Sala á Guinness tvöfaldast

Annir Rúnar Sveinsson, vert á Irishman Pub, hefur vart undan …
Annir Rúnar Sveinsson, vert á Irishman Pub, hefur vart undan við að hella Guinness fyrir gesti. Ljósmynd/Hari

Glas­inu er hallað í 45 gráður og það er fyllt að þrem­ur fjórðu. Því næst er það hvílt um stund og froðunni leyft að jafna sig. Þá er glasið fyllt og að þessu sinni er dælt beint ofan í glasið. Allt í allt tek­ur þetta 119,5 sek­únd­ur ef vel er að verki staðið. Og viðskipta­vin­ur­inn fær í hend­ur hinn full­komna Guinn­ess-bjór.

Dag­ur heil­ags Pat­reks er á mánu­dag­inn, 17. mars. Af þeim sök­um verður írsk stemn­ing á fjölda bara og veit­ingastaða um helg­ina. Lík­legt má telja að marg­ir nýti tæki­færið og svolgri í sig dökk­an Guinn­ess-bjór af áfergju en stöðum sem fagna þess­um degi sér­stak­lega hef­ur fjölgað hratt hér á landi. Fyr­ir Covid voru ekki nema 3-4 staðir sem það gerðu en nú eru minnst 15 staðir sem bjóða gest­um upp á al­vöru írska stemn­ingu, skreyt­ing­ar og veig­ar.

Vin­sæld­ir hjá ungu fólki

Vin­sæld­ir írska bjórs­ins Guinn­ess hafa vaxið hratt síðustu miss­eri. Hann er mest seldi bjór­inn á pöbb­um í Bretlandi, í það minnsta þar til skort­ur fór að gera vart við sig, og hér á landi hef­ur sal­an rokið upp. En hvað veld­ur? Senni­leg­ast ráða sam­fé­lags­miðlar þar mestu; frægt fólk hef­ur aug­lýst Guinn­ess-drykkju sína og vin­sæld­ir þess að „splitta G-inu“ virðast eng­an enda ætla að taka. Allt í einu er „drykk­ur rosk­inna karla“ orðinn vin­sæll meðal kvenna og hjá alda­móta­kyn­slóðinni.

Guinn­ess er svo­kallaður stout, bjór­stíll sem á sögu sína að rekja aft­ur til 18. ald­ar. Þá var port­er drukk­inn í miklu magni á dög­um iðnbylt­ing­ar­inn­ar í Bretlandi. Hann fékk að þrosk­ast í um það bil ár og varð fyr­ir vikið mýkri en ekki veitti af enda var hann um sex pró­sent að styrk­leika, dökk­ur og bragðmik­ill. Þegar Arth­ur Guinn­ess stofnaði brugg­hús sitt árið 1759 var ensk­ur port­er svo vin­sæll að hann átti ekki annarra kosta völ en að gera sína út­gáfu af hon­um. Og það heppnaðist vel. Son­ur hans tók við kefl­inu og breytti upp­skrift­inni lít­il­lega. Eft­ir það varð bjór­inn þekk­ur sem „extra stout port­er“ og að end­ingu bara „stout“.

Það var hins veg­ar ekki fyrr en síðar sem hvíta froðan bætt­ist við. Al­geng­ast er að bjór sé kol­sýrður. Froða Guinn­ess-bjórs­ins kem­ur aft­ur á móti frá blönd­un hans við köfn­un­ar­efni við dæl­ingu. Þá aðferð má þakka brugg­ar­an­um Michael Ash sem þróaði þá aðferð árið 1959 að blanda sam­an 70% köfn­un­ar­efni og 30% súr­efni við dæl­ingu. Þar með varð til þessi full­komna dæl­ing sem getið var í upp­hafi.

Ekki er sama hvernig hellt er í glasið. Vanda þarf …
Ekki er sama hvernig hellt er í glasið. Vanda þarf til verka. Ljós­mynd/​Hari

Er ör­ugg­lega vatn í þess­um bjór?

Sala á Guinn­ess hófst hér á landið haustið 1989, nokkr­um mánuðum eft­ir að bjór­bannið var af­numið. Ekki hafði reynst unnt að flytja hann inn fyrr sök­um tregðu heil­brigðis­yf­ir­valda. Þau fylgdu ströng­um regl­um um að ná­kvæm inni­halds­lýs­ing væri til­greind á umbúðum og að byrjað væri að telja upp hvaða hrá­efni væri í mestu magni í hverri bjór­teg­und. „Fram­leiðend­ur Guinn­ess-bjórs­ins, sem er írsk­ur, vildu ekki verða við þess­um kröf­um þar sem þeim fannst óþarfi að taka fram í inni­halds­lýs­ingu að vatn væri það efni sem mest væri af í bjórn­um,“ sagði í um­fjöll­un DV um málið í sept­em­ber 1989. Sem bet­ur fer ákváðu heil­brigðis­yf­ir­völd hér í fás­inn­inu á end­an­um að sjá í gegn­um fing­ur sér með þetta og treysta því að vara sem fram­leidd hef­ur verið frá 18. öld við mikl­ar vin­sæld­ir myndi ekki spilla heilsu Íslend­inga um of.

