Glasinu er hallað í 45 gráður og það er fyllt að þremur fjórðu. Því næst er það hvílt um stund og froðunni leyft að jafna sig. Þá er glasið fyllt og að þessu sinni er dælt beint ofan í glasið. Allt í allt tekur þetta 119,5 sekúndur ef vel er að verki staðið. Og viðskiptavinurinn fær í hendur hinn fullkomna Guinness-bjór.
Dagur heilags Patreks er á mánudaginn, 17. mars. Af þeim sökum verður írsk stemning á fjölda bara og veitingastaða um helgina. Líklegt má telja að margir nýti tækifærið og svolgri í sig dökkan Guinness-bjór af áfergju en stöðum sem fagna þessum degi sérstaklega hefur fjölgað hratt hér á landi. Fyrir Covid voru ekki nema 3-4 staðir sem það gerðu en nú eru minnst 15 staðir sem bjóða gestum upp á alvöru írska stemningu, skreytingar og veigar.
Vinsældir írska bjórsins Guinness hafa vaxið hratt síðustu misseri. Hann er mest seldi bjórinn á pöbbum í Bretlandi, í það minnsta þar til skortur fór að gera vart við sig, og hér á landi hefur salan rokið upp. En hvað veldur? Sennilegast ráða samfélagsmiðlar þar mestu; frægt fólk hefur auglýst Guinness-drykkju sína og vinsældir þess að „splitta G-inu“ virðast engan enda ætla að taka. Allt í einu er „drykkur roskinna karla“ orðinn vinsæll meðal kvenna og hjá aldamótakynslóðinni.
Guinness er svokallaður stout, bjórstíll sem á sögu sína að rekja aftur til 18. aldar. Þá var porter drukkinn í miklu magni á dögum iðnbyltingarinnar í Bretlandi. Hann fékk að þroskast í um það bil ár og varð fyrir vikið mýkri en ekki veitti af enda var hann um sex prósent að styrkleika, dökkur og bragðmikill. Þegar Arthur Guinness stofnaði brugghús sitt árið 1759 var enskur porter svo vinsæll að hann átti ekki annarra kosta völ en að gera sína útgáfu af honum. Og það heppnaðist vel. Sonur hans tók við keflinu og breytti uppskriftinni lítillega. Eftir það varð bjórinn þekkur sem „extra stout porter“ og að endingu bara „stout“.
Það var hins vegar ekki fyrr en síðar sem hvíta froðan bættist við. Algengast er að bjór sé kolsýrður. Froða Guinness-bjórsins kemur aftur á móti frá blöndun hans við köfnunarefni við dælingu. Þá aðferð má þakka bruggaranum Michael Ash sem þróaði þá aðferð árið 1959 að blanda saman 70% köfnunarefni og 30% súrefni við dælingu. Þar með varð til þessi fullkomna dæling sem getið var í upphafi.
Sala á Guinness hófst hér á landið haustið 1989, nokkrum mánuðum eftir að bjórbannið var afnumið. Ekki hafði reynst unnt að flytja hann inn fyrr sökum tregðu heilbrigðisyfirvalda. Þau fylgdu ströngum reglum um að nákvæm innihaldslýsing væri tilgreind á umbúðum og að byrjað væri að telja upp hvaða hráefni væri í mestu magni í hverri bjórtegund. „Framleiðendur Guinness-bjórsins, sem er írskur, vildu ekki verða við þessum kröfum þar sem þeim fannst óþarfi að taka fram í innihaldslýsingu að vatn væri það efni sem mest væri af í bjórnum,“ sagði í umfjöllun DV um málið í september 1989. Sem betur fer ákváðu heilbrigðisyfirvöld hér í fásinninu á endanum að sjá í gegnum fingur sér með þetta og treysta því að vara sem framleidd hefur verið frá 18. öld við miklar vinsældir myndi ekki spilla heilsu Íslendinga um of.
Eins og áður er getið hafa vinsældir Guinness aukist hratt hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni, sem flytur bjórinn inn, hefur salan rúmlega tvöfaldast hér á síðustu tveimur árum og ekki sér fyrir endann þar á. Íslendingar drukku 612 þúsund glös af Guinness á síðasta ári og það var metár. Þegar talað er um glös er að sjálfsögðu vísað til alvöru Guinness-glasa, alvöru bresks pints eða 568 millilítra. Ekkert 400 millilítra-pjatt þar á ferð. Það sem af er ári hefur salan aukist um 50% frá sama tíma í fyrra.
„Þessi söluþróun hérlendis er áhugaverð, til dæmis í ljósi þess að neysla á dökkum bjór hefur ekki verið mikil hér undanfarna áratugi og er mér til efs að viðlíka sala á dökkum bjór hafi nokkru sinni þekkst hér áður,“ segir Garðar Svansson, framkvæmdastjóri áfengra drykkja hjá Ölgerðinni.
„Það má líta á þetta sem jákvæða þróun fyrir bjórmenningu okkar, sem framan af var ansi einsleit en hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum.“
Garðar segir að erfitt sé að segja til um nákvæmlega hvað valdi því að ungt fólk hafi tekið Guinness upp á sína arma. „Guinness er til að mynda lægri í kaloríum en hefðbundinn ljós lagerbjór, og eins og sjá má á yfirburðastöðu Gull Lite á markaði þá er mikil eftirsókn eftir hollari valkostum í bjór líkt og annarri neysluvöru. Þá verður að teljast sennilegt að sportið „að splitta G-inu“ spili rullu í vinsældunum og svo auðvitað þessi miklu gæði sem fullkomnuð hafa verið í Guinness frá miðri átjándu öld og gera hann að einum þekktasta bjór heims.“
Hann segir að Íslendingar hafi sem betur fer ekki þurft að takast á við Guinness-skort, sem komið hefur illa við bari á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu. Þar hefur þurft að grípa til skömmtunar þegar verst lætur.
„Við höfum hins vegar ekki farið varhluta af Guinness-glasaskorti sem hefur einnig verið verkefni víða í löndunum í kringum okkur – en skortinn má bæði rekja til vaxandi vinsælda bjórsins og aukinnar söfnunaráráttu Guinness-neytenda, sem gleyma mögulega stundum að skila glösum á öldurhúsum.“
Vinsældir þess að „splitta G-inu“ virðast endalausar. Um er að ræða samkvæmisleik sem er stundaður á börum um allan heim. Uppruni hans er á huldu en hugtakið hefur verið vel þekkt í það minnsta frá 2018 og eflaust lengur. Leikurinn snýst um það að fyrsti sopinn af Guinness sé nákvæmlega svo stór að bjórlínan nemi við línuna í G-inu í Guinness-merkinu á glasinu. Heppnist það hefur viðkomandi tekist að „splitta“ G-inu í tvennt með línunni.
Hér á Íslandi hefur þessi samkvæmisleikur breiðst út í gegnum samfélagsmiðla eins og annars staðar. Skemmtikraftinum Steinda jr. er meðal annars eignað að hafa boðað fagnaðarerindið en kollegi hans, Dóri DNA, kveðst hafa átt allt frumkvæði og vill fá heiðurinn. Fleiri hafa komið að málum og hljómsveitin Sucks to be you Nigel gaf nýverið út lagið Splitta G-inu.