Hörkuspennandi keppni um Kokk og Grænmetiskokk ársins fram undan

Bjarki Snær Þorsteinsson sigraði keppnina um Grænmetiskokk ársins í fyrra, …
Bjarki Snær Þorsteinsson sigraði keppnina um Grænmetiskokk ársins í fyrra, 2024, og Hinrik Örn Lárusson keppnina um Kokk ársins 2024. Ljósmynd/Mummu Lú

Keppnirnar um Kokk ársins og Grænmetiskokk ársins fara fram í verslun Ikea í Garðabæ um næstkomandi helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Klúbbi matreiðslumanna á vef íslenska kokkalandsliðsins.

Forkeppni um Kokk ársins hefst á morgun, fimmtudaginn 27. mars, þar sem átta keppendur keppa um fimm sæti í úrslitakeppninni sem fram fer á laugardaginn.

Keppnin Kokkur ársins var fyrst haldin árið 1994 og hefur hún verið ein mikilvægasta keppni fagkokka á Íslandi síðan. Á síðasta ári sigraði Hinrik Örn Lárusson keppnina og hélt svo áfram að keppa á Global Chef Europe fyrr á þessu ári. Þar stóð hann sig frábærlega og sigraði í Europe North-hluta keppninnar. Hinrik mun keppa í úrslitakeppni Global Chef sem fer fram í Wales í maí á næsta ári.

Sá sem fer með sigur af hólmi í árlegri keppni Kokks ársins öðlast rétt til að taka þátt í Nordic Chef á næsta ári – en sú keppni sameinar hæfileikaríkustu kokka Norðurlandanna.

Þau sem keppa til úrslita um sætin fimm á morgun eru:

  • Kristín Birta Ólafsdóttir
  • Jafet Bergmann Viðarsson
  • Hugi Rafn Stefánsson
  • Wiktor Pálsson
  • Ísak Jóhannsson
  • Gunnar kokkur
  • Bjarni kokkur
  • Gabríel Kristinn Bjarnason

Keppnin um Grænmetiskokk ársins fer fram á föstudaginn

Á föstudaginn verður keppnin um Grænmetiskokk ársins, sem hefst klukkan 12:00 og lýkur klukkan 19:00. Sigurvegarinn mun taka þátt í Nordic Green Chef í Herning í Danmörku í mars næsta árs. Þetta er í annað sinn sem Klúbbur matreiðslumeistara heldur þessa keppni.

Fyrsta keppnin fór fram árið 2024, og þar stóð Bjarki Snær Þorsteinsson uppi sem sigurvegari. Hann keppti síðar fyrir Íslands hönd á Global Vegan Chef Europe, sem haldin var í Rimini á Ítalíu í febrúar, þar sem hann hafnaði í þriðja sæti í Europe North.

Fyrir áhugasaman verður beint streymi frá báðum keppnunum, á föstudag og laugardag, á matarvef mbl.is.

Mikið var um dýrðir í fyrra þegar keppt var til …
Mikið var um dýrðir í fyrra þegar keppt var til úrslita og má búast við hraðri keppni í ár. Samsett mynd

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert