Dubai-súkkulaði páskaeggin sem allir verða að prófa

Dubai-súkkulaðið hefur slegið í gegn á Íslandi að undanförnu svo …
Dubai-súkkulaðið hefur slegið í gegn á Íslandi að undanförnu svo nú dugar ekkert minna en að prófa að gera páskaegg í þeim anda. mbl.is/Aðsend

Það kannast án efa margir við bakarann Elenoru Rós Georgsdóttur sem vakið hefur athygli að undanförnu fyrir einstaka hæfileika sína í eldhúsinu. Hér gefur hún lesendum einfalda uppskrift að Dubai-súkkulaði páskaeggjum sem munu án efa slá í gegn á heimilum landsmanna um páskana. 

„Ég var að passa litlu frænkur mínar alla síðustu helgi og ákváðum við að taka smá forskot á sæluna þar sem ég fer aftur til London bráðlega og fórum við í páskaeggjaleit með litlum Dubai-eggjum. Það sló algjörlega í gegn!

Eldri frænka mín, sem er níu ára, er algjörlega með puttann á púlsinum tengt öllu því sem er vinsælt núna. Hún vildi gera með mér Dubai-súkkulaði. Ég ákvað að auðvelda mér aðeins ferlið og nýta litlu páskaeggin í uppskriftina. Við eyddum einum degi í að útbúa eggin sem slógu heldur betur í gegn hjá öllum á heimilinu,“ segir Elenora Rós Georgsdóttir metsöluhöfundur og bakari. 

Það var níu ára frænka Elinoru sem fékk hana til …
Það var níu ára frænka Elinoru sem fékk hana til að prófa sig áfram með uppskrift að Dubai-súkkulaði páskaeggjum. mbl.is/Aðsend

Elenora hefur sagt frá því í fjölmiðlum hvernig eldhúsið á fjölskylduheimili hennar hafi ávallt verið gríðarstaðurinn hennar og að hún hafi byrjað að æfa sig með móður sinni í eldhúsinu mjög ung að aldri. Elenora var fjórtán ára þegar hún fékk fyrsta launaða starfið í bakaríi og hefur ekki litið til baka síðan. Hún er nú búsett í London og deilir hér með lesendum Matarvefsins gómsætu Dubai-súkkulaði páskaeggjauppskriftinni sem allir ættu að prófa að gera með börnunum í eldhúsinu. 

„Ég tók nýverið við starfi í virkilega flottu bakaríi í London. Þangað flutti ég fyrir um tveimur árum síðan til að öðlast meiri reynslu sem bakari en einnig því ég heillaðist svo af borginni og menningunni og langaði að prófa eitthvað nýtt. Ég hef stækkað mikið sem manneskja og öðlast þekkingu sem ég hefði aldrei getað öðlast sem bakari hér heima. Þetta hefur verið oft og tíðum mjög krefjandi en á sama tíma algjörlega magnað og einn besti tími lífs míns. Bakaríið sem ég vinn í úti er mjög þekkt og nýtur mikilla vinsælda í London. Þau eru að töfra fram algjör listaverk en eru samt í frekar „rustic“ stíl sem höfðar vel til mín. Ég hef fengið að kynnast og lært af alveg mögnuðum bökurum síðan ég flutti út og nýt þess mikið að læra um nýjar aðferðir, ný hráefni og fá tækifæri til að skapa meðal svona hæfileikaríks fólks,“ segir Elenora. 

Dubai-súkkulaði páskaegg

  • 15 lítil páskaegg 
  • Einn kassi jarðaber
  • 400 g pistasíukrem
  • 300-400 g Kataifi
  • 60 g smjör
  • Smá salt

Aðferð:

  1. Byrjið á að skera toppinn af litlu eggjunum.
  2. Skerið Kataifi deigið niður í smærri einingar.
  3. Bræðið næst smjörið á pönnu við vægan hita. Þegar smjörið er allt bráðið fer Kataifi-ið út á pönnuna og steikt þar til það er orðið gullinbrúnt.
  4. Setjið pistasíukremið í skál og þegar deigið er orðið gullinbrúnt er þessu öllu blandað vel saman ásamt smávegis af salti.
  5. Skerið jarðaberin smátt niður og byrjið á að fylla botninn í eggjunum með jarðaberjum.
  6. Setjið næst pistasíufyllinguna í eggin og skreytið fallega. Þá eru þið komin með gómsæt Dubai-súkkulaði páskaegg!
Það getur verið góð hugmynd að gera lítil egg fyrir …
Það getur verið góð hugmynd að gera lítil egg fyrir páskana. mbl.is/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert