Tjúllaður kjúklingur í milanese eins og Hanna vill hafa hann

Ómótstæðilega girnilegur kjúklingur í milanese borinn fram með kartöflumús sem …
Ómótstæðilega girnilegur kjúklingur í milanese borinn fram með kartöflumús sem bráðnar í munni. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Ef ykk­ur lang­ar í eðalgóðan og safa­rík­an kjúk­linga­rétt þá er þetta málið. Þetta er tjúllaður kjúk­ling­ur í mila­nese og upp­skrift­in kem­ur frá Hönnu Thor­d­ar­son, mat­gæðingi og kera­miker, en hún fékk hana úr smiðju Hilm­ars vin­ar síns.

Hanna hef­ur aldrei verið mik­il schnitzel­kona en fannst þessi út­gáfa hljóma vel.

„Fyrsta mál á dag­skrá var því að éta ofan í mig ein­hverj­ar full­yrðing­ar um að schnitzel væri vont og næla í upp­skrift­ina. Rétt­ur­inn sló held­ur bet­ur í gegn og vel borðaður af ung­um sem öldn­um,“ seg­ir Hanna eft­ir að hafa eldað og snætt þenn­an rétt.

Eins og fram kem­ur hjá Hönnu má steikja kjúk­ling­inn aðeins áður og þá er bara eft­ir að skella hon­um í ofn­inn 25 mín­út­um áður en hann er bor­inn á borð.Rétt­ur­inn pass­ar mjög vel með heima­lagaðri kart­öflumús og fersku sal­ati. Fyr­ir þá sem eru hrifn­ir af smjöri er upp­lagt að bjóða upp á brætt smjör.

Tjúllaður kjúklingur í milanese eins og Hanna vill hafa hann

Vista Prenta

Tjúllaður kjúk­ling­ur í mila­nese

  • 3 stór­ar kjúk­linga­bring­ur (820 – 850 g), láta þær ná stofu­hita.
  • Salt og pip­ar eft­ir smekk
  • Rúm­lega 1 dl rasp
  • 1 tsk. hvít­lauks­duft
  • 3 msk. par­mesanost­ur, rif­inn fínt
  • 1 egg, pískað
  • Smjör og olía til steik­ing­ar
  • 6 – 9 litl­ar mozzar­ella-kúl­ur, skorn­ar í tvennt eða þrennt

Aðferð:

  1. Mjög gott er að taka bring­urn­ar út eitt­hvað áður svo þær nái stofu­hita.
  2. Skerið kjúk­linga­bring­urn­ar í tvennt þvers­um (þannig að hún verður þynnri).
  3. Stráið salti og pip­ar yfir.
  4. Hitið ofn­inn í 180°C (yfir- og und­ir­hiti).
  5. Blandið sam­an raspi, hvít­lauks­dufti og par­mesanosti í skál.
  6. Pískið egg vel sam­an með gaffli í skál, betra er að hvít­an bland­ist vel sam­an við rauðuna.
  7. Hitið pönnu og setjið smjör­bita og steik­ingarol­íu á pönn­una.
  8. Gott er að setja hluta af raspblönd­unni í skál við hliðina á eggja­skál­inni og bætið svo reglu­lega við, þá koma síður kekk­ir í raspblönd­una.
  9. Dýfið bring­un­um í eggja­hrær­una og næst í raspblönd­una.
  10. Setjið bring­urn­ar á heita pönnu og steikið á hvorri hlið þannig að fal­leg­ur lit­ur mynd­ast.
  11. Hönnu finnst gott að steikja á lít­illi pönnu tvær og tvær sneiðar í einu.
  12. Eft­ir tvær um­ferðir er oft komið brennt rasp í pönn­una sem hef­ur orðið eft­ir.
  13. Þá er auðvelt að skola pönn­una og byrja aft­ur með hreina.
  14. Alls ekki nauðsyn­legt en Hönnu finnst fal­legri lit­ur koma á bring­urn­ar með þessu móti
  15. Raðið bring­un­um í eld­fast fat eða í ofnskúffu.
  16. Raðið 3 – 4 mozzar­ellasneiðum á hverja og eina bringu og setjið fatið inn í ofn­inn í 23 – 25 mín­út­ur. Tíma­lengd­in er svo­lítið háð stærð bring­anna.
  17. Til­valið er að þið skerið í eina bring­una og at­hugið hvort hún sé steikt í gegn.
mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert