Ashley Mariott sigraði fyrir hönd Íslands í BarLady-keppninni

Ashley Marriott gerði sér lítið fyrir og hreppti fyrsta sætið …
Ashley Marriott gerði sér lítið fyrir og hreppti fyrsta sætið í keppninni „International BarLady“. Hún hefur nú fest sig í sessi sem einn af fremstu barþjónum heims. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland vann glæsilegan sigur á alþjóðavettvangi í kokteilagerð á dögunum. Ashley Marriot, sem keppti fyrir Íslands hönd í keppninni „International BarLady“ gerði sér lítið fyrir og hreppti fyrsta sætið í þessari virtu keppni sem fór fram í hinu sögufræga hóteli „Hotel Nacional de Cuba“ í Havana, Kúbu. Hún hefur nú fest sig í sessi sem einn af fremstu barþjónum heims.

Haldin í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna

BarLady-keppnin, sem haldin er árlega í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sameinar hæfileikaríkar konur og kvár í veitingageiranum, að þessu sinni frá tuttugu löndum. Þar glíma þátttakendur við krefjandi verkefni þar sem listræn sköpun, tækni og blöndun ljúffengra kokteila skipta höfuðmáli. Ashley heillaði dómnefndina svo sannarlega með kokteilunum sínum, en það var framúrskarandi framsetning og frumleg nálgun sem tryggðu henni sigurinn.

Ashley einn af fremstu barþjónum heims

Ashley ferðaðist með fríðu föruneyti, en með henni á Kúbu voru Elna María Tómasdóttir, varaforseti Barjónaklúbbs Íslands og þjálfari, og David Hood, yfirbarþjónn á Amma Don/ÓX og kærasti Ashley.

Í úrslitum tóku keppendur þátt í svokallaðri Black Box-áskorun, þar sem þeir fengu körfu fulla af fjölbreyttum hráefnum og þurftu að búa til nýjan kokteil á staðnum eingöngu úr þeim.

Ashley skaraði þar fram úr og tryggði sér sigur og hlaut þar með titilinn „Barlady of the Year 2025“. Með þessum titli hefur hún fest sig í sessi sem einn af fremstu barþjónum heims.

Ashley að blanda í klassískan kokteil.
Ashley að blanda í klassískan kokteil. Ljósmynd/Aðsend

Þakklæti Ashley hefst í huga

„Nú þegar ég er loksins komin aftur til Íslands get ég tekið mér smá stund til að íhuga þessa ótrúlegu reynslu. Fyrst og fremst vil ég þakka öllum konunum sem tóku þátt – þær hafa verið hlýjar, elskulegar og örlátar með tíma sinn og þekkingu.

Þrátt fyrir þær áskoranir sem við stóðum frammi fyrir í keppninni, af ýmsum ástæðum, var augljóst að hver og ein lagði sig fram af heilindum til að gera sitt allra besta. Ég get sagt með fullri sannfæringu að allir keppendur sýndu reisn og háttvísi – þær gerðu bæði sjálfum sér og löndum sínum stolt,“ segir Ashley meyr.

„Hugmyndin að baki þessari keppni er aðdáunarverð og ég vil einlæglega þakka öllum fulltrúum hvers lands sem lögðu sitt af mörkum til að skapa bestu mögulegu aðstæður fyrir keppnina. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessum ótrúlegu og hæfileikaríku konum, þrátt fyrir allar áskoranir.

Að lokum vil ég þakka kúbversku þjóðinni, sem gerði þessa upplifun ógleymanlega með hlýju sinni og jákvæðni. Ég er einnig þakklát Elnu, sem trúði á mig frá fyrsta degi og var alltaf til staðar – jafnvel þegar allt virtist ganga á afturfótunum.

Og síðast en alls ekki síst, vil ég þakka kærastanum mínum David Hood, sem var ómetanlegur stuðningur og betri en nokkur gæti óskað sér. Hann stendur alltaf þétt við bakið á mér, og ég gæti ekki óskað mér betri lífsförunaut,“ segir Ashley full þakklætis.

Elna María Tómasdóttir, varaforseti Barjónaklúbbs Íslands og þjálfari Ashley samfagnar …
Elna María Tómasdóttir, varaforseti Barjónaklúbbs Íslands og þjálfari Ashley samfagnar sinni konu. Ljósmynd/Aðsend

Hver keppandi keppti í þremur flokkum

Í keppninni úti var keppt í 5 flokkum og sigurvegarar úr hverjum flokki komust í úrslit. Flokkarnir voru eftirtaldir:

  • Klassískur flokkur (flokkurinn lýsir klassískum kokteil, þurr eða sætur)
  • Þjóðardrykkur/kokteill (Þessi flokkur lýsir drykk eða kokteil sem þarf að innihalda staðbundið hráefni eða innblástur frá heimalandi keppandans).
  • Long Drink flokkur (flokkur sem lýsir drykk í háu glasi sem þarf að vera toppaður upp með fylliefni/blöndu).
  • Latino flokkur (flokkurinn lýsir eftirréttakokteil eða kokteil sem getur komið í staðinn fyrir eftirrétt með dæmigert latnesk-amerísk hráefni/brögð).
  • Freyðandi flokkur (flokkurinn lýsir kokteil sem þarf að vera fylltur upp með freyðivíni).

Hver keppandi tók þátt í þremur flokkum. Ashley keppti í klassískum flokki, heimalandsflokki og freyðandi flokki. Hún kom, sá og sigraði klassíska flokkinn og komst þannig í úrslit.

Þessar fimm komust áfram í úrslit og hér er Ashley …
Þessar fimm komust áfram í úrslit og hér er Ashley önnur í röðin frá hægri. Ljósmynd/Aðsend

Vann forkeppnina á Íslandi

Barlady-forkeppnin var haldin hér á Íslandi í janúar. Keppnin er skipulögð af Barþjónaklúbbi Íslands í samstarfi við Samtök Íslenskra eimingarhúsa (SÍE) þar sem íslenskar vörur voru í forgrunni. Aðilar SÍE sem tóku þátt í keppninni voru Eimverk Distillery, Brunnur Distillery (Himbrimi), Reykjavík Distillery og Hovdenak Distillery.

Þar drógu keppendur sér Eimingarhús og þurftu að nota vöru frá þeim í forgrunni kokteilsins. Ashley dró Reykjavík Distillery og bar sigur út bítum með kokteilinn sinn Atomic Bloom sem tryggði henni þátttökurétt í alþjóðlegu Barlady-keppninni á Kúbu.

 

Kokteillinn hennar Ashley í þjóðarflokkinum, Atomic Bloom.
Kokteillinn hennar Ashley í þjóðarflokkinum, Atomic Bloom. Ljósmynd/Aðsend
Kokteillinn hennar Ashley í klassíska flokknum.
Kokteillinn hennar Ashley í klassíska flokknum. Ljósmynd/Aðsend
Sviðið á Hótel Nacional de Cuba var allt í klassískum …
Sviðið á Hótel Nacional de Cuba var allt í klassískum stíl. Ljósmynd/Aðsend
Mikl gleði greip um sig þegar úrslitin voru kunngjörð.
Mikl gleði greip um sig þegar úrslitin voru kunngjörð. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert