Snorri Guðmundsson matgæðingur með meiru á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni og býður í sælkeraveislu með réttum, sem allir eru úr hans smiðju. „Lífið mitt hefur síðustu tíu árin snúist að mestu mestu leiti um mat og því má segja að ég starfi við það sem ég brenn mest fyrir,“ segir Snorri Guðmundsson matgæðingur og þróunarstjóri hjá Eldum rétt. „Ég er oftast byrjaður að hugsa um hvað verður í kvöldmat áður en ég klára morgunmatinn! En ég bý í Kópavogi með 6 ára dóttur minni, henni Vöku, sem er bæði minn helsti smakkari og harðasti gagnrýnandi,“ segir Snorri sem hefur sérhæft sig í matarljósmyndun, matarstíliseringu og uppskriftagerð svo eitthvað sé nefnt.
Matur er helsta ástríðan í lífi Snorra. „Mér líður langbest í eldhúsinu að elda eitthvað gott og þykir fátt skemmtilegra en að gera vel við mína nánustu í mat. Ég held að ég sé samt frekar erfiður með að láta hjálpa mér við eldamennskuna, því ég vil gera allt á vissan hátt svo maturinn líti sem best út. Þar kemur fullkomnunaráráttan hjá matarljósmyndaranum fram.“
Ertu góður kokkur?
„Ég get með góðri samvisku sagt að ég geti að minnsta kosti bjargað mér ágætlega í eldhúsinu. Síðast þegar ég athugaði var ég búinn að þróa um 1500 uppskriftir og það lærist ýmislegt með því.“
Snorri telur alla geta öðlast færni í eldhúsinu með æfingunni. „Það er með þetta eins og allt annað í lífinu, þar sem galdurinn er að byrja rólega og fylgja góðum ráðum og uppskriftum. Með tímanum fær maður tilfinningu fyrir matnum og getur byrjað að fikra sig áfram sjálfur. Eitt af því skemmtilegasta tengt starfi mínu er einmitt þegar maður heyrir frá fólki að það sé búið að læra heilmikið um eldamennsku út frá uppskriftunum manns,“ segir hann.
Snorri er sammála blaðamanni um að matur sé stór hluti af sjálfsrækt og það sé mikil sjálfsvirðing fólgin í matarvali okkar. „Matur er nærandi bæði fyrir líkama og sál og það er fátt betra en að gera vel við sig í mat. Stundum þýðir það að einbeita sér að hollustunni og góðri næringu en mér þykir alveg jafn mikilvægt að láta líka eftir sér með einhverju sérstaklega ljúffengu. Meðalhófið er lykillinn að mínu mati!“
Sjálfur notar Snorri vikumatseðla. „Ég vel mér fjölbreyttan mat til að hafa vikuna skemmtilegri. Á virku dögunum er mjög dýrmætt að geta reitt fram góða máltíð á stuttum tíma en þegar kemur að helginni er auðveldara að eyða meiri tíma í kvöldmatinn,“ segir Snorri.
„Tacos er eitt af því betra sem ég fæ og ég er sérstaklega veikur fyrir risarækjutacos,“ segir Snorri.
Risarækjutacos að hætti Snorra
„Ég er hamborgarasjúkur og hef hamborgara oftast í hverri viku. Það tekur enga stund að elda hamborgara og það er svo gaman að leika sér með mismunandi hráefni,“ segir Snorri.
Kimchi beikonborgari að hætti Snorra
„Ég geri mjög reglulega eitthvað í líkingu við þennan rétt. Enda er snilld að nota afgangskjúkling ef hann er til. Þá erum við að tala um kvöldmat á skotstundu,“ segir Snorri.
Sesam sojaeggjanúðlur með kjúkling að hætti Snorra
„Mér þykir bleikja æði og þá sérstaklega með einhverju fersku eins og þessu mangó salsa. Gott er að hafa brún hrísgrjón með og gott salat. Þetta er réttur sem getur ekki klikkað!“
„Eins og sannur Íslendingur þá hef ég pizzu á föstudögum. Það þarf ekkert að útskýra það nánar. Pizza á föstudögum er málið!“
„Á laugardögum vil ég gera vel við mig með góðri steik eða einhverju hægelduðu þar sem maður hefur tíma.“
„Á sunnudögum er gaman að fá fólk í heimsókn og þá er kjörið að bjóða upp á eitthvað gott eins og þessar pönnukökur.“