Hrepptu bronsið fyrir Íslands hönd

Finnur Guðberg Ívarsson Prigge, Matthías Jóhannesson og Sigrún Sól Vigfúsdóttir …
Finnur Guðberg Ívarsson Prigge, Matthías Jóhannesson og Sigrún Sól Vigfúsdóttir taka við bronsverðlaununum. Ljósmynd/Aðsend

Landslið íslenskra bakara tók þátt í CITY BREAD CHAMPIONSHIP 2025 keppninni í Taiwan núna í vikunni og gerði sér lítið fyrir og hreppti bronsið.

Keppnin var haldin á Tapai International Bakery show í Taiwan og þar náðu íslensku strákarnir þeim stórkostlega árangri að hreppa 3. sætið. Þetta er besti árangur landsliðsins hingað til því keppnin í Tapai er af mörgum fagmönnum talin ein sú erfiðasta í heiminum. Landsliðið hefur aldrei keppt í jafn fjölmennri keppni en það voru 15 lið frá hinum ýmsu löndum í keppninni.

Landsliðið skipa Finnur Guðberg Ívarsson Prigge bakari og Matthías Jóhannesson bakari sem báðir eru nýútskrifaðir sveinar. Matthías tók sveinsprófið vorið 2023 og var hæstur og Finnur síðastliðið vor og var líka hæstur. Með þeim í för var Sigrún Sól Vigfúsdóttir og var hún dómari fyrir Íslands hönd. Sigrún Sól er líka nýútskrifuð sem bakari og konditor frá Danmörku.

Sigursælt síðastliðin þrjú ár

Þeir félagar eru þrátt fyrir ungan aldur engir nýgræðingar í baksturskeppnum. Íslenska landsliðið hefur verið afar sigursælt síðastliðin þrjú ár. Liðið hefur unnið m.a. til brons- og silfurverðlauna á Norðurlandamótinu og lenti í 4. sæti á heimsmeistaramótinu í Berlín árið 2022. Þar hlaut landsliðið jafnframt „The New Country“-verðlaunin sem eru virt í fagstéttinni.

Finnur leggur lokahönd á skrautstykkið í keppninni.
Finnur leggur lokahönd á skrautstykkið í keppninni. Ljósmynd/Aðsend

 „Þetta var mjög skemmtilegt og krefjandi verkefni og við Finnur lögðum okkur alla fram við að gera þetta eins vel og við gátum, við unnum mjög vel saman og samstarfið gekk smurt. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt í þessari keppni og því var þetta svolítið stökk í djúpu laugina en við fengum mikla reynslu og innsýn í hvernig kröfur og hvernig samkeppni er í svona stórri keppni. Í heildina gekk þetta ljómandi vel og liðið fer sátt heim með bronsverðlaunin að keppni lokinni,“ segir Matthías glaður í bragði.

Sigrún Sól með vélmennið góða sem var í forgrunni í …
Sigrún Sól með vélmennið góða sem var í forgrunni í skrautstykki bronshafanna. Ljósmynd/Aðsend

Metnaðurinn er farinn að vekja heimsathygli

Þegar heimsmeistaramót ungra bakara var haldið hér á landi í Hótel- og matvælaskólanum í júní árið 2024 kepptu Hekla Guðrún Þrastardóttir og Stefanía Malen Guðmundsdóttir bakarar fyrir Íslands hönd sem gerðu sér líka lítið fyrir og lentu líka í 4. sæti.

„Dugnaðurinn og þessi mikli metnaður í unga fólkinu er farinn að vekja heimsathygli erlendra fagmanna, sem keppast um að fá að koma til Íslands til að halda námskeið. Stéttin er einstaklega lánsöm að hafa svona efnilegt fólk. Það skiptir líka miklu máli að við eigum svona góðan fagskóla sem Hótel- og matvælaskólinn er og þar eiga Haraldur Sæmundsson framkvæmdastjóri og Árni Þorvarðarson fagstjóri heiður skilinn. Árangur íslenska bakaralandsliðsins er stórkostlegur og er Ísland löngu komið á kortið sem bakaraþjóð,“ segir Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands Bakarameistara.

Hlekk á keppnina má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert