Níels Thibaud Girerd ljóstrar upp nokkrum skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni. Hann elskar franska menningu og vín, og kannski ekki skrýtið þar sem hann er hálfur Frakki.
„Þú ert það sem þú borðar,“ sagði einhver. Þetta finnst mér skemmtileg pæling og langar að endurspegla mig í þessari setningu. Ég er alinn upp í eldhúsi móður minnar. Hún er einstakur kokkur, eldar bragðmikinn og einfaldan mat en það er hennar sterkasta hlið í eldhúsinu. Ég hef mikla ástríðu fyrir mat og elska fátt meira en að borða góðan mat.
Þegar ég elda þá vanda ég mig. Hráefnin sem eru í forgrunni hjá mér og raun undirstaðan í matargerð minni er ljómi eða olía, hvítlaukur, salt, pipar, smá chili og þá dett ég í gírinn. Ég er mikill áhugamaður um pasta, finnst gaman að gera einfalda, bragðmikla pastarétti. Kjötið er ég að læra að meðhöndla en mér finnst gaman að „experímenta“ með kjöt. Ég vil snerta allan mat sem ég elda, ég held að það sé tenging á milli snertingar og bragðs,“ segir Níels og glottir.
Níels er leikari og leikstjóri og er um þessar mundir að sýna sýninguna Níels er Napóleon eftir Gunnar Smára Jóhannesson í Hannesarholti.
Sýningin Níels er Napóleon er vínsmökkun og leiksýning sem er nýstárlega og skemmtileg útfærsla.
„Leiksýningin er hönnuð og pöruð við fjögur mismunandi frönsk vín: Freyðivín, hvítvín, rauðvín og við endum á ákveðnu rauðvíni. Síðan verður öllu tjaldað til fimmtudagskvöldið 20. mars næstkomandi en þá er dagur franskrar tungu. Þá munum við standa fyrir hátíðarsýningu í samstarfi við franska sendiráðið hér heima á Íslandi. Á þeirri sýningu verður svo skálað í fimmta glasinu en franska sendiráðið, sem hér steinsnar frá Hannesarholti á Túngötu, hefur flutt inn fyrir okkur vín frá Korsíku sem áhorfendum mun standa til boða að fá dreypa á. En Korsíka er einmitt heimaland okkar manns Napóleon Bonaparte,“ segir Níels og bætir við:
„Ég er hálfur Frakki og hálfur Íslendingur og á bæði fjölskyldu hér heima, á Íslandi og í Frakklandi. Pabbi er franskur og mamma íslensk,“ segir Níels með bros á vör og hefur því mikla ánægju af því að leika Napóleon.
Gunnar Smári Jóhannesson skrifar og leikstýrir sýningunni og fékk Níels til að taka að sér hlutverkið.
„Ferlið hófst á því að hann spurði mig af hverju ég hefði aldrei leikið Napoleon. Eftir það var ekki aftur snúið. Leikarinn og viðfangsefnið tala báðir fallega bjagaða frönsku en Korsíka tilheyrði Ítalíu þegar Napóleon fæddist. Við frumsýndum verkið í Hannesarholti þann 8. mars síðastliðinn við frábærar undirtektir,“ segir Níels og er orðinn spenntur fyrir stóra sýningardeginum.
Níels vill hafa kaffið karamellubrúnt á litinn
Níels svarar hér nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar og flettir ofan af nokkrum af sínum uppáhaldsréttum. Hér hafið þið fengið 360 gráður af Níels Thibaud Girerd. Þú ert það sem þú borðar, eins og Níels kemst sjálfur að orði.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Kaffi með mjólk sem er karamellubrúnt á litinn.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Nei, ég geri það vanalega ekki. Ef svo er gríp ég eitthvað fljótlegt, til dæmis banana.
Ég tek kaffi ekki með sem millimál en seinnipartsbollarnir eru til staðar.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Algjörlega, mér finnst hádegismatur vera undirstaða dagsins og kvöldmatur melting dagsins. Ég þarf líka að næra mig vel yfir daginn ef ég er að sýna um kvöldið eða vinna sjálfur að uppfærslu. Þá skiptir mjög miklu máli að næra sig vel og sérstaklega í hádeginu.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Mjólk í kaffið, ávexti, smjör og ost.“
Borðar þú páskaegg?
„Já, en sækist ég í þau? Nei, það geri ég ekki.“
Hver er uppáhaldspáskaeggjategundin þín?
„Erfið spurning, ég veit það hreinlega ekki. Ætli það sé ekki frá Nóa Síríus, stabílt, gamalt og gott.“
Geymir þú málshættina þína?
„Alls ekki, það geri ég svo sannarlega ekki en ég hef gaman af þeim. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort allir þessir málshættir séu í raun og veru málshættir.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Hornið, engin spurning, besti staðurinn í bænum. Pítsa Americana með lauk, húsvínið þeirra og tíramísú í eftirrétt. Það verða allir hamingjusamir eftir þessa máltíð.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Pítsa Americana en fyrir utan hana hef ég í grunninn enga skoðun á því. Ég hef verið að fá mér Hawai-pítsu síðastliðið ár. Síðan var ég með Dominos Surprize-tímabili það var skemmtilegt.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?
„Allt – eina með öllu. Hef aldrei breytt af þeirri venju.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Gráðostapasta, engin spurning. Uppskriftin er sáraeinföld, læt hana fylgja með.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Bæði, ég er talsmaður beggja hráefna.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Mjólk.“