Þetta súkkulaðibananabrauð er með mjög miklu súkkulaðibragði og lítur hreinlega út eins og risasúkkulaðistykki. Það er í rauninni ótrúlegt að það innihaldi engan viðbættan sykur. Uppskriftin kemur úr smiðju Önnu Eiríks einkaþjálfara og eiganda annaeirkis.is.
Þeir sem elska dökkt súkkulaði eiga eftir að elska þessa uppskrift, sennilega tryllast af gleði við hvern bita.
„Ég persónulega er meira fyrir mjólkursúkkulaði (því miður) þannig að fyrir mig er þetta næstum því of mikið dökkt bragð en maðurinn minn sem elskar dökkt súkkulaði var hæstánægður með þetta,“ segir Anna og brosir.
Anna Eiríks einkaþjálfari býður meðal annars upp á fjarþjálfun og er sniðugri en flestir að búa til einfalda, holla og bragðgóða rétti sem gleðja bragðlaukana.
Ljósmynd/Aðsend
Nú er bara að prófa og gera góðan dag betri með súkkulaði.
Súkkulaðibananabrauð
- 3 stappaðir bananar (vel þroskaðir)
- 1/3 bolli fljótandi kókosolía
- 1 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 1/3 bolli hlynsíróp (eða Agave)
- 1 bolli spelt/hveiti
- 1/3 bolli kakó
- 1 tsk. lyftiduft
- 3/4 bolli dökkir súkkulaðidropar
Aðferð:
- Blandið öllu saman í hrærivélaskál eða hrærið saman í skál með sleif.
- Ef þið blandið þessu saman með sleif stappið þá bananana fyrst saman, bætið svo við eggjum, vanilludropum, kókosolíu, hlynsírópi og loks öllum þurrefnum.
- Bætið súkkulaðidropum saman við í lokin.
- Hellið svo blöndunni í eldfast brauðform og setjið smá súkkulaðidropa ofan á.
- Vakið við 180°C í um það bil 45 mínútur.
- Njótið vel.