„Sex and the City“ kokteilanámskeiðið það heitasta

Halla Halldórsdóttir, Svandís Halldórsdóttir, Katrín Hauksdóttir og Lára Ágústa Hjartardóttir …
Halla Halldórsdóttir, Svandís Halldórsdóttir, Katrín Hauksdóttir og Lára Ágústa Hjartardóttir skemmtu sér konunglega á „Sex and the City“ kokteilanámskeiðinu. Ljósmynd/Aðsend

Glænýtt kokteilnámskeið hófst í Kokteila- og vínskólanum á dögunum og gerði mikla lukku hjá fyrsta hópnum sem fór dansandi glaður heim. Námskeiðið ber yfirskriftina „Sex and the City“ og er það nafn með rentu.

Barþjónninn Freyja Þórisdóttir stendur fyrir námskeiðinu og er í hamingjukasti með viðtökurnar.

Freyja hóf störf sem þjónn á Forréttabarnum haustið 2022 og byrjaði samhliða því að vinna sem barþjónn í veislum fyrir Reykjavík Cocktails. Síðan þá hefur hún tekið þátt á kokteilakeppnum en sem dæmi má nefna Barlady-keppnina sem haldin var í janúar síðastliðnum en þar hreppti hún 3. sætið með drykknum Violet Femmes. Þá hefur Freyja verið í fullu starfi í að verða ár hjá Ivani Svan Corvasce sem á og rekur Reykjavík Cocktails, Kokteila- og vínskólann á Spritz.

Byrjaði að horfa á þættina upp á nýtt

„Hugmyndin að Sex and the City þemanámskeiðinu fæddist síðasta sumar en Freyja hafði byrjað að horfa á þættina upp á nýtt og fór að spá hvort að þeir næðu ekki þvert á nokkrar kynslóðir enda voru þeir að koma út um aldamótin en eru ennþá verulega vinsælir og þekktir,“ segir Ivan.

„Við höfðum verið með Mojito þemanámskeið sem sló í gegn stuttu áður og því klárt að við þyrftum að fara að halda fleiri aukanámskeið. Svo skall á rosa törn um haustið og alveg fram að jólum. Því var það ekki fyrr en núna í upphafi árs sem að við ákváðum loks að keyra þetta í gang,“ bætir Ivan við.

Námskeiðið einkenndist af gleði, smá glimmeri og skvísutónlist. Eitt af því fyrsta sem Freyja undirbjó var lagalistinn.

„Svo var Spritz Venue-salurinn skreyttur með diskókúlum og bleikum blómum dreift svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu hófst námskeiðið á freyðivíni á línuna en fyrsti kokteill kvöldsins var svo Cosmopolitan en stelpurnar í SATC panta sér ósjaldan svoleiðis í þáttunum,“ segir Freyja með bros á vör.

Kristín Þórisdóttir og Hrafnhildur Helgadóttir voru glaðar með námskeiðið.
Kristín Þórisdóttir og Hrafnhildur Helgadóttir voru glaðar með námskeiðið. Ljósmynd/Aðsend

Töfraði fram ylliblóma- og blóðappelsínudrykk

Freyja fékk svo samstarfsmann sinn Bjart Dalberg til að töfra fram æðislegan ylliblóma- og blóðappelsínudrykk sem fékk nafnið Pinky Promise. „Að lokum gerðum við Pornstar Martini saman,“ bætir Freyja við.

Að sögn Freyju fá allir þátttakendur uppskriftir að kokteilunum sem gerðir eru. „Fyrir námskeiðið voru prentaðir út uppskriftarmiðar en það er mikið lagt upp úr því í Kokteilaskólanum að auðveldlega sé hægt að endurtaka leikinn þegar heim er komið. Öll hráefni sem eru notuð er hægt að nálgast sjálfur og sírópin sem eru í uppskriftunum eru gerð á mjög einfaldan máta svo að það flækist örugglega ekki fyrir neinum.“

Aðspurð segir Freyja að það sé alveg möguleiki á því að haldin verði fleiri námskeið af þessu tagi.

Helga Signý Sveinsdóttir, sigurvegari Barlady á Íslandi '24 sýnir réttu …
Helga Signý Sveinsdóttir, sigurvegari Barlady á Íslandi '24 sýnir réttu handtökin við kokteilakgerðina og aðstoðaði Freyju. Ljósmynd/Aðsend

Áhuginn kom skemmtilega á óvart

„Það var alveg við því að búast að námskeiðið vekti áhuga en þó kom skemmtilega á óvart hversu mikill hann reyndist vera. Fyrri dagsetningin seldist upp á innan við sólarhring og sú seinni á örfáum dögum. Annars eru nokkur fleiri þemanámskeið væntanleg á þessu ári og verða þau öll auglýst vel á Instagram og Facebook-síðum Kokteilaskólans.

Við erum byrjuð að taka við hópabókunum á næstu Sex and the City kokteilnámskeiðin og þegar hafa nokkrir hópar tekið frá dagsetningar á námskeið sem haldin verða í vor. Við hvetjum vinahópa og fyrirtæki til að kynna sér einkanámskeiðin okkar en það er varla hægt að fá skemmtilegra hópefli en hjá okkur í Kokteilaskólanum,“ segir Freyja og bætir við að lokum að hægt sé að hafa samband hafi einhverjir hugmyndir að skemmtilegu þema fyrir námskeið sem þessi.

 

Allar konurnar fylgdust áhugasamar með Freyju Þórisdóttur kenna listina við …
Allar konurnar fylgdust áhugasamar með Freyju Þórisdóttur kenna listina við kokteilagerð. Ljósmynd/Aðsend
Fjölbreytt úrval drykkjafanga fara í kokteilagerðina.
Fjölbreytt úrval drykkjafanga fara í kokteilagerðina. Ljósmynd/Aðsend
Kokteilarnir voru myndaðir bak og fyrir.
Kokteilarnir voru myndaðir bak og fyrir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert