Helga Magga næringarþjálfari og gleðigjafi á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Hún heldur úti vefsíðunni helgamagga.is, þar sem hún deilir næringarríkum uppskriftum sem allir ættu að ráða við.
„Ég deili miklu á samfélagsmiðlum af lífi mínu, bæði af næringu og hreyfingu, ég er svona svolítið í því að einfalda fólki lífið, þessi seinnipartsspurning sem svo margir taka við maka sinn klukkan 15:40: „Hvað á að vera í matinn“. Ég er alltaf með svar við henni á heimasíðunni minni með öllum uppskriftunum sem þar eru.
Á Instagram og TikTok er ég með myndbönd við allar uppskriftirnar mínar, það er oft ekki nóg fyrir fólk að sjá að réttur sé einfaldur, það þarf að sjá þetta sjónrænt fyrir sér. Stutt myndband er oft allt sem fólk þarf til að fá kjarkinn í að prófa eitthvað. Já, þetta er einfalt, ég get gert þetta.“
Helga Magga gafst upp á þessari spurningu: „Hvað eigum við að hafa í matinn?“ og planar sjálf hvað á að vera í matinn í um það bil 95% tilvika.
„Þessar elskur, maðurinn minn, Kjartan Páll Sæmundsson, og börnin, kvarta sjaldan. Maðurinn minn sér um aðra hluti á móti. Ég elska vikumatseðla og skipulag, vil helst að kaupa inn fyrir alla vikuna í einni ferð þó að það sé nú ekki beint það sem ég geri, ætli ég fari ekki svona 5 sinnum í búðina í viku. Ég mun setja það á markmiðalistann fyrir árið 2026, orðið of seint núna,“ segir Helga Magga og hlær.
„Það heppnast ekkert allt í eldhúsinu hjá mér. Það er til dæmis stutt síðan ég bauð þeim upp á pastarétt sem var alls ekki tilbúinn, hann var meira svona „pre- al dente“. Og það fyndna var að það voru allir sestir niður, sársvöng börn sem létu sig bara hafa það, enginn tími í að elda matinn lengur. En það er nú einmitt það skemmtilega við eldamennskuna, að sjá hvað virkar og hvað ekki. Börnin eru mínir bestu gagnrýnendur, það fer varla uppskrift á heimasíðuna mína nema með þeirra samþykki. Enda verða uppskriftirnar að vera einfaldar, fljótlegar og krakkavænar.
Hægt er að fylgjast með Helgu á TikTok hér og Instagram hér.
Mánudagur – Mezze rigatoni bolognese í rjómalagðri pestósósu
„Eins mikið og mann langar alltaf í fisk á mánudögum þá er það glæpsamlegt að bjóða börnum upp á fisk á mánudögum og miðvikudögum því þá er alltaf fiskur í skólanum. Fiskur tvisvar á dag er aðeins of mikið að þeirra mati. Svo ég reyni að hafa það í huga þegar ég plana vikuna. Ég held að þessi bolognese-réttur muni slá í gegn heima hjá mér, svo skemmtilegt að nota öðruvísi pasta en maður er vanur að gera, rigatoni er mjög krakkavænt.“
Þriðjudagur - Þorskhnakkar með graskers- og basilpestó
„Þessi réttur hljómar ótrúlega vel, ég hlakka til að prófa.“
Miðvikudagur – Mexíkókjúllaréttur
„Þessi réttur er svo góður og svo mikil próteinbomba, held að fólk sé ekki almennilega að átta sig á því. Hann fær alveg fullt hús stiga frá mér.“
Fimmtudagur – Kjúklingaborgari
„Er eitthvað betra en kjúklingaborgari? Nei, ég held ekki. Allir elska þetta.“
Föstudagur – Pítsakvöld
„Ég þori nú varla að segja frá því að strákurinn minn er kominn með algjörlega nóg af próteinpítsunni sem jafnframt er vinsælasta uppskriftin á heimasíðunni minni. En alla föstudaga er pítsakvöld þar sem er tvíréttað hjá okkur, það er s.s. krakkapítsa og svo próteinpítsa fyrir okkur og elstu dóttur okkar. Ég baka botninn yfirleitt sjálf enda afar fljótlegt, fyrir utan tímann sem fer í að láta deigið hefast.“
Laugardagur – Pad thai núðlur
„Ég er alltaf að leita að hinni fullkomnu pad thai núðlum, bind miklar vonir við þennan rétt.“
Sunnudagur – Hægeldaðir lambaskankar
„Ég elska svona sunnudagsmat, lambaskankar minna mig alltaf á eina mjög svo vandræðalega sögu af sjálfri mér.
Í Covid-inu var ég að vinna hjá Ríkislögreglustjóra í smitrakningarteyminu. Eitt föstudags- eða laugardagskvöld í vinnunni var starfsmannaskemmtun í gangi þar sem fólk tók þátt „online“ heima hjá sér og Ari Eldjárn var að skemmta fólkinu. Hann bað alla um að vera með slökkt á hljóðinu hjá sér og síðan bauð hann upp á uppistand.
Ég var að hlusta en vinna á sama tíma og tók ég að mér að panta mat fyrir samstarfsfélagana. Það sem ég fattaði ekki þegar ég hringdi til að panta matinn var að hljóðið fór á míkrafóninn hjá mér. Ég fór beint í verkið og sagði í símann: „Já, ég ætla að panta sex lambaskanka.“ Síðan hélt ég áfram að tala eitthvað í símann og ranka síðan við mér þegar ég heyrði fólk kalla á mig: „Helga, Helga mín, ertu svöng?“ Lít svo á skjáinn og sé að Ari er stopp, í hláturskasti. Já, ég ruddist bara inn í mitt uppistand hjá Ara Eldjárn fyrir framan 300 manns til að panta lambaskanka.“