Drukku 612 þúsund glös í fyra

Eins og áður er getið hafa vin­sæld­ir Guinn­ess auk­ist hratt hér á landi. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Ölgerðinni, sem flyt­ur bjór­inn inn, hef­ur sal­an rúm­lega tvö­fald­ast hér á síðustu tveim­ur árum og ekki sér fyr­ir end­ann þar á. Íslend­ing­ar drukku 612 þúsund glös af Guinn­ess á síðasta ári og það var metár. Þegar talað er um glös er að sjálf­sögðu vísað til al­vöru Guinn­ess-glasa, al­vöru bresks pints eða 568 milli­lítra. Ekk­ert 400 milli­lítra-pjatt þar á ferð. Það sem af er ári hef­ur sal­an auk­ist um 50% frá sama tíma í fyrra.

„Þessi söluþróun hér­lend­is er áhuga­verð, til dæm­is í ljósi þess að neysla á dökk­um bjór hef­ur ekki verið mik­il hér und­an­farna ára­tugi og er mér til efs að viðlíka sala á dökk­um bjór hafi nokkru sinni þekkst hér áður,“ seg­ir Garðar Svans­son, fram­kvæmda­stjóri áfengra drykkja hjá Ölgerðinni.

„Það má líta á þetta sem já­kvæða þróun fyr­ir bjór­menn­ingu okk­ar, sem fram­an af var ansi eins­leit en hef­ur tekið stakka­skipt­um á und­an­förn­um árum.“

Gest­ir gleyma að skila glös­um

Garðar seg­ir að erfitt sé að segja til um ná­kvæm­lega hvað valdi því að ungt fólk hafi tekið Guinn­ess upp á sína arma. „Guinn­ess er til að mynda lægri í kal­orí­um en hefðbund­inn ljós lag­er­bjór, og eins og sjá má á yf­ir­burðastöðu Gull Lite á markaði þá er mik­il eft­ir­sókn eft­ir holl­ari val­kost­um í bjór líkt og ann­arri neyslu­vöru. Þá verður að telj­ast senni­legt að sportið „að splitta G-inu“ spili rullu í vin­sæld­un­um og svo auðvitað þessi miklu gæði sem full­komnuð hafa verið í Guinn­ess frá miðri átjándu öld og gera hann að ein­um þekkt­asta bjór heims.“

Hann seg­ir að Íslend­ing­ar hafi sem bet­ur fer ekki þurft að tak­ast á við Guinn­ess-skort, sem komið hef­ur illa við bari á Bret­lands­eyj­um og á meg­in­landi Evr­ópu. Þar hef­ur þurft að grípa til skömmt­un­ar þegar verst læt­ur.

„Við höf­um hins veg­ar ekki farið var­hluta af Guinn­ess-glasa­skorti sem hef­ur einnig verið verk­efni víða í lönd­un­um í kring­um okk­ur – en skort­inn má bæði rekja til vax­andi vin­sælda bjórs­ins og auk­inn­ar söfn­un­ar­áráttu Guinn­ess-neyt­enda, sem gleyma mögu­lega stund­um að skila glös­um á öld­ur­hús­um.“

Ljós­mynd/​Aðsend

Unga fólkið kepp­ist við að „splitta G-inu“

Vin­sæld­ir þess að „splitta G-inu“ virðast enda­laus­ar. Um er að ræða sam­kvæm­is­leik sem er stundaður á bör­um um all­an heim. Upp­runi hans er á huldu en hug­takið hef­ur verið vel þekkt í það minnsta frá 2018 og ef­laust leng­ur. Leik­ur­inn snýst um það að fyrsti sop­inn af Guinn­ess sé ná­kvæm­lega svo stór að bjór­lín­an nemi við lín­una í G-inu í Guinn­ess-merk­inu á glas­inu. Heppn­ist það hef­ur viðkom­andi tek­ist að „splitta“ G-inu í tvennt með lín­unni.

Sam­kvæm­is­leik­ur keyrður áfram á sam­fé­lags­miðlum

Hér á Íslandi hef­ur þessi sam­kvæm­is­leik­ur breiðst út í gegn­um sam­fé­lags­miðla eins og ann­ars staðar. Skemmtikraft­in­um Steinda jr. er meðal ann­ars eignað að hafa boðað fagnaðar­er­indið en koll­egi hans, Dóri DNA, kveðst hafa átt allt frum­kvæði og vill fá heiður­inn. Fleiri hafa komið að mál­um og hljóm­sveit­in Sucks to be you Nig­el gaf ný­verið út lagið Splitta G-inu.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert