Þessi pítsa á eftir að rífa í

Þessi pítsa býður upp á alvöru bragðupplifun sem dásamlegt er …
Þessi pítsa býður upp á alvöru bragðupplifun sem dásamlegt er að njóta. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Þessi bragðmikla og syndsamlega góða pítsa sem kemur úr smiðju Snorra Guðmundssonar matgæðings hjá Matur og myndir og á eftir á slá í gegn í næsta pítsapartíi.

Hún er með piccante salami, jalapenó og spæsí pítsasósu og hunangi. Hún rífur vel í og gerir matarupplifunina enn betri. Margar fjölskyldur eru með pítsakvöld á föstudögum og það er vel hægt að mæla með þessari til að njóta, sérstaklega fyrir þá sem vilja hafa þær bragðsterkar.

Piccante salami og jalapenó pítsa með spæsí pítsasósu og hunangi

  • 400 g San Marzano tómatar
  • 1 rif hvítlaukur
  • 5 g basilíka (stilkur og lauf)
  • 10 g rautt chili
  • 30 ml hunang
  • 220 g pítsadeig
  • 60 g piccante salami (Tariello)
  • 1 stk. grænt jalapenó
  • 120 g mozzarella
  • Chiliflögur, eftir smekk

Aðferð:

  1. Smásaxið chili.
  2. Setjið smá olíu í lítinn pott og stillið á miðlungshita.
  3. Pressið hvítlauksrif saman við og steikið í stutta stund ásamt chili þar til hvítlaukurinn fer að ilma.
  4. Kremjið San Marzano-tómatana með höndunum og bætið út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni, basilíkunni og 1 tsk. af hunangi.
  5. Náið upp suðu og lækkið svo hitann svo það malli rólega í pottinum.
  6. Látið malla í um 15 mínútur eða þar til sósan þykkist aðeins.
  7. Fjarlægið basilíkuna, maukið sósuna með töfrasprota og smakkið svo til með salti.
  8. Takið pítsabotninn úr kæli að minnsta kosti klukkustund áður en elda á pítsuna.
  9. Setjið pítsastein í neðstu grind í ofni og stillið á hæsta hita (300°C helst).
  10. Látið steininn hitna á meðan unnið er í öðru.
  11. Dreifið svolitlu hveiti yfir borðið og notið hendurnar til þess að fletja pítsabotninn út í um 12 cm hringi, leggið svo á bökunarpappír.
  12. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 1,5 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.
  13. Sneiðið piccante salami þunnt ásamt grænu jalapenó.
  14. Dreifið sósu yfir pítsabotninn og því næst osti. Raðið salami og jalapenó á pítsuna og stráið chiliflögum svo yfir.
  15. Færið pítsuna á pítsasteininn og bakið þar til pítsan er fallega gyllt og ljúffeng.
  16. Toppið með hunangi og svörtum pipar þegar pítsan kemur úr ofninum.
  17. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert