af

„Það er æðislegt að enda svo vikuna á bragðgóðri súpu, ég hef mikið dálæti af asískum súpum, svo bragðgóðar og matarmiklar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert