Tjúllaður kjúklingur í milanese eins og Hanna vill hafa hann

Ómótstæðilega girnilegur kjúklingur í milanese borinn fram með kartöflumús sem …
Ómótstæðilega girnilegur kjúklingur í milanese borinn fram með kartöflumús sem bráðnar í munni. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Ef ykkur langar í eðalgóðan og safaríkan kjúklingarétt þá er þetta málið. Þetta er tjúllaður kjúklingur í milanese og uppskriftin kemur frá Hönnu Thordarson, matgæðingi og keramiker, en hún fékk hana úr smiðju Hilmars vinar síns.

Hanna hefur aldrei verið mikil schnitzelkona en fannst þessi útgáfa hljóma vel.

„Fyrsta mál á dagskrá var því að éta ofan í mig einhverjar fullyrðingar um að schnitzel væri vont og næla í uppskriftina. Rétturinn sló heldur betur í gegn og vel borðaður af ungum sem öldnum,“ segir Hanna eftir að hafa eldað og snætt þennan rétt.

Eins og fram kemur hjá Hönnu má steikja kjúklinginn aðeins áður og þá er bara eftir að skella honum í ofninn 25 mínútum áður en hann er borinn á borð.Rétturinn passar mjög vel með heimalagaðri kartöflumús og fersku salati. Fyrir þá sem eru hrifnir af smjöri er upplagt að bjóða upp á brætt smjör.

Tjúllaður kjúklingur í milanese

  • 3 stórar kjúklingabringur (820 – 850 g), láta þær ná stofuhita.
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Rúmlega 1 dl rasp
  • 1 tsk. hvítlauksduft
  • 3 msk. parmesanostur, rifinn fínt
  • 1 egg, pískað
  • Smjör og olía til steikingar
  • 6 – 9 litlar mozzarella-kúlur, skornar í tvennt eða þrennt

Aðferð:

  1. Mjög gott er að taka bringurnar út eitthvað áður svo þær nái stofuhita.
  2. Skerið kjúklingabringurnar í tvennt þversum (þannig að hún verður þynnri).
  3. Stráið salti og pipar yfir.
  4. Hitið ofninn í 180°C (yfir- og undirhiti).
  5. Blandið saman raspi, hvítlauksdufti og parmesanosti í skál.
  6. Pískið egg vel saman með gaffli í skál, betra er að hvítan blandist vel saman við rauðuna.
  7. Hitið pönnu og setjið smjörbita og steikingarolíu á pönnuna.
  8. Gott er að setja hluta af raspblöndunni í skál við hliðina á eggjaskálinni og bætið svo reglulega við, þá koma síður kekkir í raspblönduna.
  9. Dýfið bringunum í eggjahræruna og næst í raspblönduna.
  10. Setjið bringurnar á heita pönnu og steikið á hvorri hlið þannig að fallegur litur myndast.
  11. Hönnu finnst gott að steikja á lítilli pönnu tvær og tvær sneiðar í einu.
  12. Eftir tvær umferðir er oft komið brennt rasp í pönnuna sem hefur orðið eftir.
  13. Þá er auðvelt að skola pönnuna og byrja aftur með hreina.
  14. Alls ekki nauðsynlegt en Hönnu finnst fallegri litur koma á bringurnar með þessu móti
  15. Raðið bringunum í eldfast fat eða í ofnskúffu.
  16. Raðið 3 – 4 mozzarellasneiðum á hverja og eina bringu og setjið fatið inn í ofninn í 23 – 25 mínútur. Tímalengdin er svolítið háð stærð bringanna.
  17. Tilvalið er að þið skerið í eina bringuna og athugið hvort hún sé steikt í gegn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka