Búast má við að óvenjulega líflegt verði í miðbæ Reykjavíkur í dag og kvöld miðað við mánudag. Í dag er St. Patricks Day en honum er jafnan vel fagnað á börum bæjarins.
Arnar Þór Gíslason, veitingamaður á Irishman Pub og fleiri stöðum, segir að stappfullt hafi verið á staðnum á þessum degi í fyrra og hann býst við miklum fjölda gesta síðdegis og í kvöld.
„Við verðum með opið á Irishman til klukkan þrjú í nótt. Ég hvet samt fólk til að mæta snemma. Í fyrra komust færri að en vildu. Þá voru svona 2-300 manns fyrir utan staðinn. Þetta var stærsti dagurinn á Irishman í fyrra.“
Víða bjóða barir tilboðsverð á Guinness og öðrum írskum drykkjarföngum. Þá verður lifandi tónlist til að lífga upp á stemninguna. Þannig hefur heyrst af því að hinn vinsæli söngvari Jökull í Kaleo muni troða upp á Kalda bar klukkan 21 en það hefur ekki fengið staðfest.