Þessi bragðmikla og syndsamlega góða pítsa sem kemur úr smiðju Snorra Guðmundssonar matgæðings hjá Matur og myndir og á eftir á slá í gegn í næsta pítsapartíi.
Hún er með piccante salami, jalapenó og spæsí pítsasósu og hunangi. Hún rífur vel í og gerir matarupplifunina enn betri. Margar fjölskyldur eru með pítsakvöld á föstudögum og það er vel hægt að mæla með þessari til að njóta, sérstaklega fyrir þá sem vilja hafa þær bragðsterkar.
Þessi pítsa á eftir að rífa í
Piccante salami og jalapenó pítsa með spæsí pítsasósu og hunangi
- 400 g San Marzano tómatar
- 1 rif hvítlaukur
- 5 g basilíka (stilkur og lauf)
- 10 g rautt chili
- 30 ml hunang
- 220 g pítsadeig
- 60 g piccante salami (Tariello)
- 1 stk. grænt jalapenó
- 120 g mozzarella
- Chiliflögur, eftir smekk
Aðferð:
- Smásaxið chili.
- Setjið smá olíu í lítinn pott og stillið á miðlungshita.
- Pressið hvítlauksrif saman við og steikið í stutta stund ásamt chili þar til hvítlaukurinn fer að ilma.
- Kremjið San Marzano-tómatana með höndunum og bætið út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni, basilíkunni og 1 tsk. af hunangi.
- Náið upp suðu og lækkið svo hitann svo það malli rólega í pottinum.
- Látið malla í um 15 mínútur eða þar til sósan þykkist aðeins.
- Fjarlægið basilíkuna, maukið sósuna með töfrasprota og smakkið svo til með salti.
- Takið pítsabotninn úr kæli að minnsta kosti klukkustund áður en elda á pítsuna.
- Setjið pítsastein í neðstu grind í ofni og stillið á hæsta hita (300°C helst).
- Látið steininn hitna á meðan unnið er í öðru.
- Dreifið svolitlu hveiti yfir borðið og notið hendurnar til þess að fletja pítsabotninn út í um 12 cm hringi, leggið svo á bökunarpappír.
- Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 1,5 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.
- Sneiðið piccante salami þunnt ásamt grænu jalapenó.
- Dreifið sósu yfir pítsabotninn og því næst osti. Raðið salami og jalapenó á pítsuna og stráið chiliflögum svo yfir.
- Færið pítsuna á pítsasteininn og bakið þar til pítsan er fallega gyllt og ljúffeng.
- Toppið með hunangi og svörtum pipar þegar pítsan kemur úr ofninum.
- Berið fram og njótið.