Gabríel Kristinn Bjarnason landsliðskokkur og matreiðslumaður gaf út matreiðslubókina, Þetta verður veisla!, á síðasta ári sem hefur heldur betur slegið í gegn. Í bókinni er meðal annars að finna þessa uppskrift að girnilegum lax sem borinn er fram með brokkólí, blaðlauk, stökku rósakáli og chimichurri-sósu.
Þetta er hinn fullkomni réttur þegar matreiða þarf í flýti fyrir hvaða tilefni sem er, forrétt, aðalrétt eða bara kvöldmat til að koma fiski inn í rútínuna. Steikt laxaroð og chimichurri er blanda sem steinliggur.
Bókin er stútfull af einföldum eðalréttum sem eiga vel heima í veislum eða í næsta matarboði.
Steikt laxaroð og chimichurri steinliggur saman.
Ljósmynd/Hákon Björnsson
Lax með brokkólí, blaðlauk, stökku rósakáli og chimichurri
Fyrir 4–5
Lax
- 4 stk. laxbitar með roði (4x150 g)
- 3 msk. repjuolía
- 2 msk. smjör
- Salt eftir smekk
Aðferð:
- Leggið laxinn niður þannig að hliðin með roðinu snúi upp.
- Skerið næst þrjár línur í roðið svo það steikist betur.
- Hitið pönnu áháanm hita og bætið við repjuolíu á pönnuna.
- Þegar farið er að rjúka af pönnunni leggið þá laxinn á pönnuna og látið roðið snúa niður. Steikið laxinn vel án þess að hreyfa við honum í um það bil 3-5 mínútur, fer eftir hversu háum hita þið náið upp.
- Snúið síðan laxinum við, hellið smjöri yfir hann með skeið og steikið í um það bil 3-5 mínútur.
- Slökkvið síðan undir pönnunni og látið laxinn liggja á pönnunni í smá tíma.
Bakað brokkolí, blaðlaukur og rósakál
- 1 stk. brokkólí ca. magn, eins og rósakálið
- 1 stk. blaðlaukur
- 100 g rósakál
- 3 msk. ólífuolía
- 200 g rauðvínsedik
- 100 g sykur
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ofninn í 200°C.
- Takið brokkólíið, fjarlægið stilkinn og skerið það í bita.
- Takið til ofnplötu klædda í bökunarpappír og setjið brokkólíbitana á.
- Skerið blaðlaukinn í helming og fjarlægið græna hlutann.
- Skolið síðan laukinn í köldu vatni til að ná sandinum úr.
- Skolið rósakálið og skerið í toppinn svo það opnist fallega í ofninum.
- Raðið blaðlauknum og rósakálinu á bökunarplötuna með brokkólíinu.
- Kryddið allt hráefnið með ólífuolíu, salti og pipar eftir smekk og passið að hafa gott bil á milli grænmetisins svo það fái jafna steikingu.
- Setjið inn í ofn og bakið í 15-30 mínútur, getur verið misjafnt eftir ofnum hversu langan steikingartíma þarf.
- Setjið edik og sykur í pott á meðan grænmetið bakast í ofninum og sjóðið niður í helming eða þar til blandan er orðin að þykkum gljáa. Bætið þá við ólífuolíu svo til verði vinagretta.
- Takið grænmetið úr ofninum þegar það er tilbúið og hellið vinagrettunni yfir.
Chimichurri
- 50 g hvítur laukur
- 50 g hvítlaukur
- 20 g ferskt kóríander
- 100 g fersk steinselja
- 1 tsk. chili-flögur
- 10 g ferskt jalapeno eða chili
- 20 g hvítvínsedik
- 250 g ólífuolía
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að hreinsa ferskt chili/jalapeno með því að skera það í tvennt, skafa fræin úr og skera endana af.
- Setjið síðan allt hráefnið í matvinnsluvél og hrærið vel saman þangað til það er vel maukað, kryddið til með salti og pipar eftir smekk.