Á dögunum sæmdi Annie Genevard, landbúnaðar- og matvælaráðherra Frakklands, kökugerðardrottninguna Nina Métayer frönsku landbúnaðarorðunni. Þetta kemur fram á franska fréttamiðlinum Paris Match.
Í desember síðastliðnum var Nina Métayer, sem var alheimskökugerðarmaður ársins 2023, líka sæmd frönsku heiðursorðunni Ordre national du Mérite (France) fyrir störf sín. Það er á engan hallað að Métayer, sem er fyrsta konan til að verða alheimskökugerðarmaður ársins, sé sú fremsta í röð kvenna í iðninni í heiminum.
Fyrir þá sem ekki vita þá fetaði Métayer í fótspor Sigurðar Más Guðjónssonar í Bernhöftsbakaríi sem var alheimskökugerðarmaður ársins 2022. Þykir það mikill heiður fyrir Ísland að eiga fulltrúa í þessum hópi og hvatning fyrir iðngreinina í heild sinni hér á landi. Sigurður kynnist Métayer og manninum hennar árið 2023 í gegnum sameiginlega vini og segir þau hjónin einstaklega almennileg.
„Með miklu þakklæti deili ég með ykkur tilnefningu minni til riddara frönsku landbúnaðarorðunnar l'ordre du mérite Agricole,“ sagði Métayer þegar hún tók við verðlaununum í París í síðustu viku.
„Þessi viðurkenning snertir mig sérstaklega vegna þess að hún undirstrikar það mikilvægasta í faginu en það eru gæði og uppruni hráefnisins sem við, bakarar og kökugerðarmenn, elskum að vinna mikið með í daglegum störfum okkar. Svæðisbundin vara eins og smjör og salt frá mínu heimahéraði, franskt mjöl og árstíðabundnir ávextir. Án þeirra hefðu brauðin okkar og kökurnar enga sál eða bragð.“
Métayer hélt áfram að sýna þakklæti sitt og var einlæg í ræðu sinni. „Í dag vil ég tileinka þennan mikla heiður hæfileikaríka og ástríðufulla starfsfólkinu mínu og einnig öllum þeim konunum og körlunum sem framleiða fallegar vörur sem við fáum að njóta. Það eru forréttindi að geta sýnt og gert þessar kræsingar sem eru fullar af góðgæti.
Hjartans þakklæti til allra bænda, ræktenda, ávaxtaræktenda, trjáræktenda, bænda og framleiðenda á frönskum yfirráðasvæðum okkar fyrir skuldbindingu þeirra og sérfræðiþekkingu sem hjálpar til við að varðveita líf, landslag okkar og líffræðilegan fjölbreytileika,“ sagði Métayer enn fremur.
Hún var mjög auðmjúk í tilefni þessa og þakkaði Annie Genevard, landbúnaðar- og matvælaráðherra Frakklands og frú Marie Sauce-Bourreau, yfirmanni landbúnaðarorðunnar, sérstaklega fyrir að leyfa sér að segja frá hversu mikla ábyrgð handverksmenn í matargerðarlistinni hafa, að þeir beri mikla ábyrgð á því að viðurkenna landbúnaðarheiminn og varðveislu nærandi gæða fransks landbúnaðar sem virðir landið og einnig bændur. Að lokum þakkaði hún sælkerum fyrir samfylgdina.
Orðan umrædda var stofnuð 7. júlí árið 1883, byggð á tillögu þáverandi landbúnaðarráðherra Jules Méline, í viðleitni til að umbuna fólki í þjónustu við landbúnað á viðunandi hátt. Rök hans voru þau að meira en átján milljónir Frakka lifðu beint af þessari atvinnugrein sem hafði bein og öflug áhrif á allt þjóðarbúið, þ.e.a.s. bændur, búfræðingar, prófessorar, og vísindamenn svo fátt sé nefnt. Vinnan var mikil og endaði aldrei, en verðlaun voru sjaldgæf.
Í upprunalegu tilskipuninni frá árinu 1883 voru aðeins „riddarar“ (franska: „chevaliers“). Tilskipunin frá 18. júní árið 1887 bætti við einkunninni „Stórriddarar“ (franska: „Officier“). Þriðji bekkur, kommandörar“ (franska: „Commandeur“), var stofnaður með tilskipun frá 3. ágúst 1900. Núverandi form og reglugerð landbúnaðarverðmæta var lýst í tilskipun 59-729 frá 15. júní 1959.
Orðan samanstendur af um það bil 340.000 viðtakendum til þessa, þar af um það bil 23.000 á lífi hverju sinni, þar á meðal allir fyrrverandi landbúnaðarráðherrar Frakklands sem eru á lífi. Stórriddarar eru um það bil 60.000 hingað til og um það bil 5.000 á lífi og um það bil 4800 voru gerðir að Kommandörum hingað til, þar sem um það bil 400 eru á lífi á hverjum tíma.
Hægt er að fylgjast með Ninu Métayer á Instagram hér.