„Þar er líka besta mötuneyti Íslands“

Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, alla jafna kölluð Svansí, er sú sem …
Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, alla jafna kölluð Svansí, er sú sem afhjúpar matarvenjur sínar að þessu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, alla jafna kölluð Svansí, er sú sem afhjúpar matarvenjur sínar að þessu sinni.

Svansí er mikill sælkeri og elskar matarboð með vinum og vandamönnum.

„Að sitja saman, borða góðan mat og spjalla nærir bæði magann og sálina. Ekki verra ef það er gott vínglas með. Við hjónin elskum Frakkland og allt sem það land hefur upp á að bjóða og reynum að fara þangað eins oft og við getum. Á mínu heimili sér Gestur, eiginmaður minn, um matinn en hann gerir allt betra,“ segir Svansí og brosir.

Svansí er gift, á þrjú börn, þrjú barnabörn og einn kött og elskar fátt meira en að vera með fjölskyldunni. Þá eru matartímarnir gjarnan gæðastundir fjölskyldunnar. Hún starfar hjá markaðsdeild Icelandair frá 2021 sem Product Manger Advertising eða vörustjóri auglýsinga Icelandair.

Situr í stjórn VR 

„Það er gott að vinna fyrir Icelandair, þar starfar gott, klárt og skemmtilegt fólk og þar er líka besta mötuneyti Íslands. Ég starfaði lengi í fjölmiðlum eða frá 1990-2021 við auglýsingar og dagskrárgerð. Ég sit í stjórn VR og er nú einmitt að bjóða mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu,“ segir Svansí sposk á svip en nú standa yfir kosninar hjá VR og lýkur að hádegi á morgun,13.mars.

Svansí er þekkt fyrir að vera mikill gleðigjafi og það er ávallt stutt í brosið. Hennar kjörorð eru þessi:

„Brosið og bjóðið góðan dag, þá verður dagurinn betri fyrir alla. Lífið er of stutt fyrir megrunarkúra. Borða bara aðeins minna og þá er þetta allt í lagi. Hver elskar ekki mjúkar línur?,“ segir Svansí og vindur sér í spurningarnar.

Byrjaði að drekka kaffi 10 ára gömul

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Hér áður fyrr fékk ég mér alltaf kaffi, ristað brauð með osti og sultu en í dag fæ ég mér góðan kaffibolla með haframjólk. Ég byrjaði að drekka kaffi 10 ára gömul en ég ólst upp á sveitabæ í Skagafirði og þar fékk maður sér góða kaffibolla milli verka.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ótrúlegt en satt þá er ég ekki mikið að nasla milli mála. En ef ég fæ mér eitthvað þá er það yfirleitt hrökkbrauð með osti og stundum stelst ég í sælgæti sem er daglega fyrir augum mínum í vinnunni. Ég verð að minnast á bananabrauðið hennar Carolyn í vinnunni en það er það allra besta sem ég hef smakkað. Ég væri til í að narta í það milli mála alla daga.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Já, hádegismaturinn er mikilvægur en ég reyni að hafa þann háttinn á að ef ég borða mat í hádeginu þá fæ ég mér eitthvað léttara á kvöldin. Ég elska mötuneytið hjá Icelandair í nýju glæsilegu höfuðstöðvunum á Flugvöllum í Hafnafirði. Það er eins og maður sé á háklassa veitingastað á hverjum virkum degi og erfitt að standast það. En kvöldverður heima er líka mikilvægur og góður og best ef öll börnin og barnabörnin eru í húsi.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Stórt oststykki, haframjólk, egg, hvítvín og Crémant.“

Ískalt súkkulaði er miklu betra

Borðar þú páskaegg?

„Já, ég borða sko páskaegg en ég geymi þau inni í ísskáp því ískalt súkkulaði er miklu betra en volgt.“

Hver er uppáhaldspáskaeggjategundin þín?

„Þau eru öll góð, ólík en góð. Best er að fá eitt frá hverjum framleiðanda.“

Geymir þú málshættina þína?

„Ég gerði það þegar ég var stelpa en er löngu hætt því. Ég reyni að forðast að safna dóti. En ég hef mjög gaman af málsháttunum og finnst skemmtileg hefð að hver og einn lesi þá upphátt fyrir aðra fjölskyldumeðlimi.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Það fer eftir í hvernig stuði ég er hverju sinni en ég fer oftast á La Primavera, Apótekið og Snaps. Annars erum við ansi rík af frábærum veitingastöðum hér á höfuðborgarsvæðinu.“

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Burrata á margarítu er það allra besta. Heimabökuð pítsa a la Gestur með burrata, já takk. Svo fæ ég mér stundum osta-pítsu ef burrata er ekki fáanlegt.“

Ein með öllu

Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?

„Ein með öllu fyrir mig með remolaði ofan á er algjörlega. Ég er ansi ánægð að þú skrifar pylsa en ekki pylsa. Ég er að norðan og þar tölum við íslensku.“

Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?

„Þessi spurning er erfið, erfitt að gera upp á milli rétta. Mér finnst Boeuf Bourguignon með hvítlaukskartöflumús dásamlegur réttur, gnocchi sleppi ég ekki ef það er í boði. Annars er ég oft frekar hefðbundin og er mjög hrifin af kjöti í raspi með Ora baunum, rauðkáli og brúnni sósu.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Ég elska kartöflur í öllu formi, steiktar, bakaðar, soðnar en það er líka alltaf salat á disknum mínum.“

Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Það fer eftir hvaða dagur er og hvenær dags. Sódavatn, kaffi eða gott léttvínsglas er líklega það sem ég vel oftast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